Föstudagur 03.10.2014 - 17:18 - FB ummæli ()

Hefndarför úr innanríkisráðuneytinu

Tveimur blaðamönnum DV, þeim Jóni Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni, má öllum öðrum fremur þakka að lekamálið í innanríkisráðuneytinu komst í þvílíkt hámæli sem orðið er.

Ef þeir hefðu ekki sýnt þá þrautseigju sem þeir hafa gert, þá myndum við ekki vita um þau glöp sem framin voru þegar röngum upplýsingum um prívatmálefni var dreift úr innanríkisráðuneytinu.

Dugnaður þeirra og atorka verða á endanum áreiðanlega til þess að pólitískir útsendarar í ráðuneytum hugsa sig vel um áður en þeir gera annað eins.

Þá verður almennt viðurkennt að þeir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson hafi bætt samfélag okkar.

Það hefur raunar þegar verið viðurkennt með blaðamannaverðlaunum sem þeir hlutu fyrir vinnu sína við þetta mál.

Þeir munu geta gengið frá lekamálinu hnarreistir, og orðspor þeirra gott.

Spurning hvert verður orðspor Þóreyjar Vilhjálmsdóttur.

Hún er nú farin í mál við þá tvímenninga (sjá hér) og krefur þá um háar miskabætur.

DV gerði nefnilega ein mistök í málinu.

Á einum tímapunkti var því slegið föstu í blaðinu að Þórey væri sá „starfsmaður B“ sem helst var grunaður um lekann úr ráðuneytinu.

Þetta var leiðrétt örfáum tímum eftir að blaðið kom út, og DV baðst kurteislega afsökunar á mistökum sínum.

Það var Gísli Freyr Valdórsson, hinn aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem var „starfsmaður B“ en ekki Þórey.

Þetta voru leið mistök, auðvitað, en DV brást hratt við og baðst sem fyrr segir afdráttarlaust afsökunar, strax og mistökin urðu ljós.

Núna – bráðum fjórum mánuðum seinna – ætlar Þórey í mál við Jón Bjarka og Jóhann Pál.

Ég á mjög bágt með að trúa því að þeir verði dæmdir fyrir eitt eða neitt. Þeir gerðu mistök sem þeir áttuðu sig á, leiðréttu og báðust afsökunar á.

Fyrir hvað ætti að dæma þá?

Vandræði Þóreyjar í lekamálinu eru ekki þeim Jóni Bjarka og Jóhanni Páli að kenna.

Þau eru sök Hönnu Birnu Kristjánsdóttur yfirmanns hennar.

Það stóð upp á Hönnu Birnu að útkljá málið. Það hefur hún ekki gert enn.

Engir peningar sem Þórey kann að særa út úr Jóni Bjarka og Jóhanni Páli (ef svo ólíklega fer) geta breytt því hvernig þetta mál er vaxið og hverjir fara út úr því með sóma.

Hér hæfir að vitna til orða Jóns Trausta Reynissonar fyrrum framkvæmdastjóra og þar áður ritstjóra DV sem skrifar á Facebook:

Ég held að meiðyrðalöggjöfin hafi ekki verið sett til þess að gerendur í stjórnmálum gætu eyðilagt fjárhag ungra blaðamanna vegna mistaka sem voru leiðrétt strax með tilkynningu og afsökunarbeiðni á fjölmiðla landsins. Það er alveg ljóst að það var enginn ásetningur að baki. Allir geta gert mistök í starfi, en það búa ekki allir við að þau setji persónulegan fjárhag þeirra í uppnám. Þetta er hrein hefndaraðgerð enda er ekkert að sanna.“

Kannski Hanna Birna í sinni neyðarlegu vörn klappi Þóreyju á kollinn fyrir þessa málshöfðun.

Annan sóma mun hún ekki hafa af málinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!