Þriðjudagur 25.03.2014 - 17:38 - FB ummæli ()

Ja, hvílíkur endemis hroki!

Var ég ekki að fara fögrum orðum um það um daginn hvað Birgir Ármannsson væri líklega heiðarlegur maður í eðli sínu, þótt hann hefði leiðst út á einhverjar villigötur í ESB-málinu í óbilandi hollustu sinni við hinn mikla leiðtoga Sigmund Davíð Gunnlaugsson?

Mér er skapi næst að draga allan þann fagurgala til baka.

Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar ESB og íslenskra þingmanna fyrr í dag var Birgir Ármannsson spurður um stöðug mótmæli þúsunda Íslendinga gegn gerræði ríkisstjórnarinnar og hinar 53.000 undirskriftir þar sem krafist er þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.

Birgir Ármannsson er þingmaður á Alþingi Íslendinga.

Elsta þjóðþingi heims, ef mér skjöplast ekki.

En skilningur hans á lýðræðiskröfu almennings á Íslands reynist vera þessi, að því er fram kom í svari hans:

„Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, svaraði því þannig að undirskriftalistarnir hefðu enga formlega stöðu í þessu máli og væru skipulagðir af hagsmunaaðilum.“

Birgir Ármannsson vílaði ekki fyrir sér að gerast „umboðsmaður ógreiddra atkvæða“ þegar þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá stjórnlagaráðs fór á annan veg en honum hugnaðist.

Og nú fjargvirðrast hann um „formlega stöðu“ 53.000 undirskrifta, enda hafi undirskriftasöfnunin verið skipulögð af „hagsmunaaðilum“.

Og þetta er allt það sem hann hefur til málanna að leggja!

Jahérna hér.

Hve ömurlegur orðhengilsháttur!

Og það sem verra er:

Hvílíkur endemis hroki!

Ég sé það núna að Birgi Ármannssyni er ekki treystandi til að sitja á Alþingi Íslendinga.

Hann hefur ekki lýðræðisvitund til þess.

Ég vona að hann hafi sómatilfinningu til að átta sig á því sjálfur og snúa sér að einhverju öðru.

Svona þingmenn eru skaðlegir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!