Sunnudagur 06.07.2014 - 00:47 - FB ummæli ()

Fyrirsjáanlegur ófyrirsjáanleiki

Þetta hefur óumdeilanlega verið skemmtilegasta heimsmeistaramótið í fótbolta í manna minnum.

Líklega síðan 1986.

Og alveg sérstaklega er þetta heimsmeistaramót hinna óvæntu úrslita.

Er það ekki?

Ja, það er nefnilega það.

Einhvern tíma áður en mótið hófst, þá skoðaði ég dagskrána og uppröðun leikja allt frá riðlakeppninni og fram í undanúrslit og komst að þeirri niðurstöðu að ef allt færi á eins fyrirsjáanlegan hátt og hægt væri að hugsa sér, þá myndu Brasilía og Þýskaland etja kappi í öðrum undanúrslitaleiknum en í hinum myndu eigast við Argentína og annaðhvort Spánn eða Holland.

Ég veðjaði frekar á Spán en fannst að Hollendingar ættu alveg ágætan séns líka.

Þessi „spá“ útheimti enga eigin ályktunarhæfni, ég fór bara eftir því sem virtist fyrirsjáanlegt miðað við styrkleika liðanna að undanförnu, og að viðbættu dassi af hefð. Og fjöldamargir aðrir komust auðvitað að sömu niðurstöðu.

Þegar ég gat um þetta á Facebook, þá kom til skjalanna glúrinn maður og sagði að þetta væri að vísu alveg rökrétt niðurstaða en úrslitin yrðu aldrei svona fyrirsjáanleg.

Því myndi spáin áreiðanlega ekki standast.

En nú þegar öllu er að verða lokið, þá er niðurstaðan einmitt sú að undanúrslitaleikirnir eru Brasilía-Þýskaland og Argentína-Holland.

Þannig að eftir öll hin ófyrirsjáanlegu og óvæntu úrslit, þá reynist niðurstaðan samt hafa verið algjörlega fyrirsjáanleg.

Það er eitthvað uggvænlegt við það!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!