Miðvikudagur 12.03.2014 - 14:36 - FB ummæli ()

Ekki er gott að segja hvernig Sigmundur Davíð hugsar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson laug sig inn í embætti forsætisráðherra í fyrra með því að halda því fram að hann kynni leið til að lækka húsnæðisskuldir fólks með því að neyða erlenda hrægammasjóði til að borga brúsann.

Í krafti þessara loforða skolaði honum inn í stjórnarráðið.

Fólk kaus hann hins vegar ekki af því hann ætlaði að slíta viðræðum við Evrópusambandið, enda laug hann því eins og hann er langur til að hann myndi halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

Allra síst kaus fólk Sigmund Davíð af því það treysti honum til að „breyta um kúrs“ í samfélaginu almennt, en því reynir hann að ljúga að blaðamanni Frjálsrar verslunar sem út kom fyrir stuttu.

Enginn hafði áhuga á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti samfélaginu nýjan kúrs, enda var aldrei minnst á það í kosningabaráttunni.

En sem sagt – það voru loforðin um lækkun húsnæðislánanna.

Mjög einfalt mál, sagði Sigmundur Davíð. Hann og Frosti Sigurjónsson (sá sem laug um bankaskattinn, muniði!) voru meira að segja, ef ég man rétt, komnir í keppni um hvort ætti að nota haglabyssu eða kylfu til að murka lífið úr vondu hrægammasjóðunum.

Þetta kæmi fólki til góða mjög fljótlega eftir valdatöku Framsóknarflokksins.

Og væri einfalt mál. Það yrði sett upp einföld reiknivél í tölvu, svo gæti fólk fundið út á augabragði hvað hrægammasjóðirnir myndu þurfa að punga út miklu fyrir hvern og einn.

Fljótlega eftir stjórnarskiptin fóru reyndar að koma svolitlar vöflur á Sigmund Davíð.

En hann var samt borubrattur enn um sinn.

Heimsmet í skuldaniðurfellingum, blasti við! Heimsmet!

Eitthvað var orðið færra um fína drætti þegar Sigmundur og Bjarni aðstoðarmaður hans Benediktsson komu fram á sviði Hörpu til að kynna loksins „Leiðréttinguna“ miklu í desember.

Hm. Þá var allt í einu ekkert talað um hrægammasjóði.

Fólk fengi hins vegar að nota sinn eigin lífeyrissparnað til að lækka hjá sér lánin.

Heyri ég húrra einhvers staðar?

Eee, nei, enginn hrópaði beinlínis húrra.

En sumir reyndu samt að vona það besta.

Nú eru liðnir þrír mánuðir síðan.

Það er eins og rúmlega hálf orrustan við Stalíngrad.

Nema hvað í þessari orrustu hefur ekkert gerst.

Jú – þá gerist eitthvað!

Með heilmiklum bravúr er nú kynnt að „embætti Ríkisskattstjóra [hafi] verið falið miðlægt hlutverk vegna höfuðstólslækkunar íbúðalána“.

Og það dugir ekki minna en setja Tryggva Þór Herbertsson yfir sérstaka verkefnisstjórn, því um sé að ræða „gríðarlega flókið verkefni“.

Þið munið? Þetta sem átti að klárast strax. Og vera svo ofsalega einfalt.

Bara ein reiknivél í tölvu.

Og er eitthvað minnst á hrægammana?

Eeeee, nei, ótrúlegt nokk. Það er bara ekkert minnst á þá.

En samt halda menn áfram að reyna að belgja sig út.

„Heimsmet í skuldaniðurfellingum“ er nú orðið að „stærsta upplýsingatækniverkefni Íslandssögunnar“.

Þetta ógurlega einfalda, þið munið!

Sko.

Nú veit ég ekki hvernig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hugsar.

Það er mér satt að segja alveg hulin ráðgáta.

En skyldi aldrei hvarfla að honum að hann hafi komist í embætti forsætisráðherra á fölskum forsendum?

Að ég segi ekki upplognum?

Og að hann eigi þennan frama kannski ekki alveg skilið?

Skyldi honum aldrei detta það í hug?

En óbreyttir þingmenn Framsóknarflokksins, hvað hugsa þeir?

Finnst þeim þetta allt í lagi?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!