Laugardagur 4.2.2012 - 15:32 - 1 ummæli

Stöndum saman!

Í ársbyrjun ýtti Íslandsvinurinn Marilyn Wann út vör mótmælaherferð gegn afar umdeildum auglýsingum á vegum Barnaheilsugæslunnar í Atlanta í Georgíufylki í Bandaríkjunum þar sem dregið er fram hversu ömurlegt hlutskipti það sé að vera feitt barn og gefið í skyn að það sé foreldrum þeirra að kenna. Einnig má lesa úr auglýsingunum að holdafar barnanna beinlínis kalli á stríðni og útskúfun. Þetta er algengt stef í umræðu um offitu barna en sem betur fer eru sífellt fleiri farnir að átta sig á því hversu skaðleg og niðrandi slík skilaboð eru.

Hugmyndin er því að hvetja fólk til að taka afstöðu gegn herferðum af þessu tagi og vekja athygli á því að heilbrigði og hamingja eru ekki bundnar við tiltekið holdafar. Feit börn – rétt eins og öll önnur börn – þurfa á ást, umhyggju og samþykki annarra að halda. Reyndar þurfa þau þetta enn frekar þar sem spjót umhverfisins standa gegn þeim. Að draga þau í dilka, varpa neikvæðu ljósi á líf þeirra og gera líkama þeirra að ömurlegu vandamáli sem er þessum eða hinum að kenna þjónar klárlega ekki þeim tilgangi.

Allir geta tekið þátt í andspyrnuherferðinni með því að senda inn myndir af sér ásamt staðhæfingum um það sem þeir vilja standa fyrir – eða gegn – í tengslum við líkamsvirðingu og stríðið gegn offitu. Afraksturinn einstaklega fjölbreyttur og hrífandi og gefur okkur von um betri heim þar sem allir eru velkomnir.

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

Miðvikudagur 1.2.2012 - 22:31 - 2 ummæli

Ræktin

Ég fékk e-mail um daginn frá líkamsræktarstöðinni minni hérna úti í Kaupmannahöfn. Í því var einhvers konar fréttabréf þar sem meðal annars var varað við því að drekka of mikið af ávaxtasafa, því í honum leyndust svo ægilega margar hitaeiningar. Ég hafði svo sem heyrt þetta áður og velti fyrir mér hvers konar hlutverk þessi líkamsræktarstöð hefur tekið að sér. Hvers vegna fannst þeim nauðsynlegt að senda kúnnum sínum þessar upplýsingar? Eiga þær erindi við alla þá sem stunda líkamsrækt? Ég er ein af þeim sem stunda líkamsrækt mér til heilsubótar og ánægju og hef því ekkert að gera við þessar upplýsingar, en engu að síður fannst mér þessi varúðarorð um ávaxtasafa hafa áhrif á mig. Ég er auðvitað ekkert að þamba tvo lítra af ávaxtasafa á dag en mér finnst samt glatað að nú sé líkamsræktarstöðin mín hálfpartinn búin að banna mér að fá mér ávaxtasafa ef mig langar í hann.

Það er erfitt að finna þá líkamsræktarstöð sem ekki leggur höfuðáherslu á þyngdartap í auglýsingum sínum. Alls staðar er lögð áhersla á brennslu og hitaeiningar. Það er eins og maður komist ekki hjá því að þessum skilaboðum sé troðið ofan í kokið á manni hvert sem maður fer. Þetta á ekki einungis við um þá sem standa á bak við auglýsingar líkamsræktarstöðva, heldur einnig þá sem standa manni næst. Ef ég er dugleg að fara í ræktina fæ ég athugasemdir eins og „á nú að fara að hrista af sér spikið?“ eða „á að koma sér í kjólinn fyrir jólin?“. Nei, ég fer í ræktina vegna þess að mér líður vel af því en ekki vegna þess að ég vil þröngva líkama mínum í eitthvað ákveðið form.

