Fimmtudagur 15.8.2013 - 13:29 - FB ummæli ()

Þegar stjórnmálamenn komast upp með að misbjóða kjósendum …

Vigdís Hauksdóttir reynir að klóra sig frá hótun sinni í garð Ríkisútvarpsins með því að orð hennar hafi verið „rangtúlkuð“.

En það er bara rangt hjá henni. Já, það er hreint út sagt tóm tjara.

Hún var á Bylgjunni að kvarta undan því að rangt hefði verið haft eftir henni í viðtali á RÚV.

RÚV hafði umsvifalaust birt leiðréttingu, en það dugði Vigdísi Hauksdóttur ekki. Hún kvartaði og kveinaði á Bylgjunni, þessi mikla manneskja.

Heimir Karlsson umsjónarmaður þáttarins á Bylgjunni spurði þá alveg skýrt: „Ætlarðu að fara með ÞETTA MÁL eitthvað lengra?“

Hann spurði meira að segja tvisvar svo ekkert færi á milli mála.

Og Vigdís svaraði, líka alveg skýrt:

„Ja, ég er náttúrulega í þessum hagræðingarhóp …“

Og fór svo að tala um fjárveitingar til Ríkisútvarpsins, sem væru alltof háar.

„Mér finnst óeðlilega mikið fjármagn fara í rekstur RÚV, sérstaklega þegar þeir standa sig ekki betur en þetta í fréttaflutningi.“

Þetta var hótun og ekkert annað en hótun, og það er Vigdísi Hauksdóttur til enn frekari minnkunar í þessu máli að hún skuli nú ekki þora að kannast við það.

Ég hélt hún hefði bein í nefinu.

En lengi má manninn reyna.

Þessi orðhákur þorir þá ekki að standa við orð sín.

Og getur ekki beðist afsökunar á þeim heldur.

Og ég verð líka að segja að ég varð fyrir djúpum vonbrigðum með nafna minn Gunnarsson, þegar hann sagði í viðtali í gær að hann tæki mark á staðhæfingum Vigdísar um að orð hennar hefðu verið rangtúlkuð.

Stjórnmálamaður sem eitthvað er spunnið í á ekki að taka undir svona prat manneskju sem augljóslega er ætlað að þyrla upp moldviðri meðan hún kemst undan á flótta.

Það henti því miður Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra í gær.

Í þessu máli er rétt að vitna til orða Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings:

“Þegar stjórnmálamenn komast upp með það að misbjóða kjósendum með orðum sínum eða athöfnum án þess að taka afleiðingunum, t.d. með því annað hvort að biðjast afsökunar eða að segja af sér, verða langtímaáhrifin fyrir stjórnmálamenningu og siðferði stjórnmálanna mjög alvarleg. Stjórnmálamönnum lærist að þeir geta sagt og gert hluti án þess að taka pólitíska ábyrgð á þessari hegðun sinni. Þannig búa þeir smám saman til ný viðmið í hugum kjósenda og treysta á aukið siðferðilegt þanþol þeirra. Pólitískt siðleysi eykst og grefur undan lýðræðislegri ábyrgð.”

Um það snýst mál Vigdísar Hauksdóttur.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.8.2013 - 12:54 - FB ummæli ()

Af hverju má lýðræði ekki gilda í atvinnulífinu?

„Lýðræðisleg fyrirtæki.“

Er þetta það sem heitir á ensku „a contradiction in terms“?

Það er að segja algjör mótsögn?

Það skyldi maður eiginlega ætla – það er jú búið að telja okkur trú um að fyrirtæki eigi sér aðeins einn tilgang: Að greiða hluthöfum sínum arð.

Og til að svo megi verða sé affarasælast að þau séu rekin sem næst skipulagi alræðisríkisins.

Einn á toppnum, kringum hann fámenn elíta millistjórnenda, en meirihluti starfsmanna hafi ekkert að segja.

En það eru til aðrar leiðir.

Í þeim ágæta útvarpsþætti Harmageddon var í morgun viðtal við Kristin Má Ársælsson félagsfræðing sem hefur kynnt sér „lýðræðisleg fyrirtæki“.

Og skemmst er frá því að segja að reynslan af þeim virðist furðu góð – þótt málsvörum fyrirtækjakapítalismans hugnist ekki að halda því á lofti.

