Fimmtudagur 9.8.2012 - 14:10 - FB ummæli ()

Það má móðga

Ýmis uggvænleg teikn eru á lofti um að mannréttindi kunni að verða minna virt í Rússlandi en æskilegt má telja.

Réttarhöldin gegn Pussy Riot eru dæmi um það.

Við getum sem vinaþjóð Rússlands ekki látið hjá líða að benda Rússum á að það gengur ekki í lýðræðissamfélagi að fólk eigi yfir höfði sér margra ára fangelsi fyrir gjörning eins og þennan sem Pussy Riot flutti í rússnesku kirkjunni.

Vissulega móðguðu stúlkurnar í hljómsveitinni einhverja.

En það á ekki að setja fólk í fangelsi fyrir það.

Allra síst ef móðgunum var í rauninni stefnt gegn stjórnvöldum í landinu. Það er heilagur réttur fólks að mótmæla stjórnvöldum, jafnvel með móðgandi hætti.

Á þessari síðu Amnesty International er undirskriftasöfnun gegn málarekstrinum yfir Pussy Riot.

Ég bið alla þá sem þetta lesa að skrifa nöfn sín þar undir. Það tekur enga stund: Maður skrifar nafnið sitt, kennitölu og netfang – en aðeins nafnið mun birtast á undirskriftalistanum.

Skrifið undir, ég bið ykkur.

Hér er síðan aftur.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.8.2012 - 11:09 - FB ummæli ()

Viðhöfn

Hjörleifur Stefánsson arkitekt skrifar merkilega grein í Fréttablaðið í morgun sem rétt er að vekja athygli á. Maður hristir eiginlega bara hausinn yfir því sem þar kemur fram.

Sjá hér samantekt Eyjunnar. Hjörleifur fullyrðir beinlínis að menn hafi vísvitandi búið til blekkingaráætlun um rekstur Hörpu.

Eðlilegt er og sjálfsagt að málið verði rannsakað af alvöru. Harpa er staðreynd og rekstur hússins mun vonandi ganga betur á næstunni en verið hefur, en eigi skattgreiðendur að borga brúsann í enn ríkari mæli en útlit var fyrir, þá eiga þeir allan rétt á að fá að vita nákvæmlega hvernig til þessa húss var stofnað.

Hins vegar varð grein Hjörleifs líka til að ég fór að rifja upp tillöguna sem hann stóð að ásamt fleirum. Tillögu Viðhafnar.

Það tónlistarhús hefði orðið mun sérkennilegra en sú sem á endanum reis, hvort sem mönnum finnst hún fallegri eða ekki.

Sjá hér.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.7.2012 - 16:52 - FB ummæli ()

Er hin mikla framsýni Kínverja bara misskilningur?

Kínverjar hugsa ekki í árum, þeir hugsa í öldum.

Þennan frasa hefur hver étið eftir öðrum á Vesturlöndum upp á síðkastið. Frasanum er ætlað að sýna hvað Kínverjar séu miklu útspekúleraðri en hinir skammsýnu Vesturlandamenn.

Og því mikil ástæða fyrir okkur að passa okkur.

Jafnan þegar þessi frasi berst í tal, þá dúkkar upp sama frásögnin.

Um Sjú En-laí sem var forsætisráðherra Kína í grilljón ár á tímum Maós formanns.

Þegar Nixon Bandaríkjaforseti kom til Kína árið 1972 er sagt að annaðhvort hann eða einhver aðstoðarmanna hans hafa verið að spjalla við Sjú og meðal annars spurt hver væri skoðun hans á áhrifum frönsku byltingarinnar á framvindu mála í Evrópu.

Og Sjú En-laí hugsaði málið andartak en sagði svo: „Það er of snemmt að segja til um það.“

Þetta hefur altso verið talið frábært dæmi um hina miklu framsýni og djúpa sögulega vitund Kínverja. Franska byltingin braust út 1789 svo þarna voru liðin tæp 200. Samt vildi Sjú ekki leggja endanlegan dóm á áhrif hennar.

Ég var að spekúlera í þessu á Facebook áðan. Þá benti Gunnar Hrafn Jónsson mér á það sem ég vissi ekki, að það er nýlega komið upp úr dúrnum að þessi frægu orð Sjú En-laí byggðust á tómum misskilningi.

Hann átti nefnilega ekki við frönsku byltinguna 1789, heldur rósturnar sem urðu í París 1968 milli stúdenta annars vegar og lögreglunnar hins vegar.

