Laugardagur 5.11.2011 - 13:19 - FB ummæli ()

Eimreiðarhópurinn og einvígið

Ég rakst óvænt á sjálfan mig í nýjum reyfara eftir Óttar Norðfjörð, sem heitir Lygarinn.

Af vissum ástæðum, sem best er að upplýsa ekkert um, fer aðalsögupersónan að kynna sér sögu Eimreiðarhópsins sem á ofanverðri 20. öld og eitthvað fram á þá 21. var eins konar skuggastjórn Sjálfstæðisflokksins.

Vissulega mjög merkilegt fyrirbæri.

En við leitina rekst þessi sögupersóna á netinu á pistil sem ég skrifaði á gömlu DV-bloggsíðuna mína í nóvember 2008, rétt eftir hrunið, og fjallaði um Eimreiðarhópinn.

Þennan pistil hér, altso.

Það var vissulega svolítið fyndin tilfinning að rekast á sjálfan sig í skáldsögu, þó ég hafi nú ekki fengið að vera nema nafnið í bók Óttars.

Ég ætti kannski að óska eftir stærra hlutverki í næstu bók. Óttar er ósmeykur við að fjalla um raunverulega atburði í sögum sínum.

Þetta er annars bráðfjörug bók. Óttar er reyfarahöfundur af þeirri tegund sem kann að drífa lesandann áfram við lesturinn.

Svo undarlegt sem það er, þá er Eimreiðarhópurinn aðeins annar meginþáttur bókarinnar, en hinn er heimsmeistaraeinvígið í skák í Reykjavík 1972.

Ég kjafta auðvitað engu um það hvernig þessir þættir fléttast saman.

Skákeinvígið er einmitt líka í bakgrunni á nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, sem ég er líka byrjaður að lesa.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.11.2011 - 09:46 - FB ummæli ()

Skipan dómara og ríkisráð

Málþing Háskóla Íslands um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs hófst í gær og er mjög gleðilegur vitnisburður um að nú sé að hefjast markviss umfjöllun um frumvarpið.

Aðrir háskólar munu einnig gera hið sama. Þetta er allt mjög gott – það eina sem vantar er einhvers konar kynning eða umfjöllun um frumvarpið sem beint sé sérstaklega að almenningi.

En að því kemur væntanlega.

Ég gat því miður ekki verið viðstaddur, en las í Fréttablaðinu þessa frétt hér um ljómandi gott erindi sem Björg Thorarensen prófessor hélt á málþinginu í gær.

Mér sýnist Björg hafa komið umræðum um forsetakaflann í stjórnarskrárfrumvarpinu í mun skynsamlegri farveg en hann stefndi í.

Forsetakaflinn er auðvitað ekki hafinn yfir gagnrýni, frekar en önnur, en allar fullyrðingar um að þar séu „völd forsetans stóraukin“ er einfaldlega rangar, og Björg áttaði sig auðvitað á því.

Mig langar í bili aðeins að gera athugasemdir við tvennt í orðum Bjargar, en tek fram að ég byggi það á frásögnum fjölmiðla, bæði Fréttablaðsins og annarra, en ekki erindi Bjargar sjálfu.

Í fyrsta lagi tek ég eindregið undir athugasemdir Þorvaldar Gylfasonar félaga míns í stjórnlagaráðinu, þegar hann svaraði hugleiðingum Bjargar um heimild forseta til að synja skipan dómara – ef gengið væri mjög freklega gegn ráðleggingum sérskipaðrar fagnefndar.

Ef forseti synjar dómara, þá þarf samkvæmt tillögum okkar Alþingi að samþykkja skipanina með tveim þriðju hlutum atkvæða.

Í Fréttablaðinu segir: „Björg taldi heimildina óþarfa í ljósi þess að lögum um skipan dómara hefur nýverið verið breytt til að koma í veg fyrir misnotkun á skipunarvaldi dómsmálaráðherra.“

Eins og Þorvaldur benti á væri Alþingi í lófa lagið hvenær sem er að breyta reglunum á ný og setja einfaldlega þau lög að ráðherra skipi hvern sem honum hentar í stöðu dómara.

Björg hefur væntanlega hugsað með sér, að þá þurfi ekkert að kveða á um þetta í stjórnarskrá, því auðvitað muni menn aldrei snúa aftur til hins eldra og ófullkomnara skipulags.

En við höfum vítin til að varast.

