Fimmtudagur 17.07.2014 - 16:12 - FB ummæli ()

Valdhroki Ólafs Ragnars Grímssonar

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson synjaði Icesave samkomulaginu staðfestingar útmálaði hann sjálfan sig sem mikinn postula lýðræðisvæðingar á Íslandi og gott ef ekki í öllum heiminum.

Hann hafði líka alveg efni á að hreykja sér svolítið í því máli. Þjóðin var honum hjartanlega sammála.

En eftir að honum hafði lukkast að bjarga sínum eigin orðstír með Icesave málinu, þá minnkaði hins vegar mjög áhugi hans á lýðræði.

Hann gaf ekki skít fyrir áskoranir um þjóðaratkvæðagreiðslu um veiðigjöldin, þótt enginn munur væri á þeim og áskorunum sem hann fékk áður um Icesave málið.

Hann hefur ekki lýst minnstu áhyggjum af því að Alþingi og ríkisstjórn skuli ætla að hunsa heila þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Íslendingar lýstu þeirri skoðun sinni að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs skyldi verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.

Af því sú stjórnarskrá er ekki nákvæmlega eftir höfði hans sjálfs.

Þetta er hvort tveggja nógu slæmt.

En nú hefur Ólafur Ragnar Grímsson bitið höfuðið af skömminni.

Eins og kunnugt er gaf hann það skýrt og greinilega í skyn við upphaf kosningabaráttunnar 2012 að hann kynni að vilja sitja aðeins tvö ár eða svo, en myndi þá segja af sér.

Þetta gerði hann af því þá var niðurstaða ekki komin í málaferlin um Icesave. Vinsældir hans voru þá ekki ýkja miklar. Hann ályktaði því að kannski myndi hann frekar ná endurkjöri ef hann gæfi til kynna að þjóðin þyrfti ekki að þola hann nema hálft kjörtímabilið.

Í kjölfar Icesave dómsins jukust vinsældir Ólafs mjög. Þá hætti hann að tala um að sitja bara í tvö ár. Þvert á móti. Hann byrjaði að skammast og rífast í hvert sinn sem einhver vildi rifja upp þau orð hans.

Og nánast fullyrti að þetta hefði hann aldrei sagt!

Það var auðvitað mjög ómerkilegt af honum. Það var í sjálfu sér ekkert að því að hann skyldi skipta um skoðun eftir Icesave niðurstöðuna og vilja sitja allt kjörtímabilið. En ómerkilegt að hann skyldi reyna að þræta fyrir að hafa sagt þetta.

En nú hefur Ólafur Ragnar sem sé bitið hausinn af þeirri skömm líka.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins bað um viðtal við Ólaf Ragnar um hvort hann hefði leitt hugann að því að segja af sér, nú þegar kjörtímabilið er hálfnað.

Ólafur Ragnar neitaði að koma í viðtal og svara spurningum um þetta. Sjá hérna.

Hann hefur ekki þorað í alvöru viðtal við Ríkisútvarpið í háa herrans tíð.

Væntanlega af því hann óttast að hans viðkvæma sál verði kannski ekki meðhöndluð með sömu silkihönskunum af Ríkisútvarpinu og hann er orðinn vanur á ýmsum fjölmiðlum.

En nú var forsetaritari sendur fram fyrir skjöldu og látinn bera Ríkisútvarpinu (og þjóðinni) skilaboð:

„Örnólfur Thorsson forsetaritari segir að forsetinn ætli ekki að veita viðtal um þetta efni, enda ræði hann ekki það sem fram hafi komið í kosningabaráttu, eftir að hann hefur tekið við embætti. Umræða í kosningabaráttu verði ekki framlengd inn í embættistíð forsetans. “

Fyrirgefiði – en hafiði vitað annan eins hroka?

Aðra eins fyrirlitningu á lýðræðinu?

Umræða í kosningabaráttu verði ekki framlengd inn í embættistíð forsetans!

Það er sem sagt bannað að spyrja hans hágöfgi um nokkuð sem hann sagði í kosningabaráttunni!

Samkvæmt þessari „kenningu“ má bulla og ljúga hverju sem er í kosningabaráttu, en síðan er bannað að minnast á það framar!

Ætli muni ekki ýmsir taka þessari „kenningu“ fegins hendi?!

Ólafur Ragnar Grímsson var sprækur stjórnmálamaður, glöggur doktor í stjórnmálafræði, dugandi forystumaður í alþjóðlegum þingmannasamtökum, þjóðkjörinn forseti Íslands (og ansi vinsæll með köflum) og sjálfskipaður lýðræðismógúll.

Í elli sinni sendir hann þjóðinni þessi skilaboð.

Í þessum orðum felst ekki aðeins valdhroki, heldur býr líka í þeim fræ einræðis.

Nú telur hann að valdsherrar megi segja hvað sem er meðan þeir eru að komast til valda, og þurfi síðan greinilega ekki að standa fyrir máli sínu framar.

Ef einhver dugur væri í okkur myndum við hrópa þennan mann niður.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!