Fólkið sem birtist í auglýsingum líkamsræktarstöðva er yfirleitt rosalega brúnt og skorið og endurspeglar ímynd þess að vera „í formi“. En hvað er að vera „í formi“? Er það að vera búinn að massa sig upp og skera sig niður, og þar með að passa í eitthvað ákveðið form sem samfélagið hefur ákveðið að er fallegast? Eða er það að geta hlaupið hratt og lengi, lyft mörgu og þungu og gert ýmsar kúnstir? Sumir telja að þetta tvennt fari saman en ég komst hins vegar að því þegar ég var í menntaskóla, mér til mikillar furðu, að þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Á menntaskólaárunum var ég nefnilega ein af þeim sem mætti í spinning tíma til þess að brenna allt að 900 hitaeiningum (það var það sem líkamsræktarstöðin lofaði), og fylgdist grannt með hitaeiningateljaranum á hlaupabrettinu þegar ég hljóp á því. Ég reyndi að gera jafn margar magaæfingar og Britney Spears (1000 magaæfingar á dag, takk fyrir), enda engin kona með jafn frægt six pack og hún á þeim tíma. Þess vegna kom það mér sífellt á óvart að í leikfimitímum í skólanum gat ég nákvæmlega ekki neitt. Ég var alltaf síðust að hlaupa hringinn í kringum tjörnina á meðan þybbnar skólasystur þutu fram hjá mér á ljóshraða. Hvernig gat það verið að þybbnar stelpur gætu hlaupið svona hratt? Gat það verið að magn líkamsfitu hefði lítið sem ekkert að gera með líkamlegt þol og úthald?

Því skil ég ekki hvers vegna líkamsrækt er ekki bara einmitt það; LÍKAMS-RÆKT?  Hefur fólk leyfi til þess að mæta í líkamsræktarstöð án þess að vera í einhvers konar niðurskurðarpælingum? Hérna myndu margir svara „já“ en einungis með granna manneskju í huga. Hvað með feitt fólk? Má það hreyfa sig ánægjunnar og heilsunnar vegna? Má það mæta í ræktina með það markmið eingöngu að viðhalda úthaldi, þreki, styrk og vellíðan? Ég vil sjá líkamsræktarstöðvar beina fólki í þá átt að efla líkama sinn í stað þess að vera stanslaust að þrýsta á fólk að vera í megrun, aðhaldi, átaki, mótun eða hvað fólk vill kalla það. Burt með hitaeiningar og fituprósentur og inn með styrk, úthald, vellíðan, skemmtun og alvöru líkamsrækt!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.1.2012 - 12:41 - 1 ummæli

Af hverju megrun er ekki góð hugmynd…

Hér er ný grein úr New York Times sem á vel við í upphafi ársins. Þar er fjallað um viðbrögð líkamans við megrun og útskýrt ágætlega af hverju það er svona gríðarlega erfitt að grennast með varanlegum hætti. Það vekur þó furðu mína að höfundi greinarinnar virðist gjörsamlega fyrirmunað að koma auga á rökrétta niðurstöðu af þessu öllu saman – sem er að við ættum einmitt ekki að reyna að grennast heldur að búa okkur til heilbrigt og gott líf sem við getum lifað í sátt við líkama okkar. Með öðrum orðum, tileinkað okkur heilbrigði óháð holdafari.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Megrun · Þyngdarstjórnun

Þriðjudagur 27.12.2011 - 12:00 - 1 ummæli

Ár líkamsvirðingar

Kæru landsmenn og konur. Megi árið 2012 verða ár líkamsvirðingar í lífum ykkar. Megið þið læra að elska líkama ykkar og bera virðingu fyrir þörfum hans og útliti. Megið þið læra að þekkja, hlusta á og hugsa um líkama ykkar af alúð og væntumþykju – og megið þið læra að líta líkama annars fólks, í öllum sínum fjölbreytileika, með velþóknun og virðingu í stað vanþóknunar og hneykslunar.

Ef þið viljið þá getur stríðinu við líkamann lokið núna strax.

