Miðvikudagur 23.07.2014 - 10:08 - FB ummæli ()

Pizza númer 26

Ég sé í Fréttablaðinu að veitingastaðurinn Hornið er 35 ára í dag.

Sjá hérna.

Það er full ástæða til að óska eigendunum Valgerði og Jakobi hjartanlega til hamingju með áfangann.

Þau hafa ekki aðeins haldið úti þessum fína og huggulega stað öll þessi ár, heldur eru þau líka meiri brautryðjendur í henni Reykjavíkurborg en margir gera sér grein fyrir.

Þegar Hornið var stofnað 1979 var miðborg Reykjavíkur nánast dauður staður, sér í lagi á kvöldin.

Strax klukkan sex var öllu skellt í lás, og napur vindurinn einn fór þar um götur þangað til morguninn eftir.

Þangað var eiginlega ekkert að sækja, þótt þar væru reyndar svona tveir fyllerísbrunnar.

(Þangað kom fólk á leigubílum, drakk sig út úr fullt, fór.)

Eftir að Hornið opnaði hafði maður allt í einu ástæðu til að fara í bæinn á kvöldin.

Og þannig fóru að rofna þau klakabönd sem verið höfðu á miðbænum.

Ég er sannfærður um að Hornið hafi þar skipt miklu máli.

Í mörg ár var ég fastagestur á Horninu.

Ég þurfti ekki einu sinni að tala við þjónana þegar ég kom – það vissu allir að ég ætlaði að panta pizzu númer 26.

Núorðið líður gjarnan langur tími á milli þess að ég lít inn, en andrúmsloftið er alltaf jafn þægilegt, maturinn alltaf jafn góður.

Til lukku með daginn!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!