Laugardagur 01.03.2014 - 15:50 - FB ummæli ()

Nei, nei og aftur nei

Þessa ræðu hélt ég á Austurvelli áðan, en bætti reyndar einni setningu inní (hún er innan sviga) eftir að ræðan var haldin:

 

Gott fólk.

Þau mótmæli sem hér hafa staðið alla vikuna, snúast þau um Evrópusambandið? Jáááá, að sumu leyti.

Við Íslendingar búum við minnstu mynt í heimi, sem á að heita sjálfstæð – henni hafa fylgt og munu áfram fylgja óstöðugleiki, óeðlileg afskipti stjórnmálamanna og sérhagsmunahópa, höft og kollsteypur.

Það er alveg sama hversu oft stjórnmálamenn endurtaka þuluna um að hér þurfi “bara” aukinn aga í fjármálum, þá muni íslenska krónan rísa upp frá dauðum – sú þula verður aldrei að sannleika, íslenska krónan er lifandi lík, og allar Zombía-myndirnar í bíó síðustu árin ættu að hafa kennt okkur að það er hollast að halda sig fjarri lifandi líkum.

Evrópusambandið og evran eru ein af augljósustu leiðunum sem við gætum farið til að leysa gjaldmiðlavandamál okkar. Og við eigum að fá að skoða þá leið.

Við búum líka við þá undarlegu tilhögun að þótt við séum ennþá blessunarlega uppfull af áhuga á fullveldi okkar og sjálfstæði, þá fáum við stóran hluta af hinu nýja íslenska lagasafni sendan í pósti sunnan úr Brussel – gjörasvovel að stimpla.

Án þess að við höfum nokkuð um það að segja. Hvert er þá orðið okkar starf í tólf hundruð sumur?

Við munum auðvitað aldrei verða ein af valdamestu þjóðum Evrópusambandsins, en það er í sjálfu sér sér lágkúrulegt að þiggja svona stóran hluta af lögum okkar utanlands frá án þess að ráða nokkru um innihald þeirra – aðild að Evrópusambandinu myndi þar bæta mjög úr skák, hvað sem hver segir.

Það eru semsagt ýmsir kostir við ESB-aðild – meiri stöðugleiki, lægra matarverð alveg ábyggilega, lægri vextir, heilbrigðara umhverfi fyrir atvinnulífið, ekki síst á nýjum og spennandi sviðum, meiri áhrif á lagasetningu, meira fullveldi, en ekki minna.

Ég er semsagt ekkert hræddur við Evrópusambandið, ekki einu sinni fyrir hönd landbúnaðarins – íslenskir bændur myndu leikandi létt semja sig að þeim breytingum sem hugsanlega myndu fylgja aðild fyrir þá.

Samt veit ég ekkert hvort ég myndi greiða aðild að Evrópusambandinu atkvæði mitt. Það myndi ráðast fyrst og fremst af því hvort endanlegur samningur hefði í för með sér að íslensk alþýða myndi njóta arðsins af auðlindum sínum í sjónum – íslensk alþýða, ekki bara sægreifarnir.

En þeirri spurningu verður ekki svarað fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir, og við viljum fá að sjá þann samning, við treystum því ekki að fáeinir stjórnmálamenn og örfáir klíkubræður í sérhagsmunahópum segi okkur að hann verði slæmur. Við viljum fá að ákveða okkur sjálf.

Og það er einmitt önnur og reyndar stærri ástæða fyrir mótmælunum, heldur en bara spurningin um Evrópusambandið, að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð. Það er spurningin um hvernig þjóðfélagi við viljum lifa í.

Ég get þar náttúrlega bara svarað fyrir sjálfan mig – en ég vil ekki lifa í þjóðfélagi þar sem klíkur og sérhagsmunahópar ætla að skella á okkur hurðum, loka fyrir okkur leiðum sem gætu legið til betra samfélags fyrir okkur öll, fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Hvort sem við höfum öll voða mikla trú á Evrópusambandinu eða ekki, þá eigum við ekki að líða að þessum dyrum verði skellt að geðþótta klíkubræðra, svo þær verði lokaðar næstu áratugina jafnvel – við eigum að ráða þessu sjálf.