Flokkar: Líkamsvirðing

Mánudagur 5.12.2011 - 21:55 - 3 ummæli

Hin hamingjusama brúður?

Áhugi fólks á brúðkaupum endurspeglast vel í hinu gríðarlega áhorfi á og umfjöllun um hið breska konunglega brúðkaup þann 29. apríl síðastliðinn. Fjölmiðlar bjuggu til fréttir úr öllum minnstu smáatriðum um brúðkaupið. Fólk tók andköf þegar það sá Kötu í kjólnum, þegar Vilhjálmur leit á Kötu í fyrsta sinn og þegar þau kysstust tvisvar fyrir framan alla. Það sem var þó einna mest áberandi í umfjölluninni var vaxtarlag Kötu. Við heyrðum fréttir af því að hún hefði þurft að láta minnka giftingarhringinn svo hann passaði á hana á stóra daginn. Á sama tíma og fjallað var um grannan líkamsvöxt Kötu var fjallað um hversu falleg og fullkomin hún var í kjólnum, nánast þannig að litið var á hana sem einhvers konar yfirnáttúrulegan engil sem flaut um í fallegasta kjól veraldar. Dýrkun á grönnu brúðinni fór ekki á milli mála og þetta er ekki eina tilfellið.

Opinber umræða um megrun fyrir brúðkaup verður meira áberandi með hverju árinu. Við sjáum raunveruleikaþætti eins og „FIT TO BE WED – America’s Boot Camp for Brides“  og „Shedding for the Wedding“. Einnig hafa verið gefnar út sérstakar megrunarbækur fyrir brúðir, t.d. „The Perfect Bride – The Complete Beauty, Diet and Exercise Countdown“ og „The Wedding Dress Diet“. Auðvitað er þessi boðskapur sérstaklega ætlaður brúðinni, en ekki brúðgumanum.

Rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2008 á konum sem voru á leið í hjónaband, sýndi að yfir 70% þátttakenda reyndu að létta sig og 21% vildu koma í veg fyrir þyngdaraukningu fyrir brúðkaupið. Aðeins 9% hafði ekki í hyggju að reyna að stjórna þyngd sinni fyrir brúðkaupið. Um 46% þeirra sem vildu létta sig og 19% þeirra sem vildu koma í veg fyrir þyngdaraukningu notuðu eina eða fleiri öfgakenndar aðferðir til að grennast, t.d. að sleppa máltíðum, taka megrunarpillur, fasta í einn eða fleiri daga, byrja að reykja eða taka laxerolíu. Fjórtán prósent þátttakenda keyptu brúðarkjólinn sinn viljandi í of lítilli stærð til að geta grennt sig í kjólinn.

Það fer óþægilegur hrollur um mig þegar ég hugsa til þess að yfir 90% kvennanna hafi haft áhyggjur af þyngd sinni fyrir brúðkaupið sitt. Þessar niðurstöður eru ekki aðeins áhyggjuefni útaf fyrir sig, heldur hefur önnur rannsókn sýnt að um 3% kvenna sem fara í megrun enda með átröskun. Hversu margar konur ætli hafi þróað með sér átröskun í kjölfar megrunar fyrir brúðkaup?

Megrunarumfjöllun í tengslum við brúðkaup virðist vera að skila sér, því konur í samfélaginu eru farnar að taka skilaboðin til sín. Upphafning hinnar grönnu brúðar er meira áberandi og áhersla á fegurð brúðarinnar hefur aldrei verið meiri. Fjölmiðlar veltu sér stanslaust upp úr fatastærð Kötu prinsessu, eins og við ættum allar að vilja stefna að sama marki og hún. Umfjöllun um þyngd og fatastærðir stjarnanna, sérstaklega þeirra sem eru dýrkaðar jafn mikið og Kata, getur verið neistinn sem þarf til að konur þrói með sér átröskun. Konur geta farið að hugsa „Ef hún getur það, þá get ég það“ og „Ég verð að vera jafn mjó og hún, annars er ég ekki falleg“.

