Mánudagur 27.10.2014 - 11:37 - FB ummæli ()

„Þið getið kannski vælt út nýjan Landspítala …“

Ég er nú ekki vanur að birta á þessum vettvangi langar tilvitnanir úr greinum eða pistlum eftir aðra. En ætla að gera undantekningu í þetta sinn.

Lýður Árnason læknir og fyrrum stjórnlagaráðsmaður skrifar grein í Fréttablaðið í morgun um „grátkór Landspítala“ eins og hann segir í fyrirsögn greinarinnr.

Og vísar þar til Kastljóssviðtalsins þar sem sex heilbrigðisstarfsmenn töluðu tæpitungulaust um fjárhagsvanda spítalans, og í hvílíkt óefni stefndi.

Lýður læknir Árnason

Lýður læknir Árnason

Og Lýður bendir á að heilbrigðisráðherra hefði mætt í Kastljós kvöldið eftir og tekið undir allt sem sexmenningarnir sögðu, en því miður – það vantaði bara fjármagn.

Síðan segir Lýður í grein sinni:

„Á Íslandi búa 330 þúsund manns. Eitt breiðstræti í Berlín. Á Íslandi eru valdamiklar ættir, valdamiklir hagsmunahópar og valdamiklir viðhlæjendur. En á Íslandi eru líka auðlindir sem miðað við íbúafjölda ættu auðveldlega að tryggja almenna velsæld, þ.m.t. almennilega útbúinn spítala. Gætum að því að hægt væri að byggja nýjan spítala á tveimur árum fyrir leigugjöld af kvóta sem útgerðin innheimtir í dag.

En hvers vegna gera stjórnmálamenn ekkert í málinu?

Í mínum huga er svarið augljóst: Valdamiklar ættir og hagsmunahópar geta í krafti tengsla og fjármagns ráðið ansi miklu um val fulltrúa á þingi og sveitastjórnum. Þetta samspil tryggir áframhaldandi aðgengi að auðlindum, aðgengi að fjármagni, aðgengi að fjölmiðlum, aðgengi að fræðimönnum, aðgengi að sérfræðingum og aðgengi að lögfræðingum. Ný stjórnarskrá var atlaga að þessari samfélagsómynd og skýrir hvers vegna stjórnvöldum var svo í mun að hún næði ekki fram að ganga.

Við sexmenningana frá Landspítalanum vil ég segja þetta: Þjóðarbúið er stórskuldugt, líkast skuldar hver fæddur Íslendingur meira en tvær milljónir. Við kúrum í skjóli gjaldeyrishafta. RÚV á ekki fyrir skuldum. Læknar eru í verkfalli, tónlistarkennarar eru í verkfalli og verkalýðshreyfingin farin að grafa upp stríðsaxirnar. Matarskattur var hækkaður á dögunum og máltíð dagsins verðlögð á 248 krónur meðan dagpeningarnir ykkar eru 11 þúsund krónur. Þið getið kannski vælt út nýjan Landspítala en það verður þá upp á krít sem þýðir á venjulegu máli að velta vandanum á undan sér.

Annar kostur og varanlegri er sá að kjósa í burtu þá ráðamenn sem halda auðlindum þjóðarinnar frá almennri velsæld. Til þess höfum við stofugang á fjögurra ára fresti. Hafið það hugfast.“

Hér er grein Lýðs.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!