
Reglulega birtast fréttir í fjölmiðlum um hve Íslendingar eru orðnir feitir. Þegar farið er yfir gömul dagblöð má finna dæmi um slíka umfjöllun allt að 40 ár aftur í tímann, og það sem vekur athygli, er að viðkvæðið er alltaf það sama: Óháð því hversu feitir Íslendingar hafa verið á hverjum tíma þá hefur sífellt verið argað yfir því að þeir séu ALLTOF feitir. Af þessu má draga tvennskonar ályktanir:
1) Ekkert magn af fitu virðist ásættanlegt. Það er alveg sama hversu hátt hlutfall fólks telst vera feitt í raun og veru, það er alltaf tilefni til opinberra æðiskasta. Árið 1975 voru minna en 10% fullorðinna Íslendinga of feit en eins og myndin hér að ofan sýnir var það hlutfall samt sem áður alltof hátt.
2) Allt þetta arg og garg um hvað við erum feit hefur ekki haft nokkur einustu áhrif á þyngdarþróun Íslendinga nema hugsanlega þveröfug við það sem vonast var til. Það eina sem hefur gerst frá því að opinber þráhyggja um holdafar, mat og hreyfingu fór af stað fyrir alvöru er að fólk hefur fitnað, átvandamál hafa aukist og megrunariðnaðurinn hefur vaxið ár frá ári.
Nýlega varð allt vitlaust einu sinni enn. Sprengjunni var varpað þegar sagt var frá því í fréttatíma Stöðvar 2 að ný skýrsla á vegum velferðarráðuneytisins hefði leitt í ljós að við værum næst feitasta þjóð Vesturlanda. Aðeins Bandaríkjamenn væru feitari en við og það var ekki að spyrja að því: Netheimar hafa logað allar götur síðan, heilsubloggarar landsins hafa beinlínis sopið hveljur af hugaræsingi og ekki hefur verið um annað rætt á kaffistofum landsmanna síðustu vikur. Getur þetta verið??? Ó hvað þetta er hryllilegt! Svo feit, svo feit!!!
Jæja. Áður en staðreyndir málsins verða viðraðar nánar langar mig að benda á að lífsvenjur þjóðarinnar hafa stöðugt verið að færast í átt til aukins heilbrigðis og langlífis undanfarna áratugi. Samhliða þessum endalausa barlómi um hvað við erum feit hefur dregið úr reykingum, kaffidrykkja hefur vikið fyrir aukinni vatnsdrykkju, neysla grænmetis- og ávaxta hefur aukist, sömuleiðis hreyfing í frístundum svo um munar, tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, sem fyrir 40 árum var á uppleið, hefur stöðugt farið minnkandi og lífslíkur hafa aukist ár frá ári. En það skiptir auðvitað engu máli því við erum svo feit.
Við erum samt ekki (næst) feitust í heimi. Þegar skýrsla velferðarráðuneytisins er gaumgæfð sést glögglega að Ísland er enn í 6. sæti OECD ríkja hvað tíðni offitu snertir (bls. 13). Alveg eins og við vorum í fyrra. Þá varð reyndar allt brjálað yfir því að við værum í 6. sætinu…en hvað um það. Sú niðurstaða að við séum næst feitust er (ranglega) fengin þegar þeim sem teljast of þungir (BMI 25 og yfir) og þeim sem teljast of feitir (BMI 30 og yfir) er skellt saman í einn flokk. En hér þarf að athuga tvö mikilvæg atriði:
1. Þeir sem teljast of þungir eru ekki endilega feitir heldur er algengt að þessi þyngdarflokkur innihaldi fólk sem er sterklega byggt og í góðu líkamlegu formi. Þetta á sérstaklega við um karlmenn því sá karlmaður er vandfundinn sem hefur einhvern vöðvamassa en telst samt vera í „kjörþyngd“. Tom Cruise, Brad Pitt og George Clooney eru til dæmis allir „of þungir“ samkvæmt stöðlum. Reyndar er Tom Cruise yfir offitumörkum. Þetta undirstrikar hversu lélegur mælikvarði á holdafar, hvað þá heilbrigði, blessaður BMI stuðullinn er. Það kæmi sannarlega ekki á óvart þótt sjálfur íþróttaálfurinn væri yfir kjörþyngd þrátt fyrir að hann bölsótist nú yfir öðrum sem dvelja utan þeirra marka.
2. Listinn yfir þjóðirnar sem Íslendingar voru bornir saman við og átti að sýna að við værum „næst feitust“ innihélt ekki þær þjóðir sem hafa hærri tíðni offitu en við að Bandaríkjunum frátöldum. Það er vegna þess að sumar þjóðir gefa ekki upp hlutfall fólks í „ofþyngd“ – enda eins og við sjáum hér fyrir ofan getur sá flokkur verið ansi villandi. Á þennan lista vantar lönd eins og Bretland, Ástralíu og Nýja Sjáland, sem öll hafa hærri offitutíðni en Ísland, og þess vegna lendum við í „öðru sæti“.
Það sem ég velti fyrir mér er af hverju hefur enginn leiðrétt þetta? Af hverju eru svona rangfærslur látnar veltast í umræðunni vikum saman án þess að neinn dragi fram staðreyndir málsins? Þetta staðfestir í það minnsta að enginn þeirra sjálfskipuðu heilsuspekinga, sem hafa æpt og gólað undanfarnar vikur yfir þeim harmafregnum að við séum næst feitasta þjóð Vesturlanda, hefur raunverulega haft fyrir því að lesa skýrsluna sjálfa.