Þriðjudagur 29.07.2014 - 08:47 - FB ummæli ()

Ömurleg frétt

Frétt DV í morgun um að Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hafi hætt vegna fjandskapar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur dómsmálaráðherra í sinn garð er ekkert minna en hrollvekjandi.

Þetta er einhver ömurlegasta frétt sem ég hef séð lengi af innlendum vettvangi.

Sé eitthvað hæft í því að dómsmálaráðherra hafi bæði hringt í lögreglustjórann og kallað hann á teppið vegna rannsóknar lögreglunnar á mögulegum afglöpum ráðherrans sjálfs, og Stefáni hafi verið orðið ófært að sinna sínu starfi vegna þess, þá kallar það auðvitað á tafarlausa afsögn Hönnu Birnu.

Slík valdníðsla er einfaldlega ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi.

Því miður fyrir nýjan lögreglustjóra í Reykjavík, sem Hanna Birna valdi sjálf í starfið án auglýsingar, þá kasta þessi ósköp líka skugga yfir hann – eða réttara sagt hana. Það er kannski ekki víst að Hanna Birna hafi gert Sigríði Björk Guðjónsdóttur sérstakan greiða með þessari aðferð við að koma henni í starf, sem hún er þó svo augljóslega virkilega hæf til að gegna.

En látum það vera.

Það mikilvæga í málinu er að fá úr því skorið hvort frétt DV um samskipti Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar sé rétt.

Það er svo alvarlegt mál, ef rétt reynist, að Hanna Birna hafi sem ráðherra hafi lagst af fullum þunga á jafn mikilvægan embættismann og lögreglustjórann í Reykjavík, og reynt að hafa þannig áhrif á rannsókn á verkum hennar sjálfrar, að hvorki Stefán né Hanna Birna hafa leyfi til að segja ekki allan sannleikann í málinu.

Þetta er hlutur sem almenningur í landinu á skilyrðislausan rétt – já, kröfu – á að fá að vita.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!