Föstudagur 06.02.2015 - 22:24 - FB ummæli ()

Var Gunnar Gunnarsson nasisti?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, sem margt og merkilegt hefur skrifað um tengsl Íslendinga við nasisma og Gyðingaofsóknir, birtir þessa mynd á Facebook-síðu sinni.

Screen shot 2015-02-06 at 10.09.16 PM

Þarna er Gunnar Gunnarsson rithöfundur að flytja ræðu á þingi sem augljóslega er skipulagt af þýskum nasistum. Ræðan var flutt í Köningsberg laust fyrir síðari heimsstyrjöldina, segir Vilhjálmur Örn. Köningsberg var þá hluti Prússlands en er nú hluti Rússlands og kölluð Kaliningrad.

Í framhaldi af myndbirtingunni  hafa spunnist líflegar umræður um hvort Gunnar hafi verið nasisti eða ekki.

Vilhjálmur Örn sjálfur talar um „daður“ Gunnars við nasismann og Hitler, og það má vissulega til sanns vegar færa.

Gunnar var töluvert vinsæll höfundur í Þýskalandi bæði fyrir og eftir valdatöku nasista 1933.

Og sumar hugmyndir hans um hinn norræna mann voru augljóslega býsna skyldar hugmyndaheimi nasismans. En nasisminn spratt ekki úr engu, og allvíða í Evrópu voru á kreiki hugmyndir sem Hitler og kónar hans nýttu sér.

Hugmyndir sem okkur þykja nú hallærslegar og fráleitar, en gera menn þó ekki endilega að nasistum.

Aðrir vilja ganga lengra en Vilhjálmur Örn og tal hans um „daður“.

Gunnar hafi einfaldlega verið nasisti, púnktur. Og minna á að hann arkaði eitt sinn á fund Hitlers að ræða við hann ýmis mál.

Jón Yngvi Jóhannsson, sem skrifaði nýlega ævisögu Gunnars, komst að þeirri niðurstöðu að Gunnar hafi ekki verið nasisti, þótt hann fjallaði býsna ítarlega um fyrrnefnt „daður“ höfundarins við nasista og foringja þeirra.

Ég er nú ekki mjög mikill sérfræðingur í Gunnari Gunnarssyni, en ég hallast að því að það sé rétt hjá Jóni Yngva.

Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld var alls ekki ófínt í hinum þýskumælandi heimi að aðhyllast nasisma.

Og rithöfundur sem vildi efla vinsældir sínar meðal yfirvalda í Þýskalandi hlýtur að hafa fundið fyrir heilmikilli hvatningu til að gefa allskonar beinar og skorinorðar stuðningsyfirlýsingar við nasismann.

Ef Gunnar hefði verið orðinn nasisti af sannfæringu (eða í eiginhagsmunaskyni), þá hefði hann sem sé alls ekki átt að vera feiminn við að opinbera það, svo ekkert færi milli mála.

En afdráttarlausar yfirlýsingar Gunnars um stuðning við Hitler og nasisma (og þá meina ég einkum hina andstyggilegustu hluta stefnu þeirra) eru ekki auðfinnanlegar, þótt á stundum hafi hann vissulega verið kominn út á býsna hálan ís.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!