Það er innan við áratugur síðan valdamikill forsætisráðherra lét leggja Þjóðhagsstofnun niður í heilu lagi, af því honum fann hún óþægur ljár í þúfu. Eftir á að hyggja var þetta gjörsamlega fráleitur gjörningur, og reyndist stórhættulegur, því á miklum „uppgangstímum“ skorti allt aðhald og nákvæmar upplýsingar um hagstærðir sem við hefðum þurft að hafa.

En á þeim tíma var áhrifavald þessa tiltekna forsætisráðherra slíkt að breytingin gekk í gegn mótspyrnulítið.

Slíkar aðstæður geta auðveldlega risið aftur – og þess vegna þarf að kveða skýrt á um þetta og ýmis önnur mikilvæg mál í stjórnarskrá.

Það er ýmislegt sem við getum einfaldlega ekki, að fenginni mjög sárri reynslu, treyst Alþingi eða ríkisstjórn fyrir.

Þá gerði Björg líka athugasemd við að stjórnlagaráð vill leggja niður ríkissáð, en það er fundur forseta og ríkisstjórnar tvisvar á ári og stökum sinnum oftar.

Ríkisráð er punt-fundur þar sem farið er yfir lög sem samþykkt hafa verið frá síðasta fundi – þau eru borin fram með bláan silkiborða hnýtt utan um þau (þetta er satt!) og svo er huggulegur löns á eftir.

Björg varar við að þessir fundir ríkisráðs séu lagðir niður og segir að „þannig sé afnuminn sá vettvangur sem forseti og ríkisstjórn hafa til að ræða mikilvæg mál“.

Þetta er misskilningur, held ég. Það eru aldrei rædd mikilvæg mál á fundum ríkisráðs.

Augljóst dæmi blasir við.

Nú fyrir örfáum vikum var nánast stríðsástand milli forseta og ríkisstjórnar. Ólafur Ragnar hafði verið að gefa allskonar furðulegar yfirlýsingar um ríkisstjórnina þvert og kruss í útlöndum, og heldur hvassyrt bréf höfðu gengið milli forsetaembættis og ríkisstjórnar.

Þá var einmitt haldinn ríkisráðsfundur.

Eftir fundinn sögðu bæði forseti og ráðherrar að þar hefði allt farið kurteislega fram og ekki verið minnst einu orði á ágreiningsefnin.

Ekki einu orði.

Þetta sýnir að ríkisráð er óþörf puntuverk, því ef einhvern tíma var ástæða til að ræða „mikilvæg mál“ á ríkisráðsfundi var það þarna.

En það var ekki gert, og því á að leggja ríkisráðið niður.

Það er gagnslaust fyrirbæri, og gerir ekki annað en auka starfsálag starfsmanna ráðuneytanna, því þeir þurfa að strauja svo mikið af bláum silkiborðum til að hafa þá tilbúna fyrir ríkisráðsfundina.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.11.2011 - 11:10 - FB ummæli ()

Neyðarkall

Ég keypti í gær neyðarkall björgunarsveitanna fyrir utan Bónus.

Ég er annars ekkert mjög duglegur að kaupa happdrættismiða eða annað þvíumlíkt af líknarfélögum eða hjálparsamtökum eða hagsmunahópum.

Tvennt kaupi ég þó alltaf á hverju ári.

Neyðarkallinn annars vegar og hins vegar álfinn frá SÁÁ.

Mér finnst mér bara bera skylda til.

SÁÁ hafa bjargað lífi og heilsu fjölmargra sem ég þekki, þar á meðal í minni eigin fjölskyldu.

Og björgunarsveitirnar bjarga öllum hinum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.11.2011 - 11:01 - FB ummæli ()

Pawel um hagsmunaráðuneyti

Pawel Bartoszek skrifar í Fréttablaðið í morgun um málefni sem er því miður alltof kunnuglegt.

Hvernig hin svokölluðu „fagráðuneyti“ á Íslandi hafa alltaf litið á sig sem fulltrúa þröngra hagsmunaaðila, ekki þjóðarinnar allrar.

Þetta hefur alltaf verið sérstaklega áberandi í ráðuneytum sjávarútvegs og landbúnaðar.

Sjávarútvegsráðherrar hafa gjarnan talað eins og pólitískur armur útvegsmanna, en landbúnaðarráðherrar eins og þeir séu á launum hjá Bændasamtökunum, ekki þjóðinni.