Um leið og áherslan á grannan líkamsvöxt er alls ráðandi í okkar samfélagi er þrýstingurinn mikill á konur að vera fallegar á brúðkaupsdaginn. Allt í einu er grannur líkamsvöxtur orðinn aðalmarkmið kvenna fyrir brúðkaupsdaginn. Maður hefði haldið að undirbúningur fyrir hjónaband væri mikilvægari. Tilvonandi brúðhjón ættu að einbeita sér að gildum til að láta hjónabandið endast og undirbúa sig andlega undir þessa fallegu athöfn. Það sem ætti að vera mikilvægasta markmiðið við brúðkaupsundirbúning er að láta daginn vera sem eftirminnilegastan, í stað þess að rembast við að grenna sig og hætta á að vera orðin örmagna af næringarskorti og þreytu á daginn sjálfan. Þó að það sé gaman að klæða sig upp í sitt fínasta púss á þessum hátíðardegi, þýðir það ekki að þessi dagur eigi að snúast um útlitið eingöngu, og þá sérstaklega ekki um magn líkamsfitu!

Flokkar: Megrun · Útlitskröfur

Mánudagur 28.11.2011 - 14:24 - 2 ummæli

Núna!

Mörgum kann að finnast slagorðið „lifðu í núinu“ hálfgerð klisja sem það ef til vill er en þrátt fyrir það getum við sennilega flest tekið það til okkar að einhverju leyti. Mörg okkar eru í stöðugri leit að auknum lífsgæðum og sífellt á leiðinni eitthvað, að bíða eftir að eitthvað gerist, að morgundagurinn færi okkur aukna hamingju og betra líf. Ef til vill skyldi engan undra þar sem okkur er að vissu leyti innrætt þessi hugsun frá unga aldri, leikskólabörnum er sagt að bráðum verði þau „stór“ og byrji í grunnskóla, grunnskólabörnum er sagt að búa sig undir hin alræmdu unglingsár, unglingunum er sagt að búa sig undir framhaldsskólanám (hver hefur ekki heyrt að það eigi að vera skemmtilegustu árin í lífinu?) og framhaldsskólanemum stundum sagt að háskólanám sé næsta skref, að þá „verði maður eitthvað“. Að sjálfsögðu er skynsamlegt og nauðsynlegt að búa sig undir það sem koma skal og það er gott og gaman að hafa eitthvað að hlakka til. En er samt ekki möguleiki á því að með þessum hugsunarhætti sláum við lífinu og lífsánægjunni að einhverju leyti á frest?

Þessi hugsunarháttur virðist ríkjandi hjá mörgum þegar kemur að sjálfsrækt og lífshamingju. Margir stefna á að verða eitthvað annað eða öðruvísi en þeir eru nú. Það þykir eðlilegt og stundum jafnvel hálfgerð dyggð að vera ósáttur við sjálfan sig og flestir virðast geta fundið eitthvað í fari sínu sem þeir myndu vilja breyta, oft eitthvað útlitstengt. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem strangar útlitskröfur samfélagsins dynja á fólki úr öllum áttum, ekki bara frá fjölmiðlum, þó þar sé auðvitað af nógu að taka, heldur líka í samræðum manna á milli. Þessar kröfur um ákveðið útlit enduróma í okkur sjálfum. Hver kannast ekki við að hafa heyrt eitthvað á borð við þetta:

„Á morgun skal mataræðið tekið í gegn! Á morgun skal hundskast í ræktina! Á nýja árinu hefst aðhaldið og meinlætalífið!“

eða

„Ég get ekki farið í frí til sólarlanda fyrr en ég er orðin bikíníhæf!“ „Ég verð að vera tíu kílóum léttari þegar ég gifti mig!“ „Ég verð ekki sátt við sjálfa(n) mig fyrr en ég hef losað mig við fitupúkann!“ „Ég get ekki gengið í svona fötum fyrr en ég er komin(n) í form!“

Kröfur samfélagsins og fólks til sjálfs sín um ákveðið útlit eru vægast sagt ósanngjarnar. Fólk slær lífshamingju sinni á frest þar til markmiðum um ákveðið útlit hefur verið náð. Fæstir ná þessum markmiðum sem er ávísun á fátt annað en vonbrigði, depurð og sjálfsniðurrif og leiðir til þess að fæstir leyfa sér að njóta lífsins til fulls. Hversu dapurleg er sú tilhugsun? Til hvers er lífið ef ekki til að njóta þess?