Ég vil heldur ekki lifa í samfélagi þar sem það þykir fásinna að ríkisstjórn reki erindi þjóðar sinnar, þótt ráðherrarnir séu kannski ekki fyllilega sammála erindinu.

Ég held að þessari ríkisstjórn sé bara alls ekki of gott að fara til Brussel og reyna að ná góðum samningi, svo við getum síðan sjálf ákveðið hvort við viljum ganga í klúbbinn í Evrópu, eða þurfum kannski að halda áfram að hrekjast í fang Pútins og Kínverja!

Um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur má margt segja, en eitt gerði hún vel. Þegar hún fékk Icesave í hausinn frá þjóð sinni, þá brást hún ekki vælandi við um að hún væri sjálf ekki sammála skilaboðum þjóðarinnar og það væri “pólitískur ómöguleiki” að sinna þeim.

Hún  gekk bara til verka af bestu getu, ekki einu sinni heldur tvisvar, gerði fyrst samning sem var svo góður að mestallur Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti hann, og síðan – þegar þjóðin vildi hann ekki – þá rak hún dómsmálið af svo mikilli hörku og með slíkum árangri að jafnvel margir helstu andstæðingar hennar trúðu ekki eigin augun.

Þetta er fordæmi sem fara má eftir ef þjóðin samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu að ljúka samningaviðræðum við ESB – en ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem vilji 82 prósent landsmanna er virtur að vettugi af því kafbátar í Skagafirðinum og hrokagikkir í Hádegismóum heimta það, og ég vil umfram allt ekki lifa í samfélagi þar sem það þætti eðlilegt og skiljanlegt að ráðherrar myndu reka erindi þjóðar sinnar með hangandi hendi og jafnvel vinna gegn þeim, sem guði forði!

(En treysti ríkisstjórnin sér ekki að reka þau erindi með sóma, þá ber henni auðvitað umsvifalaust að segja af sér.)

Og ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem kosningaloforð eru svikin og það þykir eðlilegt því þau hafi bara verið varnagli sem alls ekki átti að taka mark á, ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem ráðherrar og þingmenn fara með orðhengilshátt og hreinar og beinar lygar þegar þeir eiga að standa fyrir máli sínu – ég vil ekki svoleiðis þjóðfélag, ég treysti ekki svoleiðis mönnum, ég vil ekki að börnin mín alist upp í slíkum óheiðarleika og slíkum ruddaskap.

Ég vil sem sagt ekki lifa í þjóðfélagi þar sem vilji fólksins er að engu hafður í þágu sérhagsmuna hinna fáu, ég vil ekki lifa í þjóðfélagi þar sem miklar og mikilvægar ákvarðanir um framtíð okkar eru teknar í skyndingu, í bakherbergjum, af fólki sem í sumum tilfellum hefur ekki lágmarksþekkingu til að bera – ég vil ekki að slíkar ákvarðanir séu teknar af þeim sem hugsa eingöngu um sína eigin þröngu hagsmuni en við eigum bara að lyppast niður þegar okkur er sveiað, þegar okkur er sagt að við fáum ekki að ráða þessu, það sé búið að ákveða þetta, í Kaupfélagi Skagafjarðar, í Hádegismóum, í þingflokksherbergjum tveggja flokka í Alþingishúsinu þarna.

Ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins – nema kannski tveir – eru allt í einu sammála því að það séu eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að skella svona dyrum á vilja þjóðarinnar – ég vil ekki lifa í þjóðfélag þar sem fólk svo ólýðræðislega þenkjandi hefur hafist til valda.

Og ég vil ekki lifa í þjóðfélagi þar sem hátíðleg loforð eru hermd upp á stjórnmálamenn og viðbrögðin eru fyrirlitning og hroki, lygar og ennþá meiri valdníðsla, og svo er slett framan í okkur: “So what?”

Ég vil ekki lifa í svona þjóðfélagi, og ég vona að ekkert okkar vilji lifa í svona þjóðfélagi, hvaða flokk sem við kunnum að styðja í kjörklefanum á fjögurra ára fresti, og sama hvaða skoðun við höfum á aðild að ESB.

Ef ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar ætlar að skapa svona þjóðfélag, þá þurfum við að láta ærlega í okkur heyra – við viljum ekki slíkt þjóðfélag, við viljum það ekki, nei, nei og aftur nei.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!