Laugardagur 18.04.2015 - 09:50 - FB ummæli ()

Daufasti flokkur í heimi?

 

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar er ofboðslega vond ríkisstjórn.

Ekki er nóg með að hún sé illa mönnuð, svo flestallir ráðherrarnir mega kallast góðir ef þeir sleppa gegnum heila viku án þess að lenda í meiriháttar klúðri.

Og að stjórnsýsla hennar er að mestu leyti rugl, og yfirgangur og frekja og barnalegur hroki vaða uppi.

Heldur er stefna stjórnarinnar skelfileg líka.

Markvisst og ákveðið er hlaðið undir ójöfnuð, sérhagsmuni og klíkuræði og baktjaldamakk auðkýfinga og sægreifa.

Og sú stjórnarstefna er ekki bara ósanngjörn og óréttlát.

Hún er líka heimskuleg og mun enda með ósköpum – við höfum dæmin fyrir okkur.

Hrunið altso.

Og nú stefnir í mestu átök á vinnumarkaði í manna minnum.

Maður skyldi því ætla að í stjórnmálaflokki sem kallar sig á hátíðarstundum „jafnaðarmannaflokk Íslands“ væri allt á blússandi fart.

Já, alveg á suðupunkti.

Baráttugleði ríkjandi og heilög reiði yfir þeirri forsmán sem ríkisstjórn ríka fólksins er að leiða yfir landið.

Maður skyldi ætla að þaðan streymdu hugmyndir og reiður almenningur flykktist til liðs við eldhugana sem ætluðu ekki að láta auðkýfingssynina eyðileggja þjóðfélagið – aftur.

Maður skyldi ætla að haldið væri á lofti nýrri stjórnarskrá sem allir vita að bæta myndi ótrúlega mikið úr skák, maður skyldi ætla að liðsmenn flokksins væru óþreytandi að gagnrýna ósvinnuna, benda á leiðir, móta nýjar hugmyndir.

Maður skyldi sem sagt ætla að Samfylkingin veifaði nú sem ákafast gunnfánum réttlætis og jöfnuðar, opnara samfélags og heiðarlegri hátta. Og forystumenn hennar hvarvetna að tala við fólk, hvetja fólk, hlusta á fólk, læra af fólki.

Er það ekki einmitt svo?

Nú.

Ekki það?

Aha.

Allir sofandi?

Ja, um daginn rumskaði Samfylkingin vissulega andartak.

Þá snerist málið um hver fengi að vera formaður í flokknum.

Sem endaði með að Samfylkingin kaus bara sama formann og áður.

Svo lagðist hún á hina hliðina og fór aftur að dotta.

Við þessar „kjöraðstæður“ fyrir frjálslyndan dugmikinn jafnaðarmannaflokk, þá á Samfylkingin í mestu vandræðum með að halda sér vakandi.

Fyrir hverju er hún nú að berjast? Hver er stefna hennar í málum? Einhverjar hugmyndir á kreiki?

Nú.

Ekki það?

Onei.

Allir sofandi!

Og svo er flokkurinn voðalega hissa á því að fylgi skili sér ekki í skoðanakönnunum!

Menn segja að þetta sé langhlaup. Það taki tíma að vinna aftur traustið sem Samfylkingin tapaði í síðustu kosningum.

Og að vandi flokksins sé ekki forystukreppa, heldur hugmyndakreppa.

Bull og vitleysa.

Samfylkingin hefur að sinni hugmyndafræði bestu pólitík í heimi – frjálslynda jafnaðarstefnu. Hún á að vera löngu búin að hefja fána þeirrar stefnu aftur á loft með glæsibrag.

Og forystumennirnir ættu að hafa dug og sannfæringu og eldmóð í brjósti til að berjast fyrir málstaðnum, fyrir íslenska alþýðu, fyrir venjulegt fólk sem puðar við að láta enda ná saman og lifa sómasamlegu lífi.

Og gegn þeim ósóma sem ríkisstjórn Sigmundar og Bjarna er.

En af Samfylkingunni er ekkert að frétta.

Mér finnst tröll vera í þann veginn að stela því samfélagi sem ég vil taka þátt í að byggja upp og á að vera heiðarlegt og réttlátt samfélag. Tröllin eru Sigmundur og Bjarni.

En mér finnst líka að svefngenglar séu búnir að kasta eign sinni á þá hugmyndafræði sem ég vil berjast fyrir.

Það er vont og það venst ekki.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!