Miðvikudagur 26.03.2014 - 17:49 - FB ummæli ()

Það sem Sigmundur Davíð sagði

Langar ykkur að sjá stjórnmálamann ljúga sig í embætti forsætisráðherra í vestrænu lýðræðisríki?

Þá skuluð þið horfa á þetta viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Framsóknarflokksins rétt fyrir kosningarnar í fyrra.

Í þessu viðtali kemur mjög skýrt fram að kosningaloforð Framsóknarflokksins um skuldalækkanir snerust AÐEINS OG EINGÖNGU um að erlendir vogunarsjóðir – hinir víðfrægu hrægammasjóðir – ættu að borga þessar lækkanir.

Hvergi – nákvæmlega HVERGI – er svo mikið sem ýjað að því að íslenskir skattgreiðendur ættu sjálfir að borga þessar lækkanir (jafnt fyrir þá sem þurfa á að halda sem hina sem lifa í vellystingum praktuglega í sínum einbýlishúsum), né heldur að fólk ætti sjálft að gera það með séreignasparnaði sínum.

Eins og nú er trommað upp með!

Síðan í kosningabaráttunni hefur Sigmundur Davíð reynt að þræta fyrir að hafa fullyrt þetta, eða að loforðin hafi snúist um 300 milljarða.

Það kemur þó skýrt fram hér.

Í þessu viðtali kemur meðal annars eftirfarandi fram í máli Sigmundar Davíðs (á stöku stað hef ég stytt örlítið):

Heiðar Örn Sigurfinnsson segir snemma í viðtalinu:

Getur þú ábyrgst að það fáist einhverjir 300 milljarðar á næstu fjórum árum út úr þessum samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna?

Sigmundur Davíð svarar:

„Ástæðan fyrir því að við treystum okkur til að tala svona skýrt í þessu máli er að það er alveg ljóst að þetta svigrúm verður að myndast. Það er ekki hægt að semja við kröfuhafana, og þeir þrýsta á um samninga vel að merkja, það er ekki hægt að semja við þá og aflétta gjaldeyrishöftum, nema þetta svigrúm verði til.

Og sem betur fer hefur umræðan þróast töluvert undanfarnar vikur … og er nú komin á þann stað að hún snýst fyrst og fremst um það hvernig eigi að nýta þetta svigrúm. Reyndar kom svona smá viðbót í umræðuna í gær og í fyrradag þegar farið var að ræða um það að þetta gæti tekið einhvern tíma, að semja við þessa kröfuhafa. Það er nýjasta útspilið. En þá er mikilvægt að hafa þetta í huga, sem ég nefndi að það eru kröfuhafarnir sem þrýsta á um að losna, þeim liggur á, og ríkið hefur auk þess tækin sem að þarf til þess að þrýsta enn frekar á um samninga.“

Sigmar:

… Geturðu ábyrgst það, geturðu lofað því, að það verði til þessir peningar á kjörtímabilinu til þess að fara út í niðurfellingu á skuldum þeirra sem eru með verðtryggð húsnæðislán?

„Peningarnir eru til, við sjáum þá bara á bókunum, við vitum að það þarf að losa um þá, við vitum að mikið af þessu fjármagni verður að verða eftir í landinu, svoleiðis að spurningin er hvað á að gera við þá, og ég get ábyrgst það að þetta fjármagn verður að nýta til að koma til móts við heimilin …“

Sigmar:

Hvernig geturðu ábyrgst að það verði til einhverjir 300 milljarðar í samningaviðræðum sem varla eru farnar af stað?

„Vegna þess að fjármagnið er til staðar. Þeir verða að semja. Og það liggur ljóst fyrir – meira að segja Seðlabankastjórinn viðurkennir það núna – að það sé ekki hægt að klára þetta öðruvísi en að verulegt fjármagn verði eftir, upphæðir á borð við það sem þú nefnir, jafnvel hærri, og ef að menn ná ekki samningum, og þetta er aðalatriðið … ef að nást ekki samningar fljótlega, þá getur ríkið smátt og smátt sett á meiri þrýsting, en ekki bara meiri þrýsting, heldur gæti það gengið það langt að setja einfaldlega gömlu bankana í þrot, klára dæmið. Ef að gömlu bankarnir eru settir í þrot, þá þýðir það það að það þarf að skila öllum erlendu eignunum …“

Heiðar Örn:

Þú ert að lofa því að á næstu fjórum árum muni verða þetta svigrúm upp á 300 milljarða króna. Aðrir flokkar hafa ekki talað með þetta afdráttarlausum hætti eins og þú ert að gera núna.

„Þetta er áherslan hjá okkur. Þetta er sú leið sem við boðum að sé framkvæmanleg og eðlileg, og þá er spurningin sú, er hægt að klára þetta dæmi, og þá er svarið einfalt, já – ef að menn hafa viljann og eru fastir fyrir, þá eru þessi tæki til staðar …“

Síðan rekur Sigmundur Davíð nokkrar leiðir til að ná peningum af erlendum kröfuhöfum og uppástendur að kröfuhöfum liggi mjög á. Sigmar spyr hvað ef þetta verða ekki 300 milljarðar, heldur 100 milljarðar, en Sigmundur Davíð svarar þá enn að ríkið hafi tækin sem þarf til að ná niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir Ísland.

„… Hundrað milljarðar er ekki ásættanleg tala, vegna þess að ef það eru hundrað milljarðar, þá er ekki hægt að ljúka samningum. Það er ekki flóknara en það. Svoleiðis að þá þarf að beita þeim tækjum sem ríkið hefur, hvort sem er skattlagningarvaldinu eða lögunum að öðru leyti, til þess að ná ásættanlegri niðurstöðu.“

Síðan taka við umræður um vogunarsjóði, sem afar athyglisvert er að hlýða á.

Heiðar Örn:

Hvenær sérðu fyrir þér að hægt væri að klára þetta?

„… hvernig hefur gengið að nefna dagsetningu við lok á viðræðum við Evrópusambandið? Þetta hins vegar tekur ekki það langan tíma, vegna þess að … ríkið hefur tækin sem þarf til að knýja fram samninga, og ef það gengur ekki, þá getur það strax byrjað að innheimta fjármagn með skattlagningu …“

Sigmundur Davíð segir síðan mjög skýrt og með afar þungri áherslu:

„Við ætlum að láta þá sem bjuggu til forsendubrestinn bæta fyrir forsendubrestinn sem þeir bjuggu til, það er að segja þrotabú þessara banka.“

Hefur hann staðið við það?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!