Þriðjudagur 09.06.2015 - 08:24 - FB ummæli ()

Var þetta bara blekking?

Það er víst öruggast að taka fram strax að mér finnst berin ekkert vera súr.

Þau drög að samningi við kröfuhafa sem kynnt voru í gær virðast bara vera ljómandi ásættanleg – þótt ég viðurkenni þá jafnóðum að þekking mín á svona samningum er í rauninni fjarska yfirborðskennd, og ég áskilji mér því rétt til að skipta um skoðun á því hvenær sem er!

En eftir því sem frá líður, þá finnst mér samt eitthvað æ óþægilegra við umbúnaðinn.

Hvað gerðist?

DV birtir frétt sem greinilega er komin úr innsta hring annars ríkisstjórnarflokksins og greinir frá því hvaða skilyrði á að setja kröfuhöfum svo hægt verði að byrja að losa um höftin.

Þau skilyrði virðast, eins og þau eru sett fram, nokkuð töff.

Síðan er rokið til á sunnudagskvöldi og boðaður neyðarfundur á Alþingi til þess – eins og það er kynnt – loka smugum fyrir hina vondu erlendu kröfuhafa, svo þeir komist ekki úr landi með peninga þegar loks verður byrjað að berja á þeim.

Og svo er enn blásið til blaðamannafundar í Hörpu með glærusýningum og Sigmundi Davíð og Bjarna hvor í sinni pontu, og þeir kynna áætlun sína um hvernig kröfuhafarnir verða tuskaðir til.

Gott og vel – nema hvað svo kemur í ljós eftir alla þessa hanakambsreisingu að það er búið að semja við erlendu kröfuhafana!

Já?!

Að minnsta kosti virðast samningar nánast alveg frágengnir við alla stærstu og áhrifamestu kröfuhafana.

Þannig að þó mér sé það þvert um geð, þá hvarflar að mér sú hugsun að þetta hafi allt verið blekking.

Spinn – eins og það heitir nú á dögum.

Lekinn í DV og kvöldfundurinn á Alþingi og ábúðarmikill fundurinn í Hörpu um hinar ströngu kröfur stjórnvalda – getur verið að þetta hafi allt verið blekking til að koma í veg fyrir þá fyrirsögn sem í rauninni hefði átt að nota um atburðarásina:

„Samið við erlenda kröfuhafa.“

Hm? Getur þetta  verið rétt?

Og getur það líka verið rétt að þetta séu samningar sem hefði átt að vera búið að ná fyrir tveimur árum að minnsta kosti?

Og það sé ekki aðeins hægt að áfellast stjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna fyrir að hafa ekki verið löngu búin að ljúka þessum samningum – en töfin mun hafa kostað okkur tugi milljarða að minnsta kosti – heldur sé jafnvel líka hægt að áfellast stjórn Jóhönnu og Steingríms fyrir að hafa ekki klárað þetta?

Og bætist því á syndaregistur þeirra?

Þetta er altso spurningin.

Var atburðarásin yfir helgina eintómt spinn til að menn gætu stært sig af frægum sigri, þótt í rauninni hafi þetta bara verið ósköp eðlilegir og í rauninni löngu tímabærir samningar?

Og á það sem sagt að verða hin endanlega graftskrift þessarar ríkisstjórnar að í stað þess að koma hreint fram, þá sé sífellt verið að spinna og blekkja?

Og ekki bara blaðalesendur og almenningur, heldur líka Alþingi gert að statistum í því leikriti?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!