Föstudagur 13.03.2015 - 16:55 - FB ummæli ()

Ríkisstjórnin öll er ábyrg

Bréf það sem Gunnar Bragi Sveinsson sendi Evrópusambandinu felur ekki aðeins í sér ótrúlegt gerræði gagnvart Alþingi – hvort sem bréfið reynist á endanum hafa eitthvert raunverulegt gildi eða ekki.

Það er líka alveg ótrúlega heimskulegt, eins og ýmsir hafa orðið til að vekja athygli á.

Þetta bréf var raunar svo mikið rugl að ég hélt lengi vel að þetta hlyti að hafa verið samið á einhverjum kaupfélagskontór, eða kannski einhvers staðar lengst úti í móa, og svo hefðu Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi verið látnir taka málið að sér, og Bjarni Benediktsson einhvern veginn fengist – í nafni samstöðu ríkisstjórnarflokkanna – til að skrifa upp á þetta.

En það virðist vera alrangt hjá mér.

Í fyrsta lagi var Bjarni Benediktsson meiren viljugur að taka þátt í vitleysunni.

Og í öðru lagi var það ríkisstjórnin öll sem tók ákvörðun á þriðjudaginn var um að þetta væri eðlilegur framgangsmáti!

Þessi svívirða!? Eðilegur framgangsmáti?

Þar með vissu allir ráðherrarnir af þessu ásamt þeirra helstu trúnaðarmönnum – og enginn virðist hafa séð neitt athugavert við að svona væri farið að málum.

Ekki Ólöf Nordal innanríkisráðherra.

Ekki Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Ekki Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.

Ekki Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Náttúrlega ekki Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra.

Og svo framvegis.

Þeim fannst þetta öllum frábært.

Þessi vinnubrögð væru alveg eðlileg gagnvart Alþingi.

Að minnsta kosti hreyfði ekkert þeirra andmælum þegar snillingarnir Sigmundur Davíð, Gunnar Bragi og Bjarni Benediktsson kynntu þetta.

Ekki Ólöf, ekki Illugi, ekkert þeirra hreyfði andmælum.

Það hefði merkilegt að sjá þau kinka kolli yfir þessu við ríkisstjórnarborðið – framgangsmáta sem hvert barn sér að felur í sér gerræði gagnvart bæði þjóðinni og Alþingi.

Og ekkert þeirra sá neitt að þessu.

Jahérna.

Þau eru öll ábyrg fyrir þessari aðför að þingræðinu, hvert eitt og einasta þeirra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!