Í blaðinu Financial Times birtist þann 10. júní síðastliðinn svohljóðandi frásögn blaðamannsins Richard McGregors:

„Á málstefnu í Washington um nýja bók [Henry] Kissingers, On China, reyndi Chas Freeman, fyrrverandi starfsmaður utanríkisþjónustunnar að leiðrétta hið langlífa ranghermi.

„Ég man vel eftir þessum samræðum. Þetta var misskilningur sem var of skemmtilegur til að vera leiðréttur,“ sagði Freeman.

Hann sagði að Sjú hefði orðið ringlaður þegar hann var spurður um frönsku byltinguna og Parísarkommúnuna. „En þetta voru nákvæmlega þau hugtök sem stúdentar notuðu til að lýsa því sem þeir stóðu í 1968, og þannig skildi Sjú líka þessi orð.“

Geremie Barme frá Þjóðarháskóla Ástralíu sagði að tilvitnunin í orð Sjús hefði passað fullkomlega við þá skoðun sem útbreidd er á Vesturlöndum um „austræn undirferli“ sem hugsi langt fram í tímann og séu „óhemju djúpskreið“. En í Kína sé aftur á móti talað um að stjórnvöld séu skammsýn, skelfilega praktísk og fari allt annað en fínlega í hlutina.“

Doktor Barme bætti við kínverskir heimildarmenn með aðgang að skjölum utanríkisráðuneytisins í Beijing segi að samkvæmt skjölunum sé enginn vafi á að Sjú hafi verið að tala um uppþotin 1968.

Kínverskar heimildir sýni fram á að samtal Sjú hafi verið við Henry Kissinger.

Talskona doktors Kissingers segir að „hann muni þetta ekki nákvæmlega en skýring Freemans virðist mun meira sannfærandi“.

Aðgæsla Sjús í orðavali endurspeglaði líka stórhættulegt pólitísk andrúmsloftið í Bejing á þeim tíma [menningarbyltingarinnar] og forsætisráðherrann hefði aldrei hætt á að fella dóma um þá róttæku frönsku maóista sem höfðu sig í frammi í óeirðunum í París.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mistúlkun á orðum kínversks leiðtoga hefur fest rætur í vitund fólks á Vesturlöndum.

Því er oft haldið fram að Deng Xiaping, sem hleypti markaðsumbótum Kínverja af stað, hafi sagt: „Að verða ríkur er stórfenglegt“, en í reynd finnast engar heimildir fyrir því að hann hafi sagt það.

Þá er oft sagt að í Kína sé algeng bölbæn: „Megir þú lifa á áhugaverðum tímum“, en þessi bölvun er ekki til í Kína, segja fræðimenn.“

Svo mörg voru þau orð í FT. Orð Sjús voru sem sagt ekki til vitnis um visku hans og djúphygli, heldur bara varkárni í að fella dóm um atburði sem urðu fyrir 3-4 árum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.7.2012 - 19:56 - FB ummæli ()

Samstaða nú

Á morgun klukkan þrjú verður fundur á Ingólfstorgi þar sem ætlunin er að lýsa samstöðu með hinni hrjáðu alþýðu Sýrlands. Bashar Assad forseti var lengi framan af talinn fremur hófsamur og hófstilltur stjórnarherra en annað hefur heldur betur komið í ljós. Hann hefur haft ótal tækifæri til að stíga til hliðar og koma á friði, en hefur fótumtroðið þau öll. Fundinum er ætlað að vera örlítið lóð á vogarskálarnar til að sýna hug fólks til ofbeldisins og kúgunarinnar sem Assad beitir. Og vitanlega er fundinum líka stefnt gegn grimmdarverkum uppreisnarmanna sem því miður eru dæmi um, þó uppreisnarmenn komist ekki í hálfkvisti við forsetann að ofstopa. Það er Heimir Már Pétursson sem hefur haft veg og vanda af fundinum, Jóhanna Kristjónsdóttir móðir mín flytur ávarp en sjálfsagt hafa fáir Íslendingar komið oftar til Sýrlands en hún. Einnig verður flutt tónlist.

Ingólfstorg klukkan þrjú á miðvikudag. Mætum öll sem blöskrar ofbeldið í Sýrlandi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.7.2012 - 20:15 - FB ummæli ()

Svar við skotárásinni: Fleiri byssur!

Hryllingur eins og átti sér stað í bíóinu í Bandaríkjunum mun um stund kveikja umræður um hvort herða eigi lög um byssueign þar vestra, en þær umræður munu fljótt hljóðna.

Byssuframleiðendur eru einhver sterkasti þrýstihópur þar vestra.

