Laugardagur 12.07.2014 - 10:23 - FB ummæli ()

Af hverju kann ég ekki að meta Sigmund Davíð

Það væri ofmælt að ég hafi verið í yfirvofandi hættu.

En ég viðurkenni (úff!) að sú hugsun hvarflaði að mér, einu sinni eða tvisvar:

Að kjósa Framsóknarflokkinn.

Þetta var fyrir kosningarnar í fyrravor. Flokkarnir buðu upp á hitt og þetta, eins og gengur, en Framsóknarflokkurinn skar sig úr.

Undir forystu hins glaðbeitta formanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lofaði flokkurinn að fara út í lönd og heimta þaðan mörg hundruð milljarða frá vondum hrægammasjóðum sem síðan yrði dreift til þurfandi fólks á Íslandi.

Þetta hljómaði allt frá byrjun eins og það væri of gott til að geta staðist.

En samt – í eitt eða tvö skipti þegar ég horfði á Sigmund Davíð lýsa því í kosningaþáttum hvernig hann ætlaði að rota hrægammana og hirða af þeim þessa mörg hundruð milljarða – þá kviknaði þessi hugsun:

Gat verið að þessi djarflegi piltur hefði rétt fyrir sér?

Að Jóhanna og Steingrímur hefðu af tómum heimóttarskap ekki þorað að fara þessa ótroðnu slóð.

En þar væri virkilega gull að hafa.

Og Sigmundur Davíð væri rétti maðurinn til að sýna hrægammasjóðunum í tvo heimana.

Og koma heim með gullið.

Nei – á endanum trúði ég því ekki.

Því miður reyndist ég hafa rétt fyrir mér.

„Því miður“ segi ég, vegna þess að ég hefði með mestu ánægju viðurkennt að hafa haft rangt fyrir mér ef inn í okkar hrjáða samfélag hefðu sáldrast þeir mörg hundruð milljarðar sem Sigmundur Davíð lofaði að hrifsa frá hrægömmunum strax (hann sagði „strax“) og hann kæmist til valda.

En þetta reyndist bara vera risastórt blöff.

Ekki króna hefur komið frá hrægömmum.

Á endanum kynnti Sigmundur Davíð millifærslu á nokkrum milljarðatugum úr ríkissjóði til sumra þeirra sem skulda húsnæðislán.

Þar á meðal til margra sem þurfa ekkert á því að halda.

Og við sjálf borgum brúsann – og börnin okkar.

Eins og venjulega kom í ljós að ef eitthvað hljómar of vel til að geta staðist, þá stenst það yfirleitt ekki.

Hið djarflega kosningaloforð Sigmundar Davíðs reyndist þegar til kom hafa verið ennþá innihaldslausari blaðra en jafnvel hörðustu gagnrýnendur hans höfðu ímyndað sér.

Auðvitað hefði forsætisráðherra, sem var kominn í það embætti eingöngu út á loforðið sitt stóra (og ekkert annað), átt að sjá sóma sinn í því að segja af sér þegar hann sá fram á að geta ekki staðið við loforðið.

En það gerði Sigmundur Davíð ekki.

Því nú voru komin til sögunnar tvö ný vandamál í viðbót við þá tilhneigingu hans að lofa með miklum belgingi gulli og grænum skógum en standa svo ekki við neitt.

Þessi tvö vandamál eru líklega nátengd.

Hið fyrra er að Sigmundur Davíð er í afar sérkennilegum tengslum við raunveruleikann.

Hið síðara er að hann er svo óforskammaður að mann setur eiginlega hljóðan þegar hann byrjar.

Þegar hann kynnti millifærsluna sem kom í staðinn fyrir þessa mörg hundruð milljarða frá hrægammasjóðunum, þá baðst hann ekki afsökunar og útskýrði að hann hefði nú uppgötvað að kosningaloforðið mikla gæti hann því miður ekki uppfyllt.

Nei, þvert á móti.

Hann lýsti því yfir – nánast orðrétt – að þetta væri „heimsmet í uppfyllingu kosningaloforða“.

Og virtist reyndar trúa því sjálfur.

Og hóf svo sínar þreytandi og óforskömmuðu ræður um allt vonda fólkið sem kann ekki að meta hann.

(Hvers vegna skyldi það nú vera?)

Í gær var Sigmundur Davíð að halda ræðu á einhverjum fundi með framsóknarmönnum.

Honum gafst þar tækifæri til að ræða af heiðarleika hina sorglegu frammistöðu tveggja efstu frambjóðenda Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Þegar frambjóðendurnir fóru að dorga eftir atkvæðum á djúpmiðum útlendingaandúðar og rasisma.

Í því fólst ekki að frambjóðendurnir sjálfir og hvað þá flokksmenn upp til hópa væru orðnir rasistar.

Enda lýstu margir góðir framsóknarmenn harmi sínum og viðbjóði á því sem fram fór.

Í því fólst aðeins nákvæmlega það sem ég sagði:

Að frambjóðendurnir voru á aktífan hátt að sækjast eftir atkvæðum úr sorglegustu kimum samfélagsins.

Í ræðu sinni yfir framsóknarmönnum hefði Sigmundur Davíð getað farið yfir þetta mál frá upphafi til enda.

Hann hefði getað lýst hryggð sinni yfir því sem gerðist í kosningabaráttunni, útskýrt hvernig það gerðist, sett kurteislega ofan í við frambjóðendurna tvo og lýst því afdráttarlaust yfir að á þessum miðum myndi Framsóknarflokkurinn aldrei fiska framar.

Þetta hefði fær stjórnmálamaður vel getað gert af heiðarleika og einlægni án þess að láta beinlínis fallast á sverð mótherja sinna eða hirta frambjóðendurna sína tvo um of.

Hann hefði getað vandað um við þá föðurlega og viturlega – og af ábyrgð.

Hann hefði getað komið fram sem „statesman“.

En ekki vottaði fyrir neinu af þessu í ræðu Sigmundar Davíðs.

Enda er hann enginn „statesman“.

Í staðinn kom þetta venjulega „rant“ hans um hvað allir væru vondir við Framsóknarflokkinn, hvað „umræðan“ væri hættuleg og að nýjum „lágpunkti“ hefði nú verið náð.

Það var einstaklega sorglegt að horfa á þetta.

Þarna stóð ungur maður sem lukkan hafði fleytt upp í embætti forsætisráðherra á Íslandi.

Og hafði öll tækifæri til að sýna að hann væri (þrátt fyrir „mistök“ sín með hrægammaloforðið) heiðarlegur stjórnmálamaður sem hugsaði stórt.

En í staðinn stóð hann þarna og reifst og skammaðist á allra billegasta máta.

Rétt eins og þegar hermd voru upp á hann kosningaloforðin um milljarðana frá hrægömmunum.

Engin viska, engin ábyrgð, engin djúp og einlæg hugsun.

Og engin tengsl við raunveruleikann.

En óforskömmulegheitin reidd í þverpokum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!