Sunnudagur 06.04.2014 - 10:13 - FB ummæli ()

Hvernig getur þetta verið stefna?

Bjarni Benediktsson var að messa í Valhöll í gær. Sjá hérna.

Þar mun hann hafa sagt:

„Við höfum ávallt haldið þeirri stefnu skýrt fram, að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB.“

Þetta er náttúrlega í fyrsta lagi lygi.

Eins og Benedikt Jóhannesson rifjaði upp á Austurvelli í gær og iðulega hefur svo sem verið rifjað upp áður, þá var það ekki minni maður en Davíð Oddsson sem mælti eindregið fyrir aðildarviðræðum við ESB kringum 1990.

Álit hans þá skiptir auðvitað ekki neinu máli núna – en þetta sýnir að orð Bjarna eru röng.

Og fyrir kosningarnar 2009 talaði Bjarni Benediktsson sjálfur fyrir „trúverðugri leið að upptöku evru“ en sú trúverðuga leið hlaut – eins og Bjarni vissi vel – að fela í sér aðild að Evrópusambandinu.

bjarni Evra

En látum það nú vera.

Við erum orðin vön því að málflutningur Sjálfstæðisflokks Bjarna Benediktssonar einkennist af lygum og þvaðri.

Ekkert nýtt í því.

En um leið sýnir orðalagið í þessari setningu í ræðu Bjarna á hve veikum grunni núverandi stefna hans í ESB-málum er reist.

Annars vegar er: „… hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB“ klisja sem Evrópusambandsandstæðingar tönnlast á en telja sig ósköp lítið þurfa að útskýra.

En hverjir eru annars þessir „við“ í setningunni hjá Bjarna?

Íslendingar? Sjálfstæðismenn? Sægreifarnir? Litla ljóta klíkan?

Hins vegar er það óneitanlega merkilegt, eins og Bjarni segir berum orðum, að það sé „stefna … að hagsmunum okkar sé best borgið“ og svo framvegis.

Getur það verið stefna stjórnmálaflokks að hagsmunum sé best borgið á þennan veg eða hinn?

Ja, það helst náttúrlega ágætlega í hendur við það meginmarkmið núverandi forystu flokksins að undir engum kringumstæðum megi þjóðin komast að því sjálf hvað gæti verið fólgið í samningi um aðild að ESB.

Eða taka ákvörðun um það sjálf.

En heldur er þetta aum „stefna“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!