Enda voru þeir fljótir af stað þegar fréttist af þessum voðaverkum, og eins og hér sést er þeirra afstaða sú að svona atburðir sýni nauðsyn þess að fjölga enn frekar byssum í amerísku samfélagi.

Því ef hver einasti bíógestur hefði verið með sína eigin byssu hefði einhver þeirra ábyggilega náð að skjóta læknanemann!

Maður er stundum alveg orðlaus yfir hugsunarhætti eins og þessum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.7.2012 - 14:43 - FB ummæli ()

Oft var þörf en aldrei sem nú

Mín góða móðir, Jóhanna Kristjónsdóttir, hefur í félagi við margt gott fólk unnið þrekvirki hin síðustu ár við að styrkja skólastarf fyrir fátæk börn í Jemen. Hefur það verið gert undir merkjum hins svonefnda Fatímusjóðs.

Vegna upplausnar í Jemen síðustu misserin hefur Fatímusjóðurinn nú um hríð snúið sér að öðrum verkefnum, og í vikunni var veitt rúmlega 1,5 milljón til Hjálparstarfs kirkjunnar sem nota skal til að grafa brunna í Eþíópíu.

Og þá fékk UNICEF þrjár milljónir til að hjálpa vannærðum börnum í Jemen, en þau eru mörg eftir rósturnar þar að undanförnu.

Nú beinir Fatímusjóðurinn athygli sinn að Sýrlandi og þarf ekki að orðlengja hvaða hörmungar þar er við að stríða. Börn eru alltaf fórnarlömb í stríðsátökum, en í Sýrlandi nú virðast menn forsetans ganga fram af óvenjulegu miskunnarleysi og grimmd gegn börnum.

Fatímusjóðurinn ætlar að safna fé fyrir stríðshrjáð börn í Sýrlandi og ef einhverjum er hægt að treysta til að koma hjálparfé til þeirra aðila sem raunverulega þurfa á því að halda, þá eru það móðir mín og félagar hennar.

Leggið endilega inn á söfnunarreikning Fatímusjóðs – það þarf ekki mikið frá hverjum einstaklingi til að það skipti máli.

Reikningsnúmer er 342-13-551212, og kt. 140240-3979.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.7.2012 - 08:29 - FB ummæli ()

Auglýsa ráðuneytisstjórann

Það er röng ákvörðun hjá Steingrími J. Sigfússyni að auglýsa ekki stöðu ráðuneytisstjórans í nýju ráðuneyti nýsköpunar og atvinnuvega.

Vissulega kann að virðast nærtækast og jafnvel sanngjarnt líka (við fyrstu sýn!) að velja nýjan ráðuneytisstjóra úr hópi ráðuneytisstjóra þeirra þriggja ráðuneyta sem þarna er verið að sameina.

En svo valdamikil staða í stjórnsýslunni á þó ekki að velta á þann hátt á geðþótta ráðherrans sem um vélar.

Auglýsa á allar slíkar stöður.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.7.2012 - 08:11 - FB ummæli ()

Fordómar og tjáningarfrelsi

Hannes Hólmsteinn Gissurarson kenndi mér einu sinni sögu í Menntaskólanum í Reykjavík. Það er langt síðan en hann er þó stundum enn í dag að reyna að setja mér hitt og þetta fyrir, og vill ráða því hvaða málefni samfélagsins ég fjalla um opinberlega.

Ég mun að sjálfsögðu ekki fara eftir því. Það er nú algjört lágmark að maður fái að velja sér sín hugðarefni sjálfur.

Aftur á móti er best að þiggja ráðleggingar Hannesar í þessari grein hér.

Þar mælist hann til þess að ég hafi skoðun á brottrekstri Snorra Óskarssonar úr stöðu barnakennara á Akureyri vegna skoðana hans á samkynhneigð.

Ég get vel viðurkennt að þetta mál hefur vafist svolítið fyrir mér.

Í aðra röndina þykir mér ekkert mjög óeðlilegt að meiri kröfur séu gerðar til þeirra sem kenna börnunum okkar en annarra um að útbreiða ekki hatursáróður.

Ef Snorri í Betel hefði keyrt öskubíl Akureyrarbæjar hefði að sjálfsögðu verið forkastanlegt að láta hann fara úr starfi vegna skoðana sinna.

Að hann skuli vera barnakennari er hins vegar öllu verra. Nú hljótum við að gera ráð fyrir því að Snorri hafi ekki verið að messa um sína guðstrú yfir börnunum, en eigi að síður er það væntanlega ansi óþægilegt fyrir ungan samkynhneigðan nemanda að sækja tíma hjá kennara sem nemandinn veit að telur samkynhneigða setta undir dauðasök.