Það hefur svolítið dregið úr þessu – nema helst hvað Jóni Bjarnasyni viðvíkur, sér í lagi þegar hann er með landbúnaðarráðherrakaskeytið sitt.

Lesið endilega greinina hans Pawels um hörmungina sem þetta leiðir til. Sjá hér.

Þar segir meðal annars:

„Það væri auðvitað æskilegt að ríkið sinnti eðlilegu eftirlits- og stjórnsýsluhlutverki sínu á sviði landbúnaðar, óháð því hvort við endum í ESB eða ekki. En ráðuneytið og hagsmunasamtökin veðja á að geta staðið fyrir utan og haldið þannig áfram samkrullinu. Tala svo um að aðlögun. Já, hver spurði íslenska kjósendur að því hvort þeir vildu vandaðri stjórnsýslu og óháða hagskýrslugerð í landbúnaði? Ha, enginn? Á bara að troða þessu ofan í kokið á þjóðinni?“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.11.2011 - 17:38 - FB ummæli ()

Þá höfum við ekkert við Hönnu Birnu að gera

Ég heyrði áðan viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Síðdegisútvarpi Rásar tvö.

Mér hefur hingað til litist bara býsna vel á Hönnu Birnu. Hún er sköruleg, sem stundum er kostur, og hún hefur í sinni borgarmálapólitík sýnt á ýmsan hátt viðleitni til nýrra og töluvert heilbrigðari vinnubragða en tíðkast hafa.

Því voru vonbrigði mín djúp þegar ég heyrði viðtalið við hana.

Hún lýsti því nefnilega yfir að hún væri ekki ánægð með fylgi Sjálfstæðisflokksins eins og það mælist nú í könnunum.

Þegar versta ríkisstjórn allra tíma væri við stórnvölinn ætti flokkurinn að fá meira en 33 prósent fylgi.

„Versta ríkisstjórn allra tíma.“ Það var nefnilega það.

Ég skal viðurkenna að það fauk í mig.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er mjög langt frá því að vera fullkomin. Ansi margt hefði hún mátt gera betur á þeim rúmu tveim árum sem hún hefur setið.

En að heyra henni lýst sem „verstu ríkisstjórn allra tíma“ er ekki bara rangt, heldur ósvífið.

Þessi ríkisstjórn einkavinavæddi ekki bankana. Þessi ríkisstjórn skálaði ekki í kampavíni við útrásarvíkinga og bankamenn. Þessi ríkisstjórn lét ekki vaða uppi í landinu síðastliðin 15 ár „blekkingar, spillingu, lán til tengdra aðila og aðra siðlausa og glæpsamlega hegðun“ – sjá hér. Þessi ríkisstjórn viðhélt ekki spillingarmóral helmingaskipta og klíkuskapar. Þessi ríkisstjórn flaut ekki sofandi að feigðarósi og sniðgekk vísvitandi allar raddir sem vöruðu við yfirvofandi hruni.

Ónei.

Höfuðból þeirrar ríkisstjórnar sem allt þetta afrekaði var í Valhöll, og mestallan þann tíma sem þar stóðu yfir kampavínsveislur til heiðurs útrásinni og bankabólgunni (ég tala í óeiginlegri merkingu, vona ég), þá var Hanna Birna Kristjánsdóttir þar innsti koppur í búri sem sérlegur aðstoðarmaður Kjartans Gunnarssonar framkvæmdastjóra flokksins og stórs eiganda og stjórnarmanns í Landsbankanum gamla.

Að heyra hana tala um þá ríkisstjórn sem reynir að hreinsa til eftir þetta subbulega partí sem „verstu ríkisstjórn allra tíma“, það gerði mig reiðan.

Jafnvel þó ríkisstjórn Jóhönnu mætti vissulega vera dugmeiri, þá kemst hún ekki nálægt því að vera „versta ríkisstjórn allra tíma“.

Sú stjórn sem það „sæmdarheiti“ verðskuldar er sú stjórn sem kom okkur oní þennan flór, ekki sú sem reynir að moka okkur uppúr honum. Kannski af of veikum mætti, en reynir samt.

Og ef nýr formannskandídat í Sjálfstæðisflokknum ætlar að hefja sinn feril í landsmálum með svona belgingi, blekkingum og billegu flokkspólitísku skítkasti, þá höfum við ekkert við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að gera.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.11.2011 - 16:35 - FB ummæli ()

Regnskógabeltið

Ég kann ekki frönsku og franskur menningarheimur hefur sjaldnast vakið mikinn áhuga hjá mér, þó skömm sé frá að segja.