Þetta er mjög merkilegt viðtal – ég hvet fólk til að hlusta á það – linkurinn á það er hérna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.8.2013 - 09:00 - FB ummæli ()

Er það sæmandi?

Ég hef reynt – já, ég hef reynt! – fyrst að hafa húmor fyrir Vigdísi Hauksdóttur og síðan að leiða hana hjá mér.

En það er ekki hægt endalaust.

Konan hefur verið leidd til öndvegis í íslensku samfélagi af flokki sínum og kjósendum, hún er formaður fjárlaganefndar Alþingis og hún er í þingmannahópi þeim sem á að leggja fram tillögur um harkalegar sparnaðarráðstafanir í ríkiskerfinu.

Þetta eru mjög viðkvæm og erfið störf sem brýnt er að stillt fólk og yfirvegað gegni.

Það var því í sjálfu sér undarlegt af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni að velja Vigdísi til þessara verka.

Og nú hefur hún gengið of langt.

Hún segir fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa haft rangt eftir sér, krefst leiðréttingar og fréttastofan breytir orðalagi í frétt sinni.

Allt í lagi með það.

En þá byrjar Vigdís að hóta.

„Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi.“

Skilningurinn er sem sagt sá að ef hún hefur persónulega eitthvað upp á Ríkisútvarpið eða einhverjar aðrar ríkisstofnanir að klaga, þá skuli þær vara sig!

Þær verði skornar niður við trog!

„Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi.“

Sjá frétt Eyjunnar um þetta hér.

Er það sæmandi að manneskja með þetta hugarfar og þetta viðhorf gegni jafn ábyrgðarmiklum störfum og Vigdís Hauksdóttir gerir?

Ha, Sigmundur Davíð?

Vill einhver kannski spyrja hann að þessu fyrir mig?

Fyrir nú utan dónaskapinn sem forstjórum ríkisstofnana er sýndur með orðum hennar seinast í fréttinni.

Margir þeirra – já, ég fullyrði flestir þeirra – hafa áreiðanlega gert íslensku samfélagi meira gagn en Vigdís Hauksdóttir.

Og síðasta setning í frétt Eyjunnar er ótrúleg, komandi frá þingmanni ríkisstjórnarinnar sem mestöll hefur verið á þessum ljómandi skemmtilegu ferðalögum í sumar:

„Um leið og peningar eru í boði og gulrótin hangir fyrir framan nefið á einhverjum, þá verður allt vitlaust.“

Jahérna.

 

 

Í fyrstu gerð pistilsins misritaði ég „sérfræðingahópi“ í stað „hagræðingarhópi“. Það leiðréttist hér með, en breytir vitanlegu engu um eðli hótunar Vigdísar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.8.2013 - 08:49 - FB ummæli ()

Á svona stund

Ég hjólaði til vinnu í morgun og við aðstæður eins og þessar, þegar maður horfir upp í albláan himin, út á lognkyrran sjóinn sem næstum virðist hægt að ganga á og á þögnina sem ævinlega fylgir hinni mestu heiðríkju (já, svona verður þögnin sjáanleg og eins þótt það séu bílahljóð), þá ferðast ég alltaf í huganum norður í Stóru-Ávík þar sem ég var strákur í sveit og kom út á bæjarhlaðið á morgnanna og þetta mætti mér og eins gott að njóta stundarinnar sem lengst, því í svona veðri fór Jón bóndi einlægt að hugsa um að fara á sjó og þá þurfti ég að drífa mig að pumpa hripleka skektuna, nema hvað svona stund í Reykjavík getur aldrei orðið alveg jafn tignarleg og í sveitinni því hér vantar kýrnar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.8.2013 - 15:25 - FB ummæli ()

Gleðigangan og Bradley Manning

Ég rölti áðan Gleðigönguna frá BSÍ niður á Arnarhól í hópi allmargra blaðamanna og annarra áhugamanna um tjáningarfrelsi sem lýstu þeirri kröfu að Bradley Manning skyldi látinn laus.

Því miður eru litlar líkur á að svo verði gert, en það sakar ekki að lýsa yfir skoðun sinni.

Ástæðan fyrir göngu þessa hóps í Gleðigöngunni er helst sú að kynhneigð Bradley Mannings hefur verið notuð gegn honum af áróðursmaskínu bandarískra stjórnvalda.

Hins vegar var óneitanlega nokkuð sérkennilegt að hópurinn gekk svona 20 metrum á eftir hópi frá bandaríska sendiráðinu.

