Fimmtudagur 07.05.2015 - 17:56 - FB ummæli ()

Af hverju látum við líðast að Sigmundur og Bjarni gefi auðlindina okkar?

Áðan fór ég út í sjoppu. Þar keypti ég meðal annars lottómiða eins og ég geri fáeinum sinnum á ári og af rælni keypti ég nú miða í evrópska lottóinu.

„Fæ ég þá ekki tvo þrjá milljarða í vinning?“ spurði ég afgreiðslupiltinn, og hann játti því.

„Að minnsta kosti það, held ég,“ bætti hann við.

„Það má alveg nota það,“ sagði ég.

„Ojá, ætli maður hefði ekki einhver ráð?“ sagði pilturinn.

Svo hlógum við báðir, af því við vissum í fyrsta lagi að ég myndi auðvitað ekki vinna í lottóinu, en í öðru lagi að þó við legðum báðir saman myndum við á allri ævinni kallast góðir ef við næðum að öngla saman í svona örfá prósent af slíkri vinningsupphæð.

En einmitt slíka upphæð, nokkra milljarða, eru helstu sægreifarnir nú að fá gefins frá Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni, hver um sig (já, hver um sig!), og það eru bara vasapeningarnir þeirra fram á haustið.

Það versta er að Sigmundur Davíð og Bjarni eiga ekki þessa peninga og ættu því ekki að mega gefa þá vinum sínum (eða öllu heldur húsbændum), heldur eru þetta peningarnir okkar, auðlindin okkar.

En af hverju skyldum við láta Sigmund og Bjarna komast upp með að gefa milljarðana okkar sægreifunum, en lúpumst sjálf út í sjoppu að kaupa lottómiða í von um vinning sem við fáum aldrei?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!