Sunnudagur 02.03.2014 - 14:17 - FB ummæli ()

Sigurður Pálsson: Svik eru svik eru svik

Sigurður Pálsson hélt frábæra ræðu á Austurvelli í gær. Mín ræða og Margrétar Guðmundsdóttur eru komnar á kreik á netinu, en ég hef ekki séð ræðu Sigurðar þar ennþá. Ég tek mér því það bessaleyfi að birta hana hér:

Sigurður Pálsson

Ræða á Austurvelli, 1. mars 2014

 

Ágætu fundarmenn!

 

Galdur

 

Galdur

sá galdur

að treysta lífinu:

já: lífinu

betur en dauðanum.

*

Sá duldi galdur

að vera hollur

hamingju sinni.

*

Sá örðugi galdur

að vera ekki einusinni

óvinur sjálfs sín.

*

Nei

hógvær galdur

og óbrotinn

og á allra færi.

[…]

 

Þetta er upphafið að lengra ljóði eftir Sigfús Daðason, skáldið sem orti: Hvað sem öðru líður vil ég biðja menn / að fara varlega með orð / þau geta sprungið / og þó er hitt öllu hættulegra / það getur vöknað í púðrinu…

Fyrir nákvæmlega viku greip mig nístandi tilfinning að vakna upp við það, að stjórnvöld líta ekki á loforð sem loforð, að það sé allt í lagi að svíkja hátíðlegt, margítrekað kosningaloforð.

Rós er rós er rós sagði Gertrud Stein.

Og við segjum: loforð er loforð er loforð!

Svik eru svik eru svik.

Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar.

Loforð er ekki lengur loforð, viðræðuslit ekki heldur, sbr. það sem fram kom fyrir nokkrum vikum að orðið strax þýði ekki strax nema þegar það hentar.

Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. Svör meirihlutans eru mestan part hártoganir sem væru jafnvel ekki tækar í kappræðukeppnum framhaldsskólanna.

Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.

Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta.

Af hverju viljið þið verða sjálfstæð þjóð spurðu aumingja Danir, furðu lostnir á nítjándu öld. Og við sögðum: það er vegna þess að við skrifuðum bókmenntir á þrettándu öld, bókmenntir sem eru með því besta og mikilvægasta í Evrópu frá miðöldum, bæði að magni og gæðum. Það gerir okkur að fullgildri evrópskri þjóð.

Det er nemlig det, sögðu Danir.

Hér neyðist ég til þess að minnast á tvö orð, reginmuninn á tveimur orðum, þjóðarstolt og þjóðremba.

Við getum og eigum að vera stolt af því að íslenska á sér óvenjulega langa, merkilega og samfellda sögu. Samt er íslenska hvorki betri eða verri en önnur tungumál.

Gætum okkar á þjóðrembunni, hún er eitruð og eyðileggjandi. Hún útilokar alla aðra, hún lokar okkur sjálf inni í vænisjúkri tilvist. Þjóðremba er andstæða þjóðarstolts. Hún er enn eitt einangrunartækið.

Að lokum þetta: atburðir síðustu viku og vikna og mánaða eru aðvörun, grafalvarleg.

Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins.

Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum.

Hvers vegna er það hættulegt?

Vegna þess að það er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljumvið ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna. Þetta hefur alls staðar verið raunin í einræðisríkjum og alræðisríkjum, fyrr og síðar, jafnt í Sovétríkjunum sem annars staðar. Samband milli orðs og merkingar er vísvitandi rofið og eyðilagt.

Loforð er loforð er loforð.

Við erum hér samankomin, þjóðfélagsþegnar lýðveldisins Íslands, gamlir, miðaldra, ungir. Við krefjumst þess að fá að kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið. Í guðanna bænum, einkum og sér í lagi fyrir unga fólkið. Í guðs almáttugs bænum.

Þetta er einföld krafa.

Ef þjóðin skyldi ákveða að halda áfram viðræðum, þá er enginn sýnilegur ómöguleiki í framhaldinu, ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að framfylgja þjóðarviljanum, þá yrði hún að segja af sér.

Hún yrði að gera það strax og strax er ekki teygjanlegt hugtak.

Við krefjumst þess einfaldlega að menn standi við orð sín, að efnt verði til margboðaðrar, marglofaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna, annað er andlýðræðislegt, annað er svik.

Vilja ráðamenn að verði tattóverað í áru þeirra: andlýðræðislegur svikari?

Við krefjumst þjóðaratkvæðagreiðslu!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!