Heimspekin þeirra og bókmenntafræðin – Derrida, Foucoult og hvað þeir heita … allt þetta er mér lokuð bók og ég hef hreint ekki sóst eftir því að opna hana.

En nú sé ég að fordómarnir gegn hinum franska mennningarheimi hafa líklega verið alltof miklir.

Ég hef til dæmis aldrei haft minnsta áhuga á að lesa Tristes Tropique eftir mannfræðinginn og heimspekinginn Claude Lévi-Strauss.

Jú, vissulega hef ég haft nasasjón af þeim tíðindum sem bókin þótti vera þegar hún kom fyrst út árið 1955. Ætli megi ekki með hæfilegri einföldun segja að þau felist helst í þeirri niðurstöðu höfundarins að svokölluð „frumstæð“ þjóðfélög væru í raun alls ekki svo frábrugðin okkar „háþróaða“ samfélagi.

Uppbygging þeirra væri ósköp svipuð, þegar litið væri undir yfirborðið.

Þetta þótti stórmerkilegt á sínum tíma, enda hafði mannfræði fram að því ekki síst gengið út á að sýna og sanna hve „framandleg“, „öðruvísi“ og „skrýtin“ þessi „frumstæðu“ þjóðfélög væru.

Lévi-Strauss var flokkaður undir „strúktúralisma“ sem í mínum eyrum hljómuðu eins og eitt franska heimspekiþruglið enn, og satt að segja hefur mér aldrei dottið annað í hug en að bók hans hlyti að vera leiðinlegt og torf.

Nú skammast ég mín ákaflega.

Ég er nefnilega að lesa þýðingu Péturs Gunnarssonar á bókinni, sem hann kallar Regnskógabeltið raunamædda, og viti menn!

Þetta er ekki bara læsilegt, heldur bráðskemmtilegt. Ferðasaga, hugleiðingar, athuganir, allt í senn, og þrátt fyrir nafnið er síður en svo nokkur raun að lesa þetta. Ég hef að vísu sterkan grun um að þýðing Péturs sé kannski betri texti en frumtextinn, en frásögn Lévi-Strauss kemur afar skemmtilega á óvart.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.11.2011 - 09:27 - FB ummæli ()

Ekki meiðyrðamál!

Mikið vildi ég að Davíð Þór Jónsson hefði ekki álpast til þess að hóta Maríu Lilju Þrastardóttur málsókn fyrir meiðyrði út af þessari grein hér.

Ég skal að vísu viðurkenna að ég skil vel að Davíð Þór hafi orðið reiður. Pistill Maríu Lilju er að ýmsu leyti út úr öllu korti.

Sér í lagi með hliðsjón af því að pistill hennar á að heita svar við þessari grein Davíðs Þórs.

Ég ætla ekki að fara út í smáatriði í ritdeilu þessari, en það liggur auðvitað í augum uppi að hin upphaflega grein Davíðs Þórs fjallar um notkun á tálbeitum.

Ekki vændi.

Davíð Þór er á móti tálbeitum og því að menn séu með einum eða öðrum hætti sakaðir um glæpi sem þeir hafa ekki (ennþá!) framið.

Og hann hefur fullt leyfi til að hafa þá skoðun.

Ég skal að vísu taka skýrt fram að ég er í stórum dráttum ósammála honum.

Mér finnst oftast í lagi að nota tálbeitur til að sporna gegn glæpum. Þar á meðal vændi og mansali. Vissulega geta tálbeitur stundum verið á býsna gráu svæði siðferðilega og lagalega, einkum ef einkaaðilar taka  upp hjá sjálfum sér að gerast eða nota tálbeitur.

En oft finnst mér það samt geta verið réttlætanlegt.

En Davíð Þór má alveg hafa aðra skoðun. Og hann setti hana fram ósköp æsingalaust í Fréttablaðinu.

Og ég ítreka að ég skil vel að það hafi fokið í hann þegar hann les þau viðbrögð við hugleiðingum sínum að þar hafi hann rekið upp „harmakvein til varnar aumingjans „fórnarlömbum“ hinna illu systra“ – það er að segja Stóru systur.

Og ennfremur að til að uppræta vandann (vændi), þá verði að ráðast að rótum hans sem sé hvorki meira né minna en „brenglað viðhorf karla (eins og greinilega þín) til kynlífs og kvenna“.