Ég legg til að við hættum að eyða dýrmætum tíma okkar og orku í tilgangslausa  og óæskilega drauma (eða martraðir?) sem aldrei rætast og óraunhæf markmið sem aldrei nást, ættleidd frá útlits-, megrunar- og heilsuiðnaðinum. Hættum að hugsa um kílóin, fatastærðirnar og allt það sem engu máli skiptir. Leyfum okkur að þykja vænt um okkur nákvæmlega eins og við erum núna, ekki eins og við viljum vera á morgun, eftir mánuð eða einhver ár. Verum þakklát fyrir lífið og líkamann sem okkur var gefinn og nýtum hverja stund til fullnustu. Munum að njóta líðandi stundar í sátt við okkur sjálf, ekki seinna en núna!

Flokkar: Líkamsvirðing

Mánudagur 21.11.2011 - 15:52 - Rita ummæli

F-orðið

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða þýðingu orðið „feitur“ hefur í okkar daglega tali. Það er augljóst að við getum ekki notað þetta orð á jafn hlutlausan hátt og orðið „hávaxinn“ eða „dökkhærður“. En hvers vegna?

Megrun getur verið mjög félagslegt fyrirbæri, sem birtist m.a. í að fólk hrósar hvert öðru í hástert ef það hefur grennst. Við könnumst flest við þetta: „Mikið líturðu vel út! Hefurðu grennst?“ Með þessum orðum erum við þó óbeint að gefa í skyn að manneskjan hafi ekki verið með eftirsóknarverðan líkamsvöxt áður en hún grenntist.  Alls staðar eru skilaboðin þau að einn líkamsvöxtur sé æskilegri en hinn og við reynum því að öðlast þennan tiltekna líkamsvöxt með öllum tilteknum ráðum. Ímyndum okkur samfélag þar sem það þætti óæskilegt að vera rauðhærður. Þá þætti niðrandi að vera kallaður rauðhærður og venjan væri að hrósa rauðhærðum alltaf ef þeir lita á sér hárið en þegja bara ef þeir gera það ekki. Ef samfélagið væri markvisst á móti því að fólk væri rauðhært myndu rauðhærðir líklega lita á sér hárið einu sinni í viku til að fá samþykki og hrós frá fólki í umhverfinu. Svona er þetta í raun og veru með feitan líkamsvöxt. Félagsleg styrking megrunar og refsing þyngdaraukningar er gríðarleg í okkar samfélagi, sem hefur í för með sér alls konar vandamál, t.d. átröskun, lítið sjálfsálit feitra (og grannra sem finnast þeir vera feitir), og að margir nota heilsuskemmandi leiðir til að grennast. Feitt fólk vildi óska þess að það væri grannt og grannt fólk berst við að verða ekki feitt. Þeim fáu sem tekst að grenna sig, sverja þess eið að fitna aldrei aftur.

