Þriðjudagur 16.06.2015 - 09:28 - FB ummæli ()

Má mótmæla á 17. júní?

Það er eitthvað skrýtið í gangi í samfélaginu.

Annars vegar er einhvers konar grasrótarhreyfing fólks að byrja að rísa og krefjast raunverulegs lýðræðis og skárri stjórnarhátta.

Við sjáum þetta í auknum mótmælum, fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er lengur – og við sjáum þetta í fylgi pírata í skoðanakönnunum.

En hins vegar eru þau öfl sem vilja kveða þetta í kútinn önnum kafin við að reyna að halda í hið gamla samfélag og telja okkur trú um að það sé einhver goðgá að brjóta það niður.

Þetta má nú síðast sjá á viðbrögðum við fyrirhuguðum mótmælum á morgun, 17. júní.

Vísir.is hefur skrifað um viðbrögðin frétt, sjá hér.

Alveg burtséð frá því að Jóhanna Guðfinna virðist vera allra síst til þess fallin að kenna fólki mannasiði, þá eru viðbrögðin eftirtektarverð.

Það er í fyrsta lagi gefið til kynna að það sé einhver óvirðing við lýðræðið að mótmæla. En því fer auðvitað fjarri – það er einmitt sérstaklega verið að hafa lýðræðið í heiðri þegar fólk nýtir rétt sinn til lýsa skoðunum sínum og mótmæla, og það á hvaða degi sem er.

Og ritstjóri DV (!) vill ekki að mótmælendur spilli „gleðinni sem fólk finnur fyrir á þessum degi“.

Það er nú það.

Ég hef búið í miðbæ Reykjavíkur í aldarfjórðung og fylgst með þeirri gleði.

Hún felst núorðið í að rápa milli sölubása og kaupa gasblöðrur í líki amerískra og japanskra teiknimyndapersóna, borða illa soðnar pylsur í hörðu pylsubrauði með vondri og ódýrri tómatsósu, og leyfa börnum að fara í hoppukastala.

Og svo tónleikar með nýjasta poppinu á Arnarhóli.

Þetta er nú 17. júní í miðbæ Reykjavíkur í hnotskurn.

Dagurinn hefur verið að þróast yfir í algjört vandræðabarn í hátíðarmenningu Íslands, og mönnum hefur satt að segja gengið bölvanlega að finna þessum degi einhverja merkingu og tilgang.

Stjórnmálamenn hafa notað hann til að flytja ræður sem enginn hlustar á og nýbúið er að sýna fram á að eru mestmegnis blekkingarbull, þar sem beinlínis falskri söguskoðun er haldið að þjóðinni – sjá hér.

Ég hef margoft stungið upp á því að dagurinn verði gerður að eins konar hátíðisdegi íslenskrar sögu, en það hefur aldrei nokkur maður einu sinni nennt að hugsa þá hugsun til enda.

Það er því miður svo fjarri því að 17. júní sé á einhvern hátt helgur dagur í augum Íslendinga nútímans.

Fyrir utan þá ótrúlegu kaldhæðni að fólki skuli finnast ótilhlýðilegt að mótmæla á afmælisdegi mannsins sem er frægastur fyrir orðin: „Við mótmælum allir!“

Mér finnst því bara fínt ef mótmælendur nota þennan dag til að koma sínum lýðræðislegu skoðunum á framfæri.

Það sýnir að þeir virða hann þó einhvers.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!