Laugardagur 15.03.2014 - 10:54 - FB ummæli ()

Bjarni Benediktsson „kemur til greina“

Bjarni Benediktsson er furðulegur stjórnmálamaður.

Honum voru fengin tvö verkefni.

Í fyrsta lagi að stýra Sjálfstæðisflokknum gegnum ólgusjói hrunsins, sem flokkurinn ber verulega ábyrgð á og kallar því umfram allt á siðferðilegt endurmat.

Og í öðru lagi að huga að endurreisn bæði flokks og samfélags, sem kallar á nýja hugsun og ný vinnubrögð.

Eða ætti að minnsta kosti að gera það.

Í blábyrjun ferils síns sýndi Bjarni ýmis merki þess að hann áttaði á þessum tveimur verkefnum.

En síðan gerðist eitthvað.

Hann sneri við blaðinu, lokaði á alla endurreisn og ný vinnubrögð, en tjóðraði sig fastan við mesta afturhaldið í flokknum, og gerðist trúasti þjónn sægreifanna og smákónganna í bakherbergjunum.

Ekki bara þeirra sem tilheyra Sjálfstæðisflokksins, heldur einnig og ekki síður Framsóknarflokknum!

Þá hefði hann afi minn nú sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum, ef hann hefði þurft að upplifa flokkinn sinn sem taglhnýting fjármálaafla Framsóknarflokksins!

En svona vill Bjarni sem sagt hafa það – eða er neyddur til að hafa það.

Hvernig stóð á þessari umbreytingu á Bjarna, og þessu döngunarleysi, það veit ég ekki.

En hann reyndist alla vega ekki hafa bein í nefinu, og ekki heldur hans maður Illugi Gunnarsson.

Ansi sárt var að sjá hann umla og roðna í sjónvarpinu til að reyna að réttlæta loforðasvik sín í ESB-málinu.

En hvað Bjarna varðar, þá er hann hvað sem öðru líður ágætlega viti borinn maður.

Og hann er auðvitað löngu búinn að átta sig á því að svikin og lygarnar nú hafa stórskaðað flokkinn hans.

Og því kom hann í fyrrakvöld með sitt nýja „útspil“ – að til greina kæmi að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort slíta skuli viðræðunum við ESB.

Um þetta má segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi virðist Bjarni ekki geta losað sig við valdhrokann sem einkennir hann svo sorglega um þessar mundir, eftir að hann virtist frekar auðmjúkur og einlægur í blábyrjun ferilsins.

Að „til greina komi“ að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu er nefnilega hroki og ekkert nema hroki. Þjóðin vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu, það er löngu ljóst og enginn getur þrætt fyrir það.

Þar af leiðandi á þjóðin að fá þjóðaratkvæðagreiðslu – það á ekki að „koma til greina“.

En í öðru lagi – þá er Bjarni enn að reyna að friða einhverja slöttólfa í bakherbergjunum með því að gefa í skyn þjóðaratkvæðagreiðslu um „hvort slíta skuli“ viðræðum við ESB.

Ljóst er að þjóðin vill helst að samningaviðræður við ESB yrðu einfaldlega kláraðar svo landsmenn allir geti lagt á niðurstöðuna mat og síðan greitt atkvæði um hvort hún sé ásættanleg.

Næsthelst vill þjóðin hins vegar greiða atkvæði um að halda viðræðunum áfram.

Hin mögulega „lausn“ Bjarna Benediktssonar felst hins vegar semsé í að greiða atkvæði um hvort viðræðunum yrði slitið eða ekki.

Ef þjóðin kýs að slíta ekki viðræðunum, þá er samt engin kvöð fyrir ríkisstjórnina að klára málið, hún getur einfaldlega fleygt málinu oní skúffu, svo aðkallandi sem það er.

Þetta er því augljós tilraun Bjarna til að friða hávaðaseggina í bakherbergjunum.

Og það er enn einn ljóður á ráði Bjarna að hann skuli frekar vilja friða skuggabaldra í bakherbergjum en fara að vilja þjóðar sinnar.

Ekki gott, Bjarni, ekki gott.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!