Fimmtudagur 04.12.2014 - 07:35 - FB ummæli ()

Veltiár, ekki góðæri

Það fer sífellt meira í taugarnar á mér að sjá talað um „góðærið“ í merkingunni árin fyrir hrun.

Þetta er svo sem skiljanlegt orð – við höfðum það öll svo voðalega gott, var það ekki?

(Reyndar ekki. Stórar hópar, og einkum þeir verst settu í samfélaginu höfðu það ekkert betra þessi ár en venjulega.)

Ég hef sjálfur notað þetta orð þegar ég meina þennan tíma.

En ég er að hugsa um að leggja alveg af þann sið.

Orðið „góðæri“ felur í sér að árferði hafi verið gott í einhverjum skilningi.

En „góðærið“ 2002-2007 stafaði ekki af góðu árferði, heldur eingöngu af því að hér fylltist allt af lánsfé frá útlöndum.

Sem ekki reyndist svo unnt að standa skil á, og þá hrundi allt.

Ég legg því til að við hættum að tala um góðæri. Hins vegar er gráupplagt að nota orð sem Halldór Laxness gerði vinsælt í Sjálfstæðu fólki.

Veltiár.

Það virðist að vísu upphaflega hafa verið notað í svipaðri merkingu og góðæri.

Elsta dæmið sem Tímarit.is þekkir er úr Skírni 1830, þar sem segir:

„Á Suðurlandi var hvarvetna mesti fiskiafli, og góður grasvöxtur og góð nýting, og mátti þar heita veltiár …“

En með tímanum er farið að nota orðið um tíma þegar veltan er mikil, en kannski ekki mikil innistæða fyrir allri veltunni.

Rétt eins og Halldór gerir í Sjálfstæðu fólki.

Og einmitt þannig var tíminn fyrir hrun.

Þetta voru veltiár, ekki góðæri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!