Með djúpri virðingu fyrir Maríu Lilju, þá er þetta alveg út í hött.

Pistill hennar virðist reyndar skrifaður sem andsvar við einhverju allt öðru en upphaflegri grein Davíðs Þórs. Hún fordæmir þar vændi mjög kröftuglega, og ekkert nema gott um það að segja.

En Davíð Þór hafði alls ekki verið að réttlæta vændi. Ekki á nokkurn hátt. Og ekki heldur gert lítið úr því.

Greinin var ekki um vændi, heldur um (sjálfskipaðar) tálbeitur.

Og í því tilfelli má Davíð Þór sem fyrr segir alveg hafa sína skoðun, þó hún sé önnur en mín. Uppátæki Stóru systur var vissulega frumlegt og býsna djarft og það er fullkomlega eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á því.

Og þær skoðanir verður fólk að fá að setja fram án þess að vera, eins og Davíð Þór, sakað um að verja og styðja svívirðilega glæpi og jafnvel hafa „brenglað viðhorf … til kynlífs og kvenna“!

Kommon!!

Ég vona að það hljómi ekki yfirlætislega, en ef ég má sem gamall hundur í pistlabransanum gefa Maríu Lilju ráð þá hljóðar það ráð svo:

Lestu vandlega yfir þann texta sem þú ætlar að svara. Athugaðu hvort sterkar skoðanir þínar á málefninu, sem til umræðu er, séu nokkuð að blinda þér sýn á það sem „andstæðingurinn“ er í rauninni að segja. Ef þú lest milli línanna, taktu það þá skýrt fram og farðu varlega – því þér gæti skjátlast.

Hversu góður sem málstaður þinn kann að vera.

En að þessu sögðu, þá vildi ég sem sagt óska að Davíð Þór hefði ekki farið að hóta Maríu Lilju meiðyrðamáli.

Ástæðan er sú að ég er í grundvallaratriðum á móti því að því tré sé veifað.

Að beita meiðyrðalöggjöf finnst mér að ætti einungis að vera örþrifaráð, síðasta úrræði þeirra sem ekki geta svarað fyrir sig með öðrum hætti.

Og það er mála sannast að niðurstaða í meiðyrðadómi skiptir yfirleitt engu máli um það hvernig lokauppgjörið í þrætumálum verður.

Eins og meiðyrðalöggjöfinni hefur verið beitt hér á Íslandi undanfarin ár – einkum gegn heilbrigðri umræðu, en ekki henni til varnar – þá er líka svo komið að maður hefur nánast sjálfkrafa heldur illan bifur á þeim sem slá um sig með meiðyrðamálshótunum.

Og í beinu framhaldi af því: Af hverju í ósköpunum hætta Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson ekki meiðyrðamálum sínum gegn Svavari Halldórssyni fréttamanni á Ríkisútvarpinu?

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki sett mig inn í öll smáatriði þeirra mála, en jafnvel þó þeir ynnu öll heimsins meiðyrðamál gegn fréttamönnum, þá munu þeir „sigrar“ ekki ráða neinu um hver orðstír þeirra verður þegar upp er staðið.

Orðstír ræðst af öðrum þáttum en misvitrum dómurum rýnandi í stórkostlega gallaða meiðyrðalöggjöf.

Málsókn gegn fréttamönnum skilar þvert á móti einungis því að fólk fær á tilfinninguna að það sé verið að reyna að þagga niður umræðu.

Hafi fréttamenn sagt eitthvað rangt, þá er flestum í lófa lagið að svara því þannig að eftir sé tekið – og öflugir áhrifamenn í viðskiptum, stjórnmálum og/eða fjölmiðlum eiga að fara sérstaklega varlega í að hóta meiðyrðamálum.

Einmitt af því þeir hafa öll tækifæri til að svara fyrir sig.

Og það gildir líka um Davíð Þór Jónsson.

Hann er maður fullfrískur í íslenskri umræðuhefð, kemur vel fyrir sig orði, oftast mælskur og orðheppinn og hefur óheftan aðgang að fjölmiðlum og fjölmiðlun.

Hann er eiginlega sá maður sem síst af öllum ætti að þurfa að fara í meiðyrðamál.

Jafnvel þótt María Lilja hafi hlaupið á sig í virðingarverðum ákafa sínum við að berjast gegn vændi, þá hefði Davíð Þór átt að láta nægja að svara með orðum og pistlum.

