Miðvikudagur 12.11.2014 - 07:23 - FB ummæli ()

Það komst bara upp um hann

Sko. Það er lítil gaman að hamra á manni sem augljóslega stendur höllum fæti, það er að segja Gísla Frey Valdórssyni.

Ég verð samt að segja eftirfarandi.

Eins og öðrum fannst mér nokkuð til um hina skyndilegu játningu hans frá því í gær.

Og eins og aðrir hlaut ég að trúa því sem fram kom í hjartnæmu viðtali hans við Helga Seljan í Kastljósi, að hann hefði stigið fram eingöngu af því hann „gæti ekki lengur lifað í lygavef“.

Samviska hans kviknaði – seint og um síðir!

Nú upplýsir Fréttablaðið í morgun að þetta sé bara vitleysa.

Gísli Freyr sé að játa sekt sín af því ný gögn sýni afdráttarlaust fram á rangar staðhæfingar hans í málinu.

Hann er sem sagt að játa, ekki af því hann fékk skyndilegt samviskubit, heldur bara af því það komst upp um hann.

Það er mannlegt, ó svo mannlegt.

En þessi áhrifamikla stund þegar hann játaði sekt sína á svo átakanlegan hátt í sjónvarpinu, og gjörði iðrun – hún var því bersýnilega leiksýning ein.

Heldur finnst mér þar lágt lagst, ég segi nú ekki meir.

Og sýningin ósmekkleg.

En þeim mun ólíklegra er að Hanna Birna hafi ekkert af hátterni hans vitað, ef til eru gögn sem sýna fram á sekt hans.

Hanna Birna hlýtur sem yfirboðari hans og væntanlega vinur til margra ára, og tala nú ekki um sem dómsmálaráðherra, að hafa vitað af þeim gögnum – og að þau gætu komið fram hvenær sem er.

Allt er þetta greinilega rústabjörgun, vandlega hönnuð (!) til þess að reyna að koma í veg fyrir að Hanna Birna verði að segja af sér.

En það mun ekki duga.

Auðvitað verður hún að segja af sér – annað væri bara kaldrifjað grín.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!