Mánudagur 01.07.2013 - 17:49 - FB ummæli ()

Það sem fréttastjóri Moggans gerði ekki

Í Morgunblaðinu var á föstudaginn viðtal við Ármann Einarsson framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Auðbjargar í Þorlákshöfn.

Fyrirtækið stendur illa og samkvæmt viðtalinu við Ármann er sökin veiðigjaldanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti á.

„Þetta lítur ekki vel út og ég er ekki bjartsýnn,“ segir Ármann. „Ef fyrri ríkisstjórn [Jóhönnu] hefði verið áfram hefði verið hægt að loka strax.“

Síðan veifar Ármann því þrautreynda tré að kenna hinni vondu Reykjavík um allt sem aflaga getur farið utan borgarmarkanna:

„Þetta stefnir allt að því að sjúga pening af landsbyggðinni til Reykjavíkur.“

Ármann heldur svo áfram og segir að ef veiðigjöldin hefðu haldist eins há og ríkisstjórn Jóhönnu vildi hefði það leitt til gjaldþrota flestra sjávarútvegsfyrirtækja á landinu.

Og að lokum leggst hann í miklar spekúlasjónir i viðtengingarhætti um það hvernig ríkisstjórn Jóhönnu mundi svo ábyggilega hafa hækkað veiðigjöldin eftir nokkur ár, ef hún hefði haldið völdum, og þá hefðu veiðigjöldin orðið svona og svona há og það hefði gengið frá íslenskum sjávarútvegi.

Ekki er að sjá að Morgunblaðið hafi gert nokkra athugasemd við þessar hugleiðingar framkvæmdastjórans.

En ekki skal mig undra þótt lesendum Moggans hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds við lesturinn.

Guði sé lof, hafa þeir sjálfsagt hugsað, að það tókst að koma þessari skaðræðisríkisstjórn frá völdum.

Og guði sé lof að nú skuli eiga að lækka veiðigjöldin og fella þau reyndar alveg niður.

Sjúkk – á síðustu stundu.

Nema hvað.

Á DV hafa menn líka lesið þessa viðtal Moggans við Ármnn Einarsson.

Og á því blaði gerði fréttastjórinn það sem fréttastjóri Moggans hefði átt að gera.

Kannaði sannleiksgildi staðhæfinga Ármanns Einarssonar um að veiðigjöldin væru að ganga af útgerðarfélaginu Auðbjörgu dauðu.

Og komst að því – með því einfaldlega að lesa ársskýrslur Auðbjargar síðustu árin – að þessar staðhæfingar framkvæmdastjórans eru bull og þvaður.

Auðbjörg var löngu löngu lent í vandræðum áður en nokkur lét sér einu sinni detta í hug að Jóhanna Sigurðardóttir myndi á endanum standa fyrir ríkisstjórn.

Ástæðan fyrir vandræðum Auðbjargar er – eins og kemur fram í DV í dag – ótæpileg skuldsetning í erlendri mynt á „góðæristímanum“ sem kom svo hrottalega í hausinn á fyrirtækinu þegar krónan féll og hrunið átti sér stað.

Samkvæmt fréttinni í DV gildir nákvæmlega það sama um fleiri útgerðir, og undanfarið hefur blaðið til dæmis fjallað um vandræði Sigurbjörns í Grímsey og Þórsberg á Tálknafirði.

Forsvarsmenn beggja félaga hafa borið sig illa í Mogganum út af veiðigjöldunum, en niðurstaða DV er sú að vandræði þeirra stafi alls ekki af veiðigjöldunum heldur af skuldsetningu fyrir hrun.

Forráðamennirnir fara sem sagt með rangt mál samkvæmt þessu.

Nú er það plagsiður hjá kurteisum fjölmiðlamönnum að fara mjúkum höndum um blaðamenn Moggans.

Þar vinna góðir og heiðarlegir blaðamenn, segja menn, þótt æðstu yfirboðararnir hugsi augljóslega meira um hag sægreifanna en almennra lesenda eða þjóðarinnar allrar eða jafnvel um – herregud! – sannleikann.

Og síst skal ég efast um hæfileika og heiðarleika starfsmanna á Mogganum.

En að birta slíka frétt – eins og viðtalið við Ármann – og gera enga tilraun til að kanna sannleiksgildi fullyrðinga hans … ja, er endalaust hægt að kenna vondum yfirboðurum um slíka „blaðamennsku“?

Verða ekki blaðamenn Moggans að fara að taka í taumana?

Að síðustu – hér er undirskriftasöfnunin „Óbreytt veiðigjald“. Hún er enn í gangi og ég hvet alla, sem ekki hafa enn skrifað undir, til að gera það nú þegar. Áróðursmaskína sægreifanna og hjá-blaðamennska Moggans mega ekki fá að ráða ferðinni í þessu landi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!