Ekki hótunum um lögsóknir.

Því með því réttlætir hann notkun annarra á þessu sama vopni, hann skýtur stoðum undir lögmæti þess í opinberri umræðu.

Þegar við ættum þvert á móti að reyna að kveða það sem allra mest í kútinn.

Við eigum að glíma með orðum, jafnvel þó okkur finnist slett framan í okkur dónaskap eða rangfærslum eða illmælgi – slíkt dæmir sig alltaf á endanum sjálft.

En meiðyrðalöggjöfin á að vera lokaúrræði okkar minnstu bræðra og systra, ekki eitt vopnið enn fyrir hina vígfimu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.11.2011 - 07:40 - FB ummæli ()

Ánægja, von og reiði

Umfjöllun Helga Seljan í Kastljósi um Snæbjörn Sigurbjörnsson hefur  vakið ýmsar kenndir.

Ánægju yfir umfjölluninni sjálfri – sem var bersýnilega unnin af mikilli virðingu og þungri alvöru, en lánaðist að gera flókna og erfiða atburðarás skýra og greinargóða. Þetta var vel gert.

Von um að nú þegar mál eins og þetta koma upp á yfirborðið, vissulega alltof seint, þá verði hægt að taka til hendi og sópa burt síðustu leifunum af því mannfjandsamlega kerfi sem varð til þess að ráða örlögum Snæbjörns Sigurbjörnssonar. Því eins og Sigursteinn Másson benti á – þótt geðheilbrigðiskerfið sé nú á dögum mannúðlegra en það var fyrir fáeinum áratugum, þá má alltaf gera betur. En þrátt fyrir að ennþá megi bæta margt, þá eru mál eins og þetta þó loksins að koma upp á yfirborðið.

Trú á að sá tími sé vonandi loksins liðinn að hvers konar yfirvöldum á Íslandi nægi að þegja af sér óþægileg mál. Í stóru sem smáu eigum við að krefjast rækilegrar rannsóknar – því við höfum nú séð á að á svo mörgum sviðum var sú spegilmynd sem blasti við okkur til skamms tíma alröng. Hugmyndir okkar um samfélag okkar sjálfra voru á margan hátt rangar og stundum algjör blekking – allt þetta þarf að rannsaka í þaula. Ekki síst hlutskipti okkar minnstu bræðra og systra.

En umfjöllunin kveikti líka furðu, já, algjöra furðu yfir því að svokallaðir sérfræðingar okkar Íslendinga í geðlækningum skyldu standa svo að málum sem Helgi lýsti í Kastljósinu.

Og reiði, djúpa reiði yfir því hvernig fór fyrir þessum geðsjúka meðbróður okkar, og sorg yfir því að meðferðin á honum viðgekkst svo lengi án þess að nokkur tæki í taumana, fyrr en það var orðið of seint.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.10.2011 - 20:35 - FB ummæli ()

Seinheppinn Karl

Það er eitthvað svo sorglegt við hvað Karl Sigurbjörnsson biskup er seinheppinn maður.

Hann hefur haft mörg tækifæri til að reka af sér slyðruorðið vegna linkulegra viðbragða sinna við málum Ólafs Skúlasonar bæði fyrr og nú, en hann hefur klúðrað hverju tækifærinu af öðru.

Fyrir þetta hefur biskup verið gagnrýndur, stundum nokkuð harkalega, og sjálfsagt má finna dæmi þar sem gagnrýni á biskup hefur farið út í dónaskap og ósmekklegheit.

Slíkt fordæma að sjálfsögðu allir góðir menn.

En fáein rotin epli í „bloggheimum“ eiga ekki að verða biskupi Íslands tilefni til að kveinka sér jafn ákaflega og hann gerði í prédikun sinni í dag, og fjölmiðlar hafa sagt frá.

Karl Sigurbjörnsson hefur ýmislegt ágætt sagt úr sínum prédikunarstóli eftir hrunið. Hann hefur tekið þátt í þeim fjölradda kór sem gagnrýnt hefur glannaskap útrásarvíkinga og bankamanna, og ráðleysisleg stjórnvöld.

En vegna þess að hann sjálfur hefur nú legið undir ámæli, þá hefur hann skyndilega hrokkið upp við að gagnrýnin sé kannski alltof harkaleg.