Fituhræðslan birtist á mörgum stöðum, jafnvel þannig að við hættum að taka eftir því. Hver kannast ekki við spurninguna „Er ég búin að fitna?“. Þá svarar maður yfirleitt „nei, hvaða vitleysa“ eða „nei, þú ert ekkert feit!“ Þessi svör eiga að láta viðkomandi líða betur, því það þykir mjög særandi að vera kallaður feitur. Ég leyfi mér að halda þeirri sorglegu staðreynd fram að mörgum þyki verra að vera kallaður feitur heldur en heimskur, latur, hrokafullur, leiðinlegur eða þaðan af verri lýsingarorðum. Ástæðan er sú að F-orðið er mjög gildishlaðið orð. Í daglegu tali er ítrekað gefið í skyn að feitt fólk sé latt, ógeðslegt, ljótt, heimskt og jafnvel geðveikt. F-orðið hefur verið notað á niðrandi hátt og þar af leiðandi finnst okkur hræðilegt að vera kölluð feit. Við könnumst öll við það þegar einhver segir eitthvað sem mögulega mætti túlka sem athugasemd um feitan líkamsvöxt og viðbrögðin eru „ERTU AÐ SEGJA AÐ ÉG SÉ FEIT?!“. Ég  hef ekki orðið vör við sömu viðbrögð þegar einhver er ásakaður um að vera latur eða leiðinlegur, svo ég nefni dæmi. Það að vera kallaður feitur er særandi vegna þess að samfélagið hefur upphafið grannan líkamsvöxt sem þann eina rétta og allt annað er talið óæskilegt, ljótt og ógeðslegt. Ef allt væri hins vegar eðlilegt væri það ekki svona rosalega særandi að vera kallaður feitur.

Fitufordómar hafa líka ollið því að það er alltof algengt að feitt fólk sé baktalað vegna útlits síns. Fólk veltir fyrir sér hvað manneskjan borði eiginlega, hvort hún hreyfi sig ekki neitt, hvort hún borði mikið nammi, snakk og gos. Fólk spyr „ætlar hún ekkert að gera neitt í þessu?“ og „hvernig gat hún leyft þessu að gerast?“ Ég hef oft orðið vör við að fólk velti sér upp úr einkalífi feitra og verði hissa ef manneskjan á í ástarsambandi við einhvern. Mörgum finnst það jafnvel fyndið og gerir grín að því hversu ógeðslegt kynlíf þess hljóti að vera. Um daginn sá ég umræður á facebook þar sem feitt fólk var kallað spikfeitir hlunkar og sjónmengun, allt saman undir yfirskini húmorsins.

F-orðið er notað á mjög niðrandi hátt í daglegu tali. Vegna þeirra rótgrónu fitufordóma sem ríkja í okkar samfélagi erum við nánast öll hrædd við að verða feit, eins og það sé botn tilverunnar að verða stimpluð þessum ömurlega stimpli. Til þess að við getum byrjað að nota þetta orð á hlutlausan hátt þurfum við að útrýma fitufordómum sem eru slæmir fyrir okkur öll. Við þurfum að endurhugsa hvernig við tölum um líkamsfitu og kenna börnum okkar að mismunandi líkamsvöxtur er eðlilegur. Allir eiga rétt á því að líða vel í eigin skinni, sama hvort þeir séu feitir, grannir, mjúkir, stinnir, þybbnir, mjóir, stubbar eða slánar, án þess að verða fyrir fordómum og vera mismunað eftir líkamsvexti.