Þó svo tímarnir séu bara í reikningi eða einhverju þess háttar.

Kennarinn er samt í valdastöðu gagnvart nemandanum, stöðu sem sýnir að samfélagið tekur mark á honum og treystir honum.

Og í því tilfelli finnst mér að réttur nemandans sé meiri en kennarans.

Þá á ég líka í raun og veru mjög erfitt með að líta svo á að fordóma, hatur og fyrirlitningu í garð samkynhneigðra eigi menn  að líta á sem einhverja réttmæta „skoðun“ sem eigi fyrirvaralaust að verja í nafni tjáningarfrelsis.

Og ég skammast mín ekki hót fyrir að viðurkenna það.

Og verð að segja að mér þykir ansi klént hjá mínum gamla kennara að gefa í skyn að gamaldags forstokkaðir fordómar sem tók mörg þúsund ár að kveða nokkuð í kútinn útheimti frelsi til að hugsa öðruvísi!!!

En hitt verð ég líka að viðurkenna, að ef Snorri hefur verið rekinn einvörðungu fyrir þau ummæli sem Hannes tilgreinir í pistli sínum (sem ég veit ekki almennilega), þá virðist sú brottrekstrarsök ærið vafasöm.

Ef hún er sem sagt eingöngu þessi hér:

„Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Þetta er bara lýsing á afstöðu tiltekinna kristinna hópa (og líka til dæmis kaþólsku kirkjunnar).

Ég gæti alveg hafa skrifað þessi orð sjálfur, til dæmis í útvarpsþætti um öfgatrúarhópa.

Sjálfsagt hefur samhengið hjá Snorra í Betel verið töluvert mikið annað en það hefði verið hjá mér, en nákvæmlega þessi orð eru bara lýsing, ekki staðhæfing.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.7.2012 - 09:06 - FB ummæli ()

Hverjir eru hinir „árásargjörnu menn“?

Svar til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra.

– – – –

Heill og sæll Ögmundur.

Þakka þér fyrir skjót svör við fyrirspurn sem ég beindi til þín fyrir örfáum dögum.

Þú afsakar að ég skuli eyða tíma í að rifja málið upp stuttlega.

Fyrir skemmstu lét Karl Sigurbjörnsson af starfi biskups þjóðkirkjunnar á Íslandi eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni vegna hlutdeildar sinnar að málum forvera síns, Ólafs Skúlasonar.

Og voru það þó ekki einu vandamál kirkjunnar í tíð þeirra Ólafs og Karls. Þjóðkirkjufólki hefur fækkað mikið og afstaða til samkynhneigðra þvældist nokkuð fyrir – þótt vissulega sé skylt að taka fram að margir og líklega langflestir kirkjunnar þjónar stóðu sig þar með miklum sóma.

En alla vega – Karl lét sem sagt af embætti.

Innanríkisráðuneytið (sem áður var náttúrlega að hluta til kirkjumálaráðuneytið) hélt honum þá samsæti í Þjóðmenningarhúsinu þar sem þú hélst erindi og kvaddir Karl.

Í fréttum kom fram að í erindinu hefðir þú meðal annars nefnt sem skýringu á vandræðum kirkjunnar í embættistíð Karls:

„Árásargjarnir menn  neyttu færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og varð um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar.“

Ég bað sem sagt um skýringar á þessu, hérna.

Og svar þitt birtist hér.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi finnst mér þú óneitanlega svolítið hvumpinn í þessum texta. Þú talar um að ég „geri þér þann heiður“ að beina til þín spurningum og „láti svo lítið“ en þú þurfir þó ekki að „standa Illuga Jökulssyni skil“ skoðana þinna.

Þessi svolítið óvinsamlegi tónn gerði mig nokkuð hryggan í bragði, en vera má að hann stafi af því að þér hafi þótt belgingslegur tónn í minni upprunalegu fyrirspurn.

Sé svo er mér ljúft og skylt að biðja þig afsökunar. Það var svo sannarlega ekki meiningin að fara um með þjósti.

En í öðru lagi neyðist ég til að viðurkenna að mér þykir þú í raun ekki svara fyrirspurn minni.

Í svari þínu talar þú gegn óbilgirni og öfgum og ofsafenginni umræðu af allra hálfu. Og þú nefnir til sögu þrjár greinar þar sem þú fjallar um þessi mál og heldur þar mjög fram málstað umburðarlyndis og hófsemi.

