Laugardagur 24.08.2013 - 11:57 - FB ummæli ()

Álfakóngur í hálfmaraþoni

Jæja – ýmislegt fór úrskeiðis í hálfmaraþoninu áðan.

Ég fór alltof hratt af stað miðað við mann í mínum þyngdarflokki. Allskonar verkir gerðu vart við sig, ytra sem innra. Þrekið var ekki meira en svo að þegar einhver rétti mér súkkulaðimola á fimmtánda kílómetra varð ég að spýta honum út úr mér því ég hafði hreinlega ekki orku til að tyggja hann. Verst voru samt fjárans leiðindin. Ég er ekki í hópi þeirra sem finnst gaman að hlaupa. Á sautjánda kílómetra var ég farinn að gnísta tönnum, og á þeim nítjánda farinn að reyna að rifja upp fyrir mér öskureiður kvæðið Erlkönig eftir Goethe sem ég lærði utanbókar í menntaskóla – bara svo ég gæti hugsanlega gleymt mér næstu tvö hundruð metrana eða svo.

Og þegar ég komst í mark eftir rúmlega 21 kílómetra stóð 2.49,51 á tímatöflunni. Það er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir.

En – og persónulega finnst mér það ansi stórt „en“ – ég komst þó í mark, og stoppaði aldrei. Gat meira að segja skokkað upp Satans brekkuna upp af Sundahöfninni. Þannig að þegar þetta var búið fannst mér það allt þess virði.

Og hafi nú einhverjir séð sér fært að styrkja í mínu nafni söfnun Fatímusjóðsins hennar móður minnar, sem safnar fé handa hinum mjög svo bágstöddu börnum Sýrlands, þá er til einhvers unnið.

Leggja má inn á reikning 342-13-551212 – kennitalan er 140240-3979.

Reikningurinn er enn opinn, þótt hlaupinu sé lokið.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!