Sá hópur bar stórt spjald þar sem var tilvitnun í John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Þar stóð: „Hlutirnir eru að breytast vegna þess að fólk hefur haft kjark til að rísa upp.“

Ég hugsa að það sé einmitt ágæt lýsing á því sem Bradley Manning gerði.

 

Hópur bandaríska sendiráðsins. Ég hnuplaði myndinni af vef Ríkisútvarpsins.

Hópur bandaríska sendiráðsins. Ég hnuplaði myndinni af vef Ríkisútvarpsins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.8.2013 - 13:05 - FB ummæli ()

Jóhannes og verslunin á horninu

Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus verður borinn til grafar til dag.

Hann var stundum umdeildur maður en sú djúpa vinátta sem hann kveikti augljóslega í brjósti þeirra sem þekktu hann vel sýnir að margt var í hann spunnið. Og hann þarf ugglaust ekki að kvíða dómi sögunnar.

Mig langar að hafa orð á einu, sem ég hef stundum hugsað út í.

Í minningarblaði um Jóhannes sem fylgir Fréttablaðinu í dag skrifar Jón Ásgeir fallega um föður sinn. Og þar nefnir hann meðal annars að Jóhannes hafi haft nærri óbrigðult nef til að skynja hvar staðsetja skyldi Bónusbúðir, og nefnir sérstaklega búðina við Hallveigarstíg í miðbæ Reykjavíkur.

Ekki hafi allir haft trú á henni, en hún hafi gengið vel.

Og það er hverju orði sannara.

Bónusbúðin við Hallveigarstíg er í 30 metra fjarlægð frá heimili mínu og þar hef ég því verslað mikið frá því að búðin opnaði í desember 2008 – meðan hrunið stóð sem hæst.

Þegar ég flutti í miðbæinn fyrir 25 árum voru á litlu svæði í Þingholtum og Skólavörðuholti einar fimm litlar matarbúðir. Þar versluðu sem sagt fimm „kaupmenn á horninu“. Og líklega voru á svæðinu jafn margar sjoppur.

Það er ein af þjóðsögum nútímans að „kaupmaðurinn á horninu“ sé miklu æskilegra og vinalegra verslunarform en hinir ópersónulegu stórmarkaðir.

Enda leist manni ekki á blikuna þegar fréttist að Bónus væri að opna á Hallveigarstígnum. Litlu hverfisbúðirnar voru þegar farnar að týna tölunni, og þegar Jóhannes boðaði verslunina við Hallveigarstíg tilkynnti næstsíðasti „kaupmaðurinn á horninu“ þegar í stað að hann myndi leggja upp laupana.

Og maður sá fyrir sér að framvegis yrði verslun í hverfinu ópersónuleg og vélræn, maður hirti einhverjar dósir úr hillu og færi svo heim með dósirnar.

Sæi aldrei nokkurn mann.

Raunin varð þveröfug. Bónusbúðin við Hallveigarstíg hefur – burtséð frá vöruúrvali og verði – reynst lyftistöng fyrir félagslífið í Þingholtunum. Nágranna sem maður hitti áður ekki nema löngu millibili rekst maður nú á nær daglega og kjaftatörnum hefur fjölgað stórlega.

Þannig hefur búðin sem Jóhannes barðist fyrir að opna þarna reynst hin eina sanna „verslunin á horninu“.

Og þannig reyndist óttinn við hinn ópersónulega stórmarkað algjörlega ástæðulaus. Og þessi misseri sem liðu frá því búðin var opnuð og þangað til Jóhannes missti hana í hendur bankans mátti reyndar iðulega rekast á hann sjálfan þar að sýsla og fylgjast með því hvort þjónustan væri nógu góð eða hvort eitthvað mætti bæta.

Það var viðkunnanlegt og traustvekjandi.

Ég hef aldrei rekist á hina nýju eigendur Bónus í búðinni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.7.2013 - 20:18 - FB ummæli ()

Mannlíf, auglýsingar og dýralíf á Manhattan

Það er eins og maður hafi aldrei farið í ferðalag, sítuldrandi um New York-ferðina mína.

En hér ætla nú samt að leyfa mér að birta hér fáeinar myndir sem ég tók á Manhattan um daginn. Maður gæti unað sér lengi við að taka myndir af mannlífinu á þessum fjölbreytta og (já!) vinalega stað. Þetta er altso mitt fátæklega framlag.

