Mánudagur 27.04.2015 - 17:49 - FB ummæli ()

Vorið kom – og nú er það farið

Já, vorið kom, einn dag hér á höfuðborgarsvæðinu, það var reyndar á sumardaginn fyrsta, en nú er eins og það sé farið.

Á sumardaginn fyrsta, þennan eina vordag ársins 2015 (?), var ég að synda í Vesturbæjarlauginni og hlýddi þá á söngflokk flytja vor- og sumarlög á laugarbakkanum.

Og ég leiddi að því hugann að þau voru öll 70-150 ára gömul.

Og það fannst mér svolítið skrýtið.

Reynsla undanfarinn mánuða – þennan leiðinlega vetur – hefur fært okkur heim sanninn um að Íslendingar nútímans þrá vorið af engu minni ofsa en fyrri kynslóðir.

Samt veit ég ekki til þess að skáld hafi ort vorljóð í marga áratugi.

Hvernig skyldi standa á því – ef allir þrá vorið svona mikið?

Eiga ekki skáldin að yrkja um það sem skiptir hverja manneskju máli? Því yrkja þau þá ekki um vorið?

En ég mundi ekki eftir neinu yngra vorljóði en þessu hér eftir Sigfús Daðason úr bók frá 1977 – vorljóði sem virðist reyndar (á yfirborðinu!), eftir þennan eina vordag um daginn, svo sorglega viðeigandi:

 

Vorið blés óhroða í augu mér.

Blés eyðimerkurryki,

öskufjúki

og ranghverfum tætlum tímans.

Vorið blés óhroða, vorið blés óhroða í augu mér.

 

Þjakandi náttleysa

hvíslaði ódáðum síðasta dægurs

í eyru mér,

hreykti upp bleikfextum morgunstundunum

sem hvolfast

eins og unnvörp yfir varbúinn borgarlýð.

 

Flugufregnir um sjálfbeizlaða frelsingja,

um tál

og varúð

og hlekkjaglamur,

um ást

og frið

þutu hrollkaldar um endilöng strætin

í för með vorvindunum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!