Ósköp er sorglegt hvernig valdníðsla og flumbugangur forkólfa ríkisstjórnarinnar hefur nú leitt jafnvel góða drengi útí forarvilpur orðhengilsháttar og svika við eigin sannfæringu, svo sem eins og þá að stjórnmálamönnum beri að standa við orð sín.
Í Vikulokunum á Rás eitt heyrði ég af nýrri „hugmynd“ Birgis Ármannssonar til að leysa vandræðin sem óstjórn Sigmundar Davíðs hefur sjálf komið sér í.
Hún er sú að Alþingi greiði atkvæði um tillögu Gunnars Braga Sveinssonar um að aðildarviðræðum við ESB verði slitið.
Væntanlega býst Birgir við því að þingið samþykki tillögu Gunnars Braga, vegna þess að hann reiknar með því að meirihluti séu sömu rollurnar og hann sjálfur – að fylgja foringjanum, enda þótt ljóst sé að með sé gengið gjörsamlega gegn vilja þjóðarinnar allrar.
En síðan eigi þjóðin sem sé náðarsamlegast að fá að greiða atkvæði um hvort hún sé sátt við niðurstöðu Alþingis, já eða nei.
Segi þjóðin nei við því, þá er komin upp sú staða að þing okkar hefur samþykkt að draga aðildarumsókn til baka, en þjóðin hefur lýst sig ósammála í atkvæðagreiðslu. Væntanlega gerist þá ekkert.
Það er aldeilis furðulegt að jafn viti borinn maður og Birgir Ármansson skuli einu sinni ímynda sér að þetta sé einhver „lausn“ í þeim vandræðum sem óstjórnin er búin að koma sér í.
Það er ekki þetta sem lofað var.
Það er ekki þetta sem þjóðin vill.
Loforðið var skýrt – að greidd skyldu atkvæði um hvort halda skyldi aðildarviðræðum áfram.
Vilji þjóðarinnar er líka skýr – að greidd skuli atkvæði um hvort halda skuli aðildarviðræðum áfram.
Það var sorglegt að hlusta á Birgi Ármannsson reyna að verjast úr þessu tilbúna hrófatildri orðabrigslanna.
Ég veit að hann er í eðli sínu heiðarlegur maður.
Og ef aðrir stjórnmálamenn hefðu borið fram svo skýrt loforð fyrir kosningar, þá hefði Birgir að sjálfsögðu verið fremstur í flokki að herma það upp á þá.
Því var súrt að heyra hann í nafni hollustunnar við Sigmund Davíð ganga gegn sínu eigin heiðarlega eðli.