Allt eru þetta miklar sómagreinar og að breyttu breytanda er ég sammála flestu sem þar stendur.

En ég var vitanlega alls ekki að gagnrýna þig fyrir þessar góðu skoðanir.

Ég var einfaldlega, og hvorki meira né minna, en að biðja þig um skýringu á þeim orðum sem tilfærð voru í fréttinni af ræðu þinni yfir Karli  Sigurbjörnssyni – að árásargjarnir menn  hefðu neytt færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og orðið um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar.

Í fréttinni af ræðunni virtist sem þú hefðir tilgreint þessa grimmilegu og árásargjörnu menn sem eina meginskýringu þess hvernig komið væri fyrir kirkjunni, en nú þegar ég hef lesið ræðuna í heild er vissulega rétt að þessi ástæða er bara nefnd sem ein af fleiri ástæðum.

En þessi skýring er þó langsamlega afdráttarlausust orðuð og fékk áreiðanlega af þeim sökum mest vægi í fréttinni. Meira að segja sjálft mál Ólafs Skúlasonar er aðeins nefnt sem „dapurleg mál sem við öll þekkjum“.

En ég var sem sagt hvergi í þessari fyrirspurn minni að gagnrýna þig fyrir ágætar og hófsamar skoðanir þínar á trúfrelsi eða trúarbrögðum. Það væri algjörlega fjarri mér og mér þykir leiðinlegt ef þú hefur tekið fyrirspurninni þannig.

Ég styð bæði þig og alla hinari ágætari kirkjunnar þjóna í hverskyns viðleitni til að auka hófsemd og umbyrðarlyndi í umræðu um jafnt trúmál sem önnur mál í samfélaginu.

Ég var eingöngu að biðja um skýringar á hverjir væru hinir „árásargjörnu menn“. Og sömuleiðis biðja um dæmi um „grimmilegan“ málflutning þeirra.

Svo grimmilegan að hann hefði átt þátt í að „rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar“.

Þessi grimmilegi málflutningur hafi sem sagt ekki verið lágróma kjaftæði í skúmaskotum, heldur hafi skipt verulegu máli við að rjúfa samstöðuna um þjóðkirkjuna.

Ef þú nennir máttu alveg skjóta á mig við tækifæri fáeinum dæmum um þetta. Mér fannst nefnilega og finnst enn það hafa töluvert vægi þegar innanríkisráðherra í ríkisstjórn Íslands tekur svo sterkt til orða.

Með bestu kveðjum og vona að við verðum hér eftir sem hingað ævinlega samherjar í baráttunni fyrir hófsemd og stillingu í samfélaginu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.7.2012 - 12:39 - FB ummæli ()

Opið bréf til Ögmundar

Heill og sæll Ögmundur.

Á vefsíðunni dv.is birtist í morgun frétt þar sem segir frá samsæti sem þú munt hafa haldið til heiðurs Karli Sigurbjörnssyni sem nýlega lét af störfum biskups yfir Íslandi.

Sjá hér.

Þar munt þú hafa farið fögrum orðum um Karl og vitanlega ekki annað við hæfi við slíkt tækifæri.

Á hinn bóginn virðist þú líka hafa vikið nokkrum orðum að þeim miklu vandræðum sem íslenska kirkjan hefur átt við að glíma síðustu árin, ekki síst eftir að mál Ólafs Skúlasonar komu fyrst upp á tíunda áratug síðustu aldar.

Fækkað hefur í kirkjunni og mörgum hefur þótt þeir eiga litla samleið með henni.

En samkvæmt frásögn dv.is virðist þú hafa skýrt vandræði kirkjunnar svona:

„Ögmundur sagði „árásargjarna menn“ hafa vegið grimmilega að kirkjunni og rofið samstöðu kirkju og þjóðar.“

Ég trúi því eiginlega ekki að þú hafir sagt þetta.

Enda hlýtur víðsýnn og vel upplýstur maður eins og þú að vita betur en þetta.

Því langar mig að varpa til þín þeirri spurningu hvort ekki hafi örugglega verið rangt eftir þér haft?

Og ef svo ólíklega vill til að þú hafir virkilega sagt þetta, þá væri vissulega fróðlegt að fá að heyra nánari skýringar þínar á þessu.

Með bestu kveðju!

 

– – – – –

 

Það skal tekið fram að það hvarflaði ekki eitt augnablik að mér að blaðamenn DV hefðu haft vitlaust eftir. Þetta orðalag var stílbragð, eins og ég hélt að lægi í augum uppi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!