Lítil kona sektar stóran trukk. Þetta er í einni af hliðargötum Broadway.

Lítil kona sektar stóran trukk. Þetta er í einni af hliðargötum Broadway.

Allskonar fígúrur auglýsa alla hluti á Times Square. Þar er líka hægt að klifra upp í stiga og þá birtist mynd af manni sjálfum á einu stóru auglýsingaskiltanna. Virðulegir Íslendingar á ferð, eins og við sonur minn ungur, létum að sjálfstöðu ekki hafa okkur út í svoleiðis vitleysu!

Allskonar fígúrur auglýsa alla hluti á Times Square. Þar er líka hægt að klifra upp í stiga og þá birtist mynd af manni sjálfum á einu stóru auglýsingaskiltanna. Virðulegir Íslendingar á ferð, eins og við sonur minn ungur, létum að sjálfstöðu ekki hafa okkur út í svoleiðis vitleysu!

Hér mundu kannski sumir segja að auglýsingamennskan væri komin út í nokkrar öfgar.

Hér mundu kannski sumir segja að auglýsingamennskan væri komin út í nokkrar öfgar.

Ekki er mikið dýralíf á Broadway. Þó rákumst við á þennan hest.

Ekki er mikið dýralíf á Broadway. Þó rákumst við á þennan hest.

Allir sem eitthvað hafa horft á amerískt sjónvarp og kvikmyndir þekkja skammstöfunina NYPD - sem stendur fyrir lögregluna í New York. Hún hefur margvísleg farartæki til afnota, eins og sjá má.

Allir sem eitthvað hafa horft á amerískt sjónvarp og kvikmyndir þekkja skammstöfunina NYPD – sem stendur fyrir lögregluna í New York. Hún hefur margvísleg farartæki til afnota, eins og sjá má.

Central Park er miklu stærri, fjölbreyttari og gróskulegri en mig hafði nokkurn tíma grunað. Sums staðar er garðurinn nánast eins og hver annar skógur.

Central Park er miklu stærri, fjölbreyttari og gróskulegri en mig hafði nokkurn tíma grunað. Sums staðar er garðurinn nánast eins og hver annar skógur.

Útimarkaðir eru kannski ekki alveg það sem manni dettur fyrst í hug þegar Manhattan berst í tal. En slíkt er þó auðvitað til þar. Og hvergi hef ég séð ávöxtum og grænmeti raðað jafn snyrtilega upp og þarna.

Útimarkaðir eru kannski ekki alveg það sem manni dettur fyrst í hug þegar Manhattan berst í tal. En slíkt er þó auðvitað til þar. Og hvergi hef ég séð ávöxtum og grænmeti raðað jafn snyrtilega upp og þarna.

Íbúar á Manhattan voru afar vingjarnlegir og alúðlegir, án þess að vera nokkru sinni uppáþrengjandi. En eitthvað var að hjá þessum skötuhjúum. Þau hnakkrifust og hótuðu hvort öðru lífláti hvað eftir annað, en gerðu sig sem betur fór ekki líkleg til að framkvæma þær hótanir.

Íbúar á Manhattan voru afar vingjarnlegir og alúðlegir, án þess að vera nokkru sinni uppáþrengjandi. En eitthvað var að hjá þessum skötuhjúum. Þau hnakkrifust og hótuðu hvort öðru lífláti hvað eftir annað, en gerðu sig sem betur fór ekki líkleg til að framkvæma þær hótanir. Þegar þau leituðu til lögreglumanna til að klaga hvort annað brostu lögreglumennirnir bara góðlátlega og sögðu þeim að drífa sig heim og hætta þessu þrefi. Mér sýndist þau ætla að fara að þeim góðu ráðum.

Fyrirfram hefði ég ekki veðjað á að vænlegt væri að hjóla um miðbæ Manhattan. En þetta gerðu sumir og virtust reyndar aldrei í neinni hættu. Hjólaleigur eru víða í miðbænum.

Fyrirfram hefði ég ekki veðjað á að vænlegt væri að hjóla um miðbæ Manhattan. En þetta gerðu sumir og virtust reyndar aldrei í neinni hættu. Hjólaleigur eru víða í miðbænum.

"Occupy Wall Steet" var mótmælahreyfing sem mjög bar á vestra fyrir nokkrum misserum. Heldur hafði dregið úr mætti hennar og nú voru einu leifarnar þessi hópur fólks sem hélt til við suðvesturhorn Central Park og kallaði sig víst "Occupy Central Park" en stefndi mótmælum sínum fyrst og fremst gegn bankanum Goldman Sachs.