„Er það ekki makalaust hvernig sleggjudómarnir og upphrópanirnar hafa einatt tekið yfir. Það er gömul saga og ný. Ærumeiðingar og mannorðsmorð eru daglegt brauð í opinberri orðræðu fjölmiðla og bloggheima. Það er alvarlegt samfélagsmein og ógnun við grundvöll heilbrigðs þjóðfélags.

Við erum í sorg, þessi þjóð, sem fyrir nokkrum árum taldist ein sú hamingjusamasta í heimi.

Bankahrunið og meðfylgjandi þrengingar heimila og fjölskyldna, vonleysið og neikvæðnin hafa lagst þungt á þjóðarsálina. Leitin að sökudólgum og blórabögglum tekur á og reiðin spýtir galli sínu um þjóðarlíkamann. En hún mun engu skila! Þar er ekki sannleikann að finna, lausnirnar, framtíðina. Það mun ekki heldur fást í vísitölum og greiningum. Engar hagtölur hugga í sorg. Hvað þá hatrið og hefndin. Heldur hin andlegu verðmæti, andlegu viðmið, sem beina sjónum sálar og anda til birtunnar. Sannleikurinn. Og sem helst og fremst verður tjáður og þekktur með ljóði og list, söng og bæn, elsku til Guðs og náungans.

Andspænis sannleikanum er hin hljóðláta lotning, virðing og hógværð ein við hæfi. Ekki hróp og köll og formælingar.“

Þetta voru orð Karls. Bankahrunið veldur reiði sem kveikir hatur sem kveikir sleggjudóma og upphrópanir.

Eins og hann hefur orðið fyrir, liggur milli línanna.

Nú mættu ýmsir alveg hugleiða með sjálfum sér hvort þeir ganga ekki of langt í orðbragði á netinu. Sumt af því sem þar birtist – einkum nafnlaust – er vitanlega fyrir neðan allar hellur.

En það er minnihlutinn. Meirihlutinn er heiðarlegt, réttsýnt fólk að tjá sig – stundum smekklega, stundum ósmekklega eins og gengur, en verðskuldar ekki að teljast „ógnun við grundvöll heilbrigðs þjóðfélags“.

Og að biskup stökkvi fram og viðri þessar áhyggjur þessar fáeinum dögum eða vikum áður en eitthvert kirkjuþingið hefst, þar sem framtíð hans á biskupsstóli mun ráðast, það er … ja, seinheppið, skulum við segja.

Það er reyndar mjög kurteislega valið orð hjá mér.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.10.2011 - 14:40 - FB ummæli ()

Maðurinn sem vann Fischer

Sumarið 1972 var ég í sveit á Ströndunum. Heimsmeistaraeinvígið í skák fór þess vegna algjörlega framhjá mér, ég vissi varla hvað var á seyði.

Nú bregður svo skemmtilega við að tvær glæpasögur koma út næstu dagana þar sem heimsmeistaraeinvígið er í bakgrunni viðburða.

Arnaldur Indriðason gefur út sína bók sem heitir Einvígið, og Óttar M. Norðfjörð er með bók sem heitir Lygarinn.

Arnald þekkjum við öll, en Óttar hefur verið  vaxandi reyfarahöfundur hér á landi, og margir munu vafalaust hafa gaman af að bera þessar bækur saman.

Útgefandi Óttars hefur nú vakið athygli á skemmtilegri staðreynd.

Árið 1962, áratug fyrir einvígið við Spassky í Laugardalshöllinni, þá tefldi hinn ungi snillingur Bobby Fischer fjöltefli í Kaupmannahöfn.

Aðeins 41 skákmaður fékk að taka þátt í fjölteflinu við meistarann, og meðal þeirra var ungur íslenskur nemi í arkitektúr, Sverrir Norðfjörð.

Sverrir gerði sér lítið fyrir og vann Fischer, sem ekki var heiglum hent. Hann er því eini Íslendingurinn sem vitað er til að hafi unnið Fischer í skák – þótt í fjöltefli hafi verið. Hinn er vitaskuld Friðrik Ólafsson.

Sverrir er faðir Óttars Norðfjörð, sem nú hefur sem sé skrifað bók um einvígið. Og þegar bókin kemur út á morgun klukkan 5 ætlar Óttar að bjóða gestum og gangandi að tefla í bókabúð Eymundssonar við Skólavörðustíg. Náttúrlega á skákborðinu sem Fischer og Spassky árituðu.

Þetta er lítill heimur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!