Flokkar: Fitufordómar · Útlitskröfur

Laugardagur 19.11.2011 - 09:45 - Rita ummæli

Siglt undir fölsku flaggi

Góð vinkona benti mér á konu að nafni Nancy Upton. Nancy þessi ákvað að taka þátt í keppni á vegum bandaríska tískuvörurisans American Apparel en þeir stóðu fyrir auglýsingaherferð þar sem þeir ákváðu að auka úrvalið í verslunum sínum og bjóða upp á „plus-size“ föt, það er föt fyrir konur sem nota stærri flíkur en hafa verið seldar í verslunum þeirra hingað til. Í tilefni þess ákváðu American Apparel að efna til samkeppni meðal kvenna í Bandaríkjunum til þess að finna „stóra“ fyrirsætu fyrir þessa nýju fatalínu. Í tengslum við það má nefna, eins kaldhæðnislegt og það er, að konur eins og Nancy eru skilgreindar sem stórar/feitar af tískuiðnaðinum, jafnvel þótt þær séu í meðallagi ef litið er til dreifingar holdafars fólks almennt.
Fólk hefur dregið í efa að ástæðurnar að baki þessari herferð American Apparel séu góðmennska þeirra og einlægur vilji til að útrýma fitufordómum þar sem fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots og sárvantar fleiri viðskiptavini. Auk þess hermir almannarómur að stefna fyrirtækisins varðandi holdafar starfsmanna sé skýr – þar vinnur aðeins fólk sem að mati fyrirtækisins er fallegt og notar ekki föt yfir ákveðinni stærð. Ekki mikil virðing borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins á þeim bæ ef þetta er satt! American Apparel hefur auk þess löngum sætt gagnrýni fyrir umdeildar auglýsingaherferðir þar sem fyrirsæturnar eru oft barnungar og myndirnar sem birtast í auglýsingum þeirra hlaðnar augljósum kynferðislegum tilvísunum og hafa sterka tilhneigingu til að hlutgera konur. Nancy mislíkaði hvernig plus-size auglýsingaherferðin var sett fram, fannst hún niðurlægjandi og tala í niðrandi tón til þeirra sem auglýsingunni var beint að. Hún ákvað því að grípa til sinna ráða, snúa vörn í sókn og fá vinkonu sína í lið með sér. Saman unnu þær myndaþátt sem er frábær ádeila á American Apparel og þau skilaboð sem fyrirtækið og tískuiðnaðurinn almennt senda almenningi um holdafar og útlit. Almenningur kaus svo milli keppenda á netinu – skemmst er frá því að segja að Nancy sigraði. American Apparel vildu ekki viðurkenna sigur hennar og Nancy hafði áður sjálf ekki sagst vilja vinna fyrir fyrirtækið ef til þess kæmi að hún sigraði en frekari eftirmál má lesa um á síðu Nancyar. Ljósmyndir þeirra vinkvenna og skrif Nancyar tala sínu máli.

Flokkar: Fjölbreytileiki · Samfélagsbarátta · Tíska · Útlitskröfur

Mánudagur 14.11.2011 - 21:14 - 3 ummæli

Hinn þögli dauði

Það er ekki fyrr búið að kveða eina heimsendafréttina í kútinn en önnur sprettur upp. Fjölmiðlar á Íslandi virðast alveg staðráðnir í því að hér skuli ríkja óslitið neyðarástand yfir holdafari þjóðarinnar. Í dag birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu um að níu manns hafi dáið „úr offitu frá árinu 2002 og rætt við forstöðulækni Hjartaverndar sem spáir hér hörmungum á hörmunar ofan takist ekki að draga úr þyngd þjóðarinnar. Í þessari frétt er síðan aftur hamrað á þeirri rangfærslu að við séum næst feitasta þjóð Vesturlanda. Maður veit varla hvar á að byrja.

1. Það er ekki hægt að deyja úr offitu. Feitt fólk deyr af sömu orsökum og aðrir, þ.e. úr sjúkdómum (eins og krabbameini, kransæðastíflu o.fl.) eða af slysförum. Það væri hægt að halda því fram að 9 dauðsföll hafi mátt rekja til offitu á þessu tímabili en það vekur upp ýmsar spurningar. Hvernig er hægt að gefa sér að fitan sem slík sé sökudólgurinn? Hvað með þætti eins með mataræði? Hreyfingu? Streitu? Þyngdarsveiflur? Við vitum ekkert annað en að 9 feitar manneskjur hafi látið lífið og holdafari þeirra verið kennt um.

2. Það er ekki hægt að álykta um þróun mála út frá örfáum dauðsföllum yfir tiltölulega stuttan tíma – hver svo sem orsökin er. Við getum þess vegna ekki vitað hvort fleiri dauðsföll megi nú rekja til offitu en áður. Hvað vitum við nema „offita“ sé einfaldlega oftar sett á dánarvottorð feitra einstaklinga nú en áður?

3. Fjaðrafok yfir níu dauðsföllum yfir átta ára tímabil kemur spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að hér á landi eru 250 dauðsföll árlega rakin til reykinga. Af hverju er það ekki stöðