Mánudagur 14.07.2014 - 08:49 - FB ummæli ()

Þýskaland og Argentína

Sigur Þjóðverja á HM í Brasilíu var mjög verðskuldaður. Á heildina litið voru þeir með besta liðið, og jafnvel það langbesta.

Liðið gat eiginlega brugðið sér í allra kvikinda líki.

Á stundum spiluðu Þjóðverjar eins og Spánverjar á góðum degi, héldu boltanum langtímum saman og biðu þolinmóðir eftir að einhvers staðar opnaðist glufa í vörn mótherjanna.

Stundum spiluðu þeir eins og Hollendingar gerðu best á dögum „total football“ þar sem allir leikmenn gátu spilað hvaða stöðu sem var.

Stundum voru þeir eins og hraðskreiðir Brasilíumenn á velmektardögum Ronaldos og félaga.

Þegar á bjátaði (sem var nú ekki oft) gátu þeir meira að segja leikið Vestur-Þýskaland á níunda áratugnum, þegar Vestur-Þjóðverjar spiluðu ævinlega með samanbitna jaxla.

En hvaða gervi sem þeir tóku á sig, þá var þó alltaf eitthvað einstakt við þetta lið.

Sumum fótboltasérfræðingum (einkum þeim sem ganga með þjálfarann í maganum) finnst ekkert fegurra við fótbolta en gott og mikið „skipulag“.

Þýska liðið í Brasilíu var svo sannarlega „vel skipulagt“.

Ég held svei mér þá að ég hafi aldrei séð jafn vel smurða vél á fótboltavelli.

En samt höfðu þeir líka neistann sem mjög skipulögð lið skortir oft.

Brilljansinn.

Athugið að Þjóðverjar misstu einn allra besta leikmann sinn í meiðsli rétt fyrir mótið, Marco Reus.

Það hefði verið mikil blóðtaka fyrir öll önnur fótboltalið, en Þjóðverjar söknuðu hans reyndar ekki neitt.

Maður kemur í manns stað í liði Joachims Löw og það er ómögulegt að nefna einhvern í þýska liðinu sem skaraði verulega fram úr félögum sínum, svo jafnt var það.

Þótt auðvitað hafi Thomas Müller verið þeirra bestur, alltaf að í framlínunni og dreif áfram sóknarleikinn.

Sem sagt, gott.

En að því sögðu, þá var úrslitaleikurinn reyndar ekki fegursta stund þýska liðsins.

Og ef Agüero eða Messi hefðu potað inn marki á lokamínútunum en ekki Götze, þá hefðu Þjóðverjar í raun ekki getað kvartað yfir því að tapa leiknum.

Í fyrsta sinn í keppninni höfðu Þjóðverjar nefnilega alls ekki verið líklegir til að skora – fram að marki Götzes.

Argentínumenn áttu hættulegri færi í leiknum og hefðu verið vel að sigri komnir – í þessum leik – þótt á heildina litið hafi þeir staðið Þjóðverjum nokkuð að baki.

Menn hafa verið að tala um að það hefði verið synd ef Argentína hefði unnið, því liðið spili leiðinlegan varnarbolta.

Það er svolítið kúnstugt því vörnin hefur verið veikasti hlekkur argentínska liðsins undanfarin misseri.

Argentínumenn hafa yfirleitt getað skorað nánast að vild með sína ógnarsterku framherja, en vörnin hefur ekki beinlínis verið traustvekjandi.

Svo harðsvíraðan varnarleik hefur Argentína sannarlega ekki spilað.

Það er heilmikið afrek hjá Sabella þjálfara að hafa loksins kippt varnarleiknum í lag á HM. Þar á auðvitað hinn ódrepandi baráttujaxl Javier Mascherano ekki minnstan þátt.

Og athugið að Argentínumönnum tókst – fyrstum allra – að stöðva sóknarleik Þjóðverja í úrslitaleiknum, ekki með hörku eða með því að „leggja strætisvagninum“ fyrir framan markið sitt (að hætti hins ömurlega þjálfara Mourinhos), heldur einfaldlega með dugnaði, áræðni og baráttuvilja.

Þetta var vel spilaður varnarleikur en útfærður á jákvæðan hátt, ekki neikvæðan eins og sum varnarsinnuð lið hneigjast til.

Flestum á óvart brugðust hins vegar framherjar Argentínu – bæði á mótinu sjálfu og í úrslitaleiknum.

Higuaín gat lítið sem ekkert, Agüero var ekki nema hálfur maður. Lavezzi er viljugur en hann er ekki maður til að vinna HM. Angel Di María stóð sig vel framan af en dalaði svo og meiddist.

Lionel Messi þurfti því að sjá um sóknarleikinn næstum einn, og honum tókst að koma þessu misjafna og brothætta liði sínu alla leið í úrslitaleikinn.

Það er afrek sem menn munu átta sig betur á þegar frá líður, þótt í útsláttarkeppninni hafi hann ekki náð að sýna sitt allra besta og ekki í úrslitaleiknum.

Messi var vel að því kominn að fá gullboltann sem mikilvægasti leikmaðurinn, þótt ekki hefði verið hægt að kvarta þótt Müller eða Robben hefðu fengið þá vegtyllu.

Og ef Argentínumenn hefðu náð marki á undan Götze og unnið leikinn, hefðu menn orðið að viðurkenna að það hefði verið sanngjarn sigur í leik þar sem Argentínumenn voru hættulegri.

Ef og hefði.

Altént var Þýskaland sem sé að lokum mjög verðugur sigurvegari á frábæru heimsmeistaramóti.

Og skemmtilegt er til þess að vita að fyrsti leikur hinna nýju heimsmeistara verður í Düsseldorf hinn 3. september.

Eftir innan við tvo mánuði.

Gegn Argentínu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!