Miðvikudagur 26.02.2014 - 15:00 - FB ummæli ()

Ruddalegt klúður og blygðunarlaus sérhagsmunagæsla

Það er ekki eitt, það er allt.

Bara á tveim fyrstu síðum Fréttablaðsins í morgun:

Fyrst frétt um að landbúnaðarráðherra hefði skipað í tollahóp um landbúnaðarmál.

Ráðherrann óskaði eftir fulltrúum frá tveimur ráðuneytum, auk fulltrúa frá ASÍ og BRSB, frá Mjólkursamsölunni og Bændasamtökum Íslands.

Enginn fulltrúi frá neytendum eða neinum hagsmunasamtökum þeirra.

Og svo óskaði ráðherrann eftir einum fulltrúa í viðbót.

Frá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Já, Kaupfélagi Skagfirðinga!

Þórólfur Gíslason aðstoðaryfirráðherra Íslands verður náttúrlega að hafa sinn mann í nefndinni.

Þótt Samkeppniseftirlitið kvarti sáran og bendi á að Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga séu eiginlega sama fyrirbærið.

Þórólfur hefur viljað þetta – þá gerir ríkisstjórnin eins og Þórólfur segir.

Og svo á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu:

Nú þegar forsætisráðuneytið hefur tekið til sín „þjóðmenninguna“ þá eru farnir að streyma þaðan út styrkir til alls konar verkefna hingað og þangað um landið. Sumir þurfa ekki einu sinni að sækja formlega um, sýnist manni. Þeir bara fá allt í einu fullt af pening.

Nú er Sigmundur Davíð búinn að úthluta á þennan ógegnsæja hátt 205 milljónum.

Og hvert hefur rétt tæplega helmingur fjárins farið?

Jú einmitt – í kjördæmi Sigmundar Davíðs.

97 milljónir nánar tiltekið.

Ég hélt að það hefði verið af einlægum en kannski örlítið barnalegum áhuga á „þjóðmenningu“ sem Sigmundur Davíð vildi endilega fá þennan málaflokk undir forsætisráðuneytið.

En það var þá bara til að fá tækifæri til að deila og drottna á gamla spillingarmátann.

Svo ætlast þessi ríkisstjórn til að henni sé treystandi í málum Evrópusambandsins!!

Ég veit að almennir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn væntu bara góðs af ríkisstjórn flokka sinna, og voru þess fullvissir að nú myndu Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson sýna hvernig almennileg ríkisstjórn ynni.

En þeir verða nú að horfast í augu við að nálega allt sem stjórnin hefur tekið sér fyrir hendur er ruddalegt klúður og/eða blygðunarlaus sérhagsmunagæsla.

Því miður, góðu vinir, þetta er óhæf ríkisstjórn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!