Laugardagur 21.06.2014 - 12:00 - FB ummæli ()

Svarti prinsinn

Ég hef því miður ekki tök á að sitja málþing sem haldið er í dag í Þjóðminjasafninu í tilefni af því að um þessar mundir eru sextíu ár frá fæðingu Matthíasar Viðars Sæmundssonar bókmenntafræðings og rithöfundar. Sjá hér.

En þetta er mjög vel til fundið.

GCU9N3GMMatthías Viðar var afar skarpskyggn maður og snjall, hann var víðsýnn og beindi athygli sinni aldrei bara að yfirborðinu.

Hann skrifaði skemmtilega um ýmis óvænt efni, oft um sitthvað sem legið hafði utangarðs fram að því, og hann var eftirtektarverð manneskja og einn þeirra sem settu sannarlega svip á bæinn.

Og það var mikill missir þegar hann dó aðeins 49 ára gamall.

Hann var svarti prinsinn í íslenskri bókmenntafræði, hef ég stundum hugsað með sjálfum mér.

Hinn upphaflegi svarti prins fékk það viðurnefni út á svartgljáandi brynju sína.

Framan af ævi gekk Matthías Viðar líka stundum brynjaður til leiks, en kastaði brynjunni þegar á leið.

Eftir það á „svart“ í hans tilfelli ekki aðeins við kolsvört augun, heldur dýpt, hlýju og skjólið í hellinum.

Ég ætlaði svo að segja hér eitthvað fleira viturlegt um hann, en það er eins og gengur, maður fer alltaf að hugsa um sjálfan sig.

Fyrir tuttugu árum gaf ég litla skáldsögu sem var skrifuð með mínu hjartablóði og ég var dauðfeiminn við bókina.

Þetta var einhvers konar harmleikur sem átti svo að umbreytast í gróteska kómedíu.

Hún eignaðist nokkra góða aðdáendur meðal fólks sem ég tek mikið mark á, en annars er óhætt að segja að hún sló ekki í gegn.

Ég skal viðurkenna að ég var um tíma svolítið hnugginn yfir því fálæti sem mér fannst þau sýna sögunni sem mest sýsluðu með bókmenntir í landinu.

En það var bara eins og það er. Auðvitað var það bara bókinni sjálfri að kenna ef hún sagði fólki ekki nóg, eða ekkert.

Hjartablóð dugar alls ekki alltaf!

En svo huggaði ég mig líka við að af einum manni frétti ég úr þeim kreðsum sem ég heyrði ekki betur en færi hlýlegum orðum um greyið bæði seint og snemma.

Það var Matthías Viðar.

Og slíkur maður var Matthías Viðar að það var eiginlega alveg nóg fyrir mig.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!