Þriðjudagur 03.06.2014 - 21:45 - FB ummæli ()

Það er verið að hæðast að okkur

Það er verið að gera grín að okkur.

Forráðamenn veiðiárinnar í Norðurárdal ætla að bjóða Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í veiði á fimmtudaginn.

Það er í sjálfu sér siðlaust, en svo hafa þeir ákveðið að sparka í fólk sem hefur áhyggjur af siðferði í íslenskum stjórnmálum með því að halda því fram að boðsferðin sé til að bæta ímynd laxveiða í hugum almennings!

„Hann seg­ir að laxveiðin hafi verið kom­in með ímynd bruðls og óhófs en því ættu Sig­mund­ur Davíð og Bjarni að geta breytt með nær­veru sinni,“ segir í samtali mbl.is við Einar Sigfússon sölustjóra árinnar.

Sjá hér.

Finnst ykkur þetta ekki fyndið? Að það sé til að bæta ímyndina á veiðistað þar sem dagurinn kostar 160-170 þúsund kall að bjóða tveimur milljónamæringum að renna fyrir lax?

Tveimur milljónamæringum sem áttu ríka pabba sem auðguðust í hagkerfi helmingaskiptanna.

Ég vona að minnsta kosti að þetta hafi átt að vera fyndið.

Ef ekki – ef Norðurárdalsmenn hafa í alvöru trúað því að það gæti slegið á ímynd bruðls og óhófs við laxveiðar að bjóða þessum tveimur mönnum í veiði – þá eru þeir svo skyni skroppnir að það er einfaldlega ótrúlegt.

Og það er eiginlega jafn ótrúlegt að þeir tvímenningar skuli þiggja þetta boð.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra!

Það er að segja: Það er ótrúlegt þangað til maður man um hvaða tvo einstaklinga er hér að ræða.

Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson.

Þá er maður skyndilega ekki hissa lengur.

Hér er rétt að vekja athygli á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti sér siðareglur:

Ráðherra þiggur að jafnaði ekki boðsferðir af einkaaðilum nema opinberar embættisskyldur séu hluti af dagskrá ferðarinnar.“

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur ekki séð ástæðu til að setja sér siðareglur.

Auðvitað ekki.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!