Sunnudagur 30.06.2013 - 01:03 - FB ummæli ()

Vissi Bjarni ekki betur?

Hvernig getur það átt sér stað að Bjarni Benediktsson, lögfræðingur og formaður Sjálfstæðisflokksins, trommar upp í fjölmiðlum og segist ætla að láta breyta lögum svo leggja megi landsdóm niður?

Vissi hann virkilega ekki að til þess að leggja niður landsdóm dugar ekki að breyta lögum?

Það þarf að breyta stjórnarskránni.

Og hvernig stóð á því að enginn fjölmiðill sem sagði frá orðum Bjarna fattaði þetta?

Þeir sögðu bara allir gagnrýnislaust frá orðum hans um að breyta lögum án þess að minnast á að stjórnarskrárbreytingu þurfi til.

Auðvitað á að leggja landsdóm niður. Hann er barn síns tíma en var þó líklega alla tíð andvana fæddur.

Ef Bjarni hefði hins vegar haft rænu á að styðja stjórnarskrá stjórnlagaráðs gæti vinna við þetta verið farin af stað, því þar er einmitt gert ráð fyrir því að landsdómur verði lagður niður.

En hann – sem barðist með sínum mönnum af óbilandi hörku gegn nýju stjórnarskránni – þekkti hann þá hvorki þá gömlu né þá nýju nógu vel til að vita að um landsdóm þarf að véla með stjórnarskrárbreytingum?

Ég sá líka að á Facebook fögnuðu ýmsir sjálfstæðismenn framtaki Bjarna og virtust heldur ekki vita að breyta þyrfti stjórnarskránni.

En þeir töldu sig þó þess umkomna að hamast mót nýju stjórnarskránni í fyrra og hitteðfyrra.

Hmmmm.

Jæja – guð láti gott á vita, þeir ganga þá kannski í það verk að koma nýju stjórnarskránni með öllum sínum samfélagsbótum í gagnið.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!