Fimmtudagur 03.04.2014 - 09:05 - FB ummæli ()

Kóað með forsætisráðherra?

Undrandi varð ég yfir tíufréttum sjónvarpsins í gærkvöldi.

Þar snerist fyrsta frétt um þau orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að ekki væri hægt að láta undan þeirra „ófyrirleitni“ að láta „mestu hvalveiðiþjóð heims“ segja sér að hætta að veiða hval.

Og er þá átt við Bandaríkjamenn.

Undrandi varð ég vegna þess að Bandaríkjamenn eru ekki „mesta hvalveiðiþjóð heims“.

Frumbyggjar hafa þar vissan veiðikvóta en Bandaríkjamenn eru samt langt frá afkastamestu hvalveiðiþjóðum heims.

Þetta var örugglega á flestra vitorði þegar í gær, þegar Sigmundur Davíð lét þessi orð falla. Og orð hans voru líka leiðrétt strax, fyrst á samfélagsmiðlum og síðan til dæmis á Vísi þar sem rætt var við Árna Finnsson er benti á að þetta væri rangt.

Sjá hérna.

Samt lauk frétt sjónvarpsins seint í gærkvöldi á orðum Sigmundar Davíðs um hina ófyrirleitnu „mestu hvalveiðiþjóð heims“.

Hvers vegna setti fréttastofan engan fyrirvara við þessi orð?

Er það ekki lengur hlutverk fréttamanna að leiðrétta orð stjórnmálamanna (eða annarra) þegar þeir fara af einhverjum ástæðum augljóslega rangt með?

Eiga fjölmiðlarnir að leyfa fólki að fara með fleipur og treysta á að almenningur á Facebook sjái um að draga fram staðreyndirnar?

Ég sé reyndar á vef Alþingis að seinna í umræðunum á þingi ítrekaði Sigmundur Davíð orð sín og sagði að Bandaríkjamenn veiddu hvali „í meira mæli en nokkurt annað land“.

Látum vera þó hann hafi ekki vitað betur á þessari stundu, en af hverju voru orð hans ekki leiðrétt fyrst fréttastofan var að vitna til þeirra á annað borð?

Enn meira undrandi varð ég þó þegar ég fletti Fréttablaðinu í morgun.

Þar er sagt frá þessu sama máli, og fréttamaður blaðsins skrifar:

„Forsætisráðherra sagði að við ættum ekki að láta eina mestu hvalveiðiþjóð heims segja okkur að við mættum ekki veiða hval.“

Þar hafa skýr orð Sigmundar Davíðs um Bandaríkin sem „mestu hvalveiðiþjóð heims“ breyst í „eina mestu hvalveiðiþjóð heims“.

Hvaðan kom þetta „eina mestu“?

Hef ég misst af einhverju, eða er fréttamaður Fréttablaðsins virkilega að reyna að betrumbæta orð forsætisráðherra svo lítið ber á?

Af því fréttamaðurinn veit að orðin um „mestu hvalveiðiþjóð heims“ eru röng, reynir hann þá að láta líta út fyrir að Sigmundur Davíð hafi talað um „eina mestu hvalveiðiþjóðina“?

Þó hann hafi alls ekki gert það.

Heitir þetta að fréttamaður sé farinn að kóa með stjórnmálamanni, eða hverju sætir þetta?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!