Fimmtudagur 18.07.2013 - 09:29 - FB ummæli ()

Að ganga kílómetra og skipta um veröld

Eins og flestir aðrir er ég gegnsýrður amerískri menningu eftir að hafa horft á amerískar kvikmyndir og sjónvarp, lesið amerískar bækur og hlustað á ameríska tónlist í áratugi.

Þrátt fyrir það hefur mig eiginlega aldrei langað neitt sérstaklega til Bandaríkjanna.

Mér fannst líklega að það væri engin sérstök þörf á því, eftir öll þessi amerísku áhrif.

Nú er ég hins vegar nýkominn úr tæplega 10 daga dvöl í New York og verð að segja að þar var ýmislegt sem kom á óvart.

Manhattan er furðulega fjölbreyttur og ég verð að segja heillandi staður.

Þar labbar maður tæpan kílómetra í suður frá glitrandi glampandi auglýsingaskiltaveröldinni á Times Square og Broadway og er þá kominn í rólegt og fallegt listamannahverfi í miðlungsstórri og rótgróinni evrópskri borg.

Og svo gengur maður annan tæpan kílómetra í suður og er þá lentur í heimi hinna íburðarmiklu glerskýjakljúfa á Wall Street, mestu fjármálahofa heimsins.

Það var eins og á hverjum kílómetra skipti maður gjörsamlega um veröld. Yfirbragðið á lífinu var annað, hrynjandin öðruvísi.

Og ofar í borginni er líka bara kílómetri á milli annars vegar fínu íbúðanna á 5. Avenue þar sem aldrei sést barn utandyra, nema í mesta lagi á vandlega vörðum leikvöllum með þriggja metra háar járngirðingar kringum sig, og hins vegar gangstéttanna í Harlem þar sem krakkarnir leika sér í gamalkunnum eltingaleikjum langt fram á kvöld – álíka frjáls og í íslenskri sveit.

Og jafnvel þótt maður vissi fyrir að New York væri alþjóðlegust borga í Bandaríkjunum kom það mér samt á óvart hvílíkur suðupottur þessi borg virðist vera.

Þið fyrirgefið mér þó ég minnist kannski á einhver smáatriði úr ferðinni hér á næstunni.

En svo er það alltaf eins – þrátt fyrir að það sé gaman í útlöndum, þá er alltaf sérstök tilfinning að vera kominn á útlenskan flugvöll og sjá Icelandair merkinu bregða fyrir í fyrsta sinn.

Það er verið að sækja mann heim!

Og alltaf sé ég pínulítið eftir þeim gamla sið úr íslenskum flugvélum að klappa svolítið þegar lent er í Keflavík.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!