Fimmtudagur 17.07.2014 - 10:20 - FB ummæli ()

Ísland þarf aðeins að hækka um fjögur sæti

Nýr stigalisti Alþjóðaknattspyrnusambandsins hefur nú verið gefinn út, og ýmsar breytingar hafa orðið á toppnum, eins og við mátti búast eftir HM.

Þýskaland er komið á toppinn, Argentína í annað sætið og Holland hefur stokkið upp um heil 12 sæti og komið sér fyrir í þriðja sætinu. Kólumbía er í fjórða sæti, þá Belgía og síðan Úrúgvæ.

Síðan koma Brasilíumenn sem hrapa um fjögur sæti og Spánverjar sem hrapa úr efsta sætinu niður í það sjöunda.

Hérna má listann.

Hann er athyglisverður fyrir ýmissa hluta sakir, þótt menn skuli varast að taka of mikið mark á honum.

Í 47. sæti listans er Ísland og hefur hækkað um fimm sæti síðan fyrir tveimur mánuðum. Hækkunin stafar af 1-0 sigri á Eistlandi en í reynd er hækkun að stigum sáralítil. Ísland hækkar um þessi fimm sæti frekar af því að liðin í kring lækka.

Fjögur lið sem voru á HM eru nú fyrir neðan Ísland: Íran, Kamerún, Suður-Kórea og Ástralía.

Gaman er að sjá að Palestína er enn á hraðri uppleið, hefur hækkað um níu sæti og er nú í 85. sæti. (Ísrael er í 67. sæti.)

Hvernig væri að KSÍ setti sig í samband við knattspyrnusamband Palesínu og setti á vináttuleik við Palestínumenn?

Vilji er allt sem þarf!

Að lokum – þetta 47. sæti Íslands á heildarlistanum þýðir að Ísland er nú í 28. sæti yfir Evrópuþjóðirnar.

Á Evrópumótinu í Frakklandi eftir tvö ár verður keppnisþjóðum fjölgað úr 16 í 24.

Sumum mun vafalaust þykja það alltof mikið. Það þýðir í raun að nærri helmingur Evrópuþjóða verður á lokamótinu. 53 þjóðir tilheyra nú Evrópusambandinu UEFA.

En það þýðir sem sé líka að Ísland ætti ekki að þurfa að bæta sig nema um sem nemur fjórum sætum til að komast til Frakklands.

Ef miðað er við þennan stigalista – sem er vissulega hæpið.

Aðferðirnar við útreikninga hans eru ennþá svolítið skrýtnar.

Til dæmis hrapar El Salvador um 53 sæti eftir tvo nauma ósigra í vináttuleikjum gegn öflugum þjóðum. Sem er náttúrlega bara rugl.

En listinn segir þó sína sögu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!