„Occupy Wall Steet“ var mótmælahreyfing sem mjög bar á vestra fyrir nokkrum misserum. Heldur hafði dregið úr mætti hennar og nú voru einu leifarnar þessi hópur fólks sem hélt til við suðvesturhorn Central Park og kallaði sig víst „Occupy Central Park“ en stefndi mótmælum sínum fyrst og fremst gegn bankanum Goldman Sachs.

Þessi söngstúlka hélt til nálægt Central Park og söng og spilaði fyrir fólk. Hún safnaði fé í þessa fagurbleiku tösku fyrir framan sig.

Þessi söngstúlka hélt til nálægt Central Park og söng og spilaði fyrir fólk. Hún safnaði fé í þessa fagurbleiku tösku fyrir framan sig.

Á milli auglýsingaglyssins á Broadway og Times Square og peningamusteranna á Wall Street eru nokkur lágreist hverfi sem svipar meira til evrópskra borga en þeirrar myndar sem við gerum okkur af miðborg Manhattan.

Á milli auglýsingaglyssins á Broadway og Times Square og peningamusteranna á Wall Street eru nokkur lágreist hverfi sem svipar meira til evrópskra borga en þeirrar myndar sem við gerum okkur af miðborg Manhattan.

Mér fannst endilega að þetta hlyti að vera húsið sem prýði Led Zeppelin-albúmið Physical Graffiti. En það er fullt af svona húsum á Manhattan.

Mér fannst endilega að þetta hlyti að vera húsið sem prýðir Led Zeppelin-albúmið Physical Graffiti. En það er fullt af svona húsum á Manhattan.

Stöðuvatn, skógur og skýjakljúfar. Þarna sér yfir stóra stöðuvatnið í Central Park yfir í fína hverfið við 5. Avenue og þær götur.

Stöðuvatn, skógur og skýjakljúfar. Þarna sér yfir stóra stöðuvatnið í Central Park yfir í fína hverfið við 5. Avenue og þær götur.

Setið að tafli á Union Square sunnarlega á Manhattan. Í bakgrunni kynna sig heittrúaðir Gyðingar.

Setið að tafli á Union Square sunnarlega á Manhattan. Í bakgrunni kynna sig heittrúaðir Gyðingar.

 

 

Aðal töffarinn í bænum. Fáninn hans náðist ekki á þessa mynd, en hann sat undir biksvörtum anarkistafána.

Aðal töffarinn í bænum. Fáninn hans náðist ekki á þessa mynd, en hann sat undir biksvörtum anarkistafána.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.7.2013 - 21:33 - FB ummæli ()

Moskur í Sogamýri og Manhattan

Ég verð að segja að mér finnst með ólíkindum að hér skuli upp risin umræða um hvort ætti að leyfa múslimasöfnuði að reisa sér mosku í Reykjavík.

Það er árið 2013 og á ekki að þurfa að hafa mörg orð um að trúfrelsi ríkir í landinu.

Fordómarnir sem kvikna og fáviskan eru með nokkrum ólíkindum. Meira að segja ömurlegur dómur sem nauðgunarfórnarlamb mátti sæta í Dúbaí var allt í einu komið inn í umræðuna um þetta!

Vonandi lýkur þessari umræðu hér og múslimar fái sína mosku. Það er vel að merkja EKKI verið að ræða um þann söfnuð þar sem trúarleiðtogi talaði gegn samkynhneigðum um daginn, heldur annan og frjálslyndari söfnuð.

En meira að segja þau orð hins villuráfandi trúarleiðtoga voru reyndar ekki öllu svakalegri en sumt sem kristnir leiðtogar hér á landi hafa látið hafa eftir sér.

Og flokkast undir rugl sem við vinnum bug á með fræðslu og umburðarlyndi, en ekki með því að gera fólki erfitt fyrir að iðka sína trú.

Um daginn var ég í Harlem á Manhattan-eyju í New York. Sú eyja varð fyrir hryðjuverkaárás fyrir 12 árum og eftir það máttu múslimar sæta margvíslegum fordómum þar vestra. Skildist manni að minnsta kosti.

En þeir virðast nú alveg hafa lognast út af að fullu, sem betur fer. Andrúmsloftið í garð múslima sá ég ekki betur en væri í alla staði eðlilegt. Þeir eru bara eins og hverjir aðrir íbúar í þessari vingjarnlegu borg.

