Miðvikudagur 23.07.2014 - 13:11 - FB ummæli ()

Nauðgarinn

Ekki er það algengt að í leiðara svo lágróma blaðs sem Fréttablaðsins sé stjórnvöldum í öðru landi líkt við nauðgara.

En það gerðist í morgun, og leiðarinn er reyndar alveg prýðilegur.

Ágæt er til dæmis ábending leiðarahöfundar um að framferði Ísraels sé það sama nú og verið hafi áður en Hamas kom til sögunnar. Ísraelsmenn og talsmenn þeirra geta því ekki notað Hamas sem afsökun fyrir grimmdinni sem Ísraelsmenn sýna.

Sjá hér – Óli Kristján Ármannsson skrifar hann.

Orðalagið er til marks um hve fólki blöskrar gjörsamlega framferði Ísraels á Gazasvæðinu.

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á útifund samtakanna Ísland-Palestína á Ingólfstorgi í Reykjavík klukkan fimm í dag.

Og sömuleiðis hvet ég alla til að skrifa undir áskorun þess efnis að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael.

Nærri 6.000 hafa þegar skrifað undir þótt undirskriftasöfnunin hafi ekki verið á netinu nema í tæpa tvo sólarhringa.

Hún mun aðeins standa fram á morgundaginn og verður afhent meðlimum utanríkismálanefndar Alþingis þegar hún kemur saman til fundar um málið á morgun.

Það er löngu fullreynt að diplómatískar aðferðir duga ekki gegn Ísrael.

Slit á vinatengslum við þetta ofsaríki er hins vegar leið sem vert er að prófa, þó ekki væri til annars en lýsa andstyggð okkar skýrt og skorinort.

Hérna er undirskriftasöfnunin.

Textinn er svohljóðandi:

Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til að slíta nú þegar stjórnmálasambandi við Ísrael vegna nýjustu atburða á Gaza.

Jafnvel þótt viðurkenndur sé réttur Ísraels til að snúast til varnar gegn hryðjuverkaárásum þykir okkur augljóst að hernaður Ísraels nú fari langt fram úr því sem eðlilegt getur talist. Með þeim hernaði hafa Ísraelsmenn nú þegar drepið hundruð saklausra óbreyttra borgara. Þar á meðal eru tugir barna.

Framferði Ísraels er ólíðandi, og Ísraelsmenn hafa margoft sýnt að þeir hirða ekkert um ályktanir og fundargerðir. Íslendingar verða að sýna að þeir verða ekki framar þátttakendur í því hálfkáki sem mótmæli gegn hernaðarárásum Ísraels á saklaust fólk eru venjulega.

Hið eina sem hugsanlega gæti sent Ísraelsmönnum nógu sterk skilaboð væri að slíta stjórnmálabandi við þá. Við förum fram á að það verði gert nú þegar.

obama2

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!