Sunnudagur 30.03.2014 - 11:24 - FB ummæli ()

Skrifborðið hans afa

Afi með elsta barnabarnið, Elísabetu Kristínu.

Afi með elsta barnabarnið, Elísabetu Kristínu.

Kristjón Kristjónsson afi minn er sá maður sem ég hef dáð meira en aðra í lífinu.

Hann var traustur maður, hlýr og alltaf velviljaður, einstaklega örlátur og hjálpsamur, hann var góður maður.

Engum hefði ég meira viljað líkjast en honum.

Ein af helstu táknmyndum mínum af afa, fyrir utan pípuna og hattinn, var alltaf skrifborðið hans.

Það hæfði honum vel – látlaust en sterkbyggt og þungt, óbifanlegt.

Og undir því var pláss þar sem lítill maður gat lengi vel leitað skjóls og upphugsað ævintýri.

Núna í morgun var ég að koma fyrir skrifborðinu hans hér á heimili mínu. Móðirsystir mín sem hefur varðveitt það síðan afi dó er að flytja og hefur ekki lengur pláss fyrir það.

Mér þykir satt að segja undarlega mikils virði að vera kominn með þetta skrifborð hingað.

Í sjálfu sér er það kannski ekkert stórmerkilegt að sjá. En það er að minnsta kosti 70 ára gamalt og það er skrifborðið hans afa.

Hér sat afi löngum stundum og sýslaði með pappíra sína, eða bara spjallaði tímunum saman í síma við Jónas frá Hriflu og annað mektarfólk.

Og tók því ævinlega vel þegar lítill maður reyndist í felum undir borðinu.

Mér finnst eiginlega að með því að varðveita héðan í frá þetta skrifborð þá beri ég ábyrgð á að gæta minningar þessa valmennis sem afi minn var.

Þetta er skrifborðið:

2014-03-30 10.48.20

*   *   *

Hér er svo minningargrein sem ég skrifaði um afa í Morgunblaðið eftir að hann dó fyrir 30 árum síðan:

„Ég man eftir sjálfum mér, dálitlu peði og honum afa. Við rerum saman á selabát, fórum í langa bíltúra og gengum margoft niður í fjöru. Þetta var gaman.

Afi var skemmtilegur karl og það þurfti mikil ólæti til að hann setti ofan í við okkur börnin. Við þóttumst þá vita að við hefðum unnið til þess. Annars var hann alltaf boðinn og búinn að gera okkur, eins og öðrum, hvaðeina til hjálpar og aðstoðar sem í hans valdi stóð og lét þá verkin tala. Mér fannst það öldungis sjálfsagt.

Seinna gerði ég mér grein fyrir, að auðvitað var það alls ekki sjálfsagt. En afi minn átti til alveg einlæga og skilyrðislausa hjálpsemi og samúð handa þeim sem hann batt trúss sitt við og ég veit að hann lagði fólki oft lið án þess að séð yrði að hann kæmi þar nærri. Hann ætlaðist ekki til neins í staðinn.

Ég skildi æ betur eftir því sem árin liðu að þar sem afi minn var, fór maður með óvenjulega stórt hjarta.

Nú er hann dáinn og við því er ekkert að gera. Sorgin er sár en þó blönduð svolitlum létti vegna þess að síðustu misserin átti hann við erfið veikindi að etja og þau reyndust honum sérstaklega þungbær. Annars vegar hafði honum varla orðið misdægurt á ævinni fyrr og hins vegar leið honum illa ef hann gat ekki verið sístarfandi, ýmist fyrir sjálfan sig og þá einkum úti í náttúrunni en ekki síður innan fjölskyldunnar, fyrir okkur hin.

Ég veit að hann hefði kosið að lifa lengur en úr því svona var komið hefur hann sjálfsagt orðið hvíldinni feginn. En ég á eftir að sakna hans.

Mest, langmest, hefur hún amma mín misst. Ég vissi alla tíð að hjónaband þeirra var farsælt en í bernsku áttaði ég mig ekki á því ástríki sem var á milli þeirra, ekki fyrr en ég var með þeim nokkra daga austur á Laugarvatni fyrir næstum tíu árum.

Á Laugarvatni hittust þau fyrst og hófu tilhugalíf sitt og þessa sumardaga fyrir tæpum áratug var eins og þau yrðu ung í annað sinn. Mér skildist þá, að þó þau slægju ekki um sig með stórum orðum, ríkti í þessu hjónabandi meiri skilningur og kærleiki en títt er, jafnvel meðal hjóna sem hafa eytt saman ævinni.

Orð eru að jafnaði til lítils nýt – ég vona bara að það sé ömmu minni einhver huggun að hún fékk 49 ár með góðum manni.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!