Það var moska einni eða tveimur húsalengjum frá íbúðinni þar sem ég bjó. Reyndar bara í venjulegu húsnæði – milli nýlenduvöruverslunar og bílaverkstæðis. Þar fóru fram kvöldbænir með nokkurri viðhöfn. Það var ævinlega troðfullt svo margir stóðu úti á gangstétt og hlýddu á bænirnar.

Þetta var friðsælt og eðlilegt – bara rétt eins og í kirkjum kristinna manna. Og enginn kippti sér upp við neitt.

Ef íbúar á Manhattan líta á moskur og múslima sem fullkomlega sjálfsagðan part af tilverunni, hví þá ekki fólkið í Reykjavík?

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.7.2013 - 20:08 - FB ummæli ()

Tvær bíómyndir, tveir leigubílar, tvær byssur

Ég stend enn á því fastar en fótunum að hingað til a.m.k. hafi Baltasar verið bestur sem leikstjóri í leikhúsinu.

En myndirnar hans í bíó eru fínar og það er gaman að sjá hve vel honum gengur.

Sjá hér frétt í Ríkisútvarpinu um nýja stórmynd sem hann er að fara að gera í haust.

Everest mun hún heita.

Og það er greinilega mikið lagt undir hvað snertir nýjustu myndina hans sem frumsýnd verður 2. ágúst í Ameríku.

2Guns heitir hún.

Það sá ég í minni víðfrægu New York-ferð þar sem miðbærinn er undirlagður af auglýsingum um þessa mynd og hún keppti við R.I.P.D. um auglýsingaplássið á leigubílunum sem alls staðar eru:

IMG_2819

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.7.2013 - 09:29 - FB ummæli ()

Að ganga kílómetra og skipta um veröld

Eins og flestir aðrir er ég gegnsýrður amerískri menningu eftir að hafa horft á amerískar kvikmyndir og sjónvarp, lesið amerískar bækur og hlustað á ameríska tónlist í áratugi.

Þrátt fyrir það hefur mig eiginlega aldrei langað neitt sérstaklega til Bandaríkjanna.

Mér fannst líklega að það væri engin sérstök þörf á því, eftir öll þessi amerísku áhrif.

Nú er ég hins vegar nýkominn úr tæplega 10 daga dvöl í New York og verð að segja að þar var ýmislegt sem kom á óvart.

Manhattan er furðulega fjölbreyttur og ég verð að segja heillandi staður.

Þar labbar maður tæpan kílómetra í suður frá glitrandi glampandi auglýsingaskiltaveröldinni á Times Square og Broadway og er þá kominn í rólegt og fallegt listamannahverfi í miðlungsstórri og rótgróinni evrópskri borg.

Og svo gengur maður annan tæpan kílómetra í suður og er þá lentur í heimi hinna íburðarmiklu glerskýjakljúfa á Wall Street, mestu fjármálahofa heimsins.

Það var eins og á hverjum kílómetra skipti maður gjörsamlega um veröld. Yfirbragðið á lífinu var annað, hrynjandin öðruvísi.

Og ofar í borginni er líka bara kílómetri á milli annars vegar fínu íbúðanna á 5. Avenue þar sem aldrei sést barn utandyra, nema í mesta lagi á vandlega vörðum leikvöllum með þriggja metra háar járngirðingar kringum sig, og hins vegar gangstéttanna í Harlem þar sem krakkarnir leika sér í gamalkunnum eltingaleikjum langt fram á kvöld – álíka frjáls og í íslenskri sveit.

Og jafnvel þótt maður vissi fyrir að New York væri alþjóðlegust borga í Bandaríkjunum kom það mér samt á óvart hvílíkur suðupottur þessi borg virðist vera.

Þið fyrirgefið mér þó ég minnist kannski á einhver smáatriði úr ferðinni hér á næstunni.

En svo er það alltaf eins – þrátt fyrir að það sé gaman í útlöndum, þá er alltaf sérstök tilfinning að vera kominn á útlenskan flugvöll og sjá Icelandair merkinu bregða fyrir í fyrsta sinn.

Það er verið að sækja mann heim!

Og alltaf sé ég pínulítið eftir þeim gamla sið úr íslenskum flugvélum að klappa svolítið þegar lent er í Keflavík.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!