Mánudagur 13.10.2014 - 01:40 - FB ummæli ()

Af hverju varð stjórn Geirs Haarde að fara frá

Viðtalið við Geir Haarde sem sýnt var á Stöð 2 í dag er athyglisvert fyrir margra hluta sakir.

Að sjálfsögðu hlýtur Geir að horfa á hlutina frá sínum eigin sjónarhóli, það er ekki hægt að fara fram á annað.

Ég verð samt að segja að ég hristi bara hausinn þegar hann lýsti búsáhaldabyltingunni og þeim dögum þegar ríkisstjórn hans var að hrökklast frá.

Hann gaf þar ýmislegt í skyn um samsæri vondra samfylkingarmanna sem hefðu svikið sig og/eða Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta er að verða plagsiður sjálfstæðismanna – að fullyrða að stjórnin hafi fallið út af einhverju pólitísku plotti.

Oftast er þó reyndar VG kennt um, sá flokkur hafi á einhvern hátt stýrt búsáhaldabyltingunni.

Það er eins og sjálfstæðismenn geti ekki og vilji ekki horfast í augu við það sem gerðist.

Sem var einfaldlega það að fólki fannst svívirða og móðgun við sig – þolendur hrunsins – að ríkisstjórnin sem hafði látið reka á reiðanum í 17 mánuði skyldi ætla að sitja áfram eins og ekkert hefði í skorist.

VG kom þessari búsáhaldabyltingu ekkert við.

Og þaðan af síður Samfylkingin.

Samfylkingin sá um síðir sæng sína upp reidda, og sleit stjórnarsamstarfinu – en það gerði hún bara af því forysta hennar hafði seint og um síðir áttað sig á því að fólk lét ekki bjóða sér að hrunstjórnin sæti sem fastast og ræddi sölu brennivíns í matvörubúðum þegar fjöldauppsagnir dundu yfir um hver einustu mánaðamót.

Reynið að horfast í augu við þetta, sjálfstæðismenn.

Stjórnin hans Geirs varð að fara frá af því hún hafði klúðrað öllu.

Af því fólkinu blöskraði.

Ekki út af pólitísku plotti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!