Þriðjudagur 29.07.2014 - 12:43 - FB ummæli ()

Frétt DV er bersýnilega rétt

Frétt DV um að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi haft samband við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra í Reykjavík og freistað þess að hafa áhrif á rannsókn undir stjórn hans um embættisfærslur hennar sjálfrar, sú frétt er bersýnilega rétt.

Í fréttinni felst svo grafalvarleg ásökun í garð Hönnu Birnu að ef fréttin væri röng, þá myndi Stefán að sjálfsögðu bera hana afdráttarlaust til baka.

En það gerir hann ekki. Hann segir aðeins í yfirlýsingu á Twitter að honum hafi þótt tímabært að skipta um starf.

Sem er einmitt nákvæmlega það sem kom fram í DV-fréttinni!

Stefán hafi talið tímabært að hætta þegar svona var komið.

Þegar RÚV bauð honum sérstaklega upp á að bera frétt DV til baka gerði hann það ekki – sjá hér.

Athyglisvert er líka að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari – sem DV segir að Stefán hafi rætt málið við – hefur heldur ekki borið þetta til baka.

Hún segir aðeins við DV að hún telji ekki við hæfi að hún ræði þetta mál við fjölmiðla. Og hefur ekki látið RÚV ná í sig í morgun.

Það er sama sagan og með Stefán – ef fréttin væri röng myndi Sigríður varla hika eitt andartak við að bera hana til baka, hvað sig snerti.

Ég skil raunar ekki afstöðu Stefáns og Sigríðar.

Finnst hvorugu þeirra að það komi almenningi á Íslandi við að ráðherra hagi sér eins og Hanna Birna?

En það skiptir samt ekki öllu máli.

Mestu skiptir að með því að bera fréttina EKKI til baka, þá staðfesta þau að hún er rétt.

Því miður.

En Hanna Birna ætlar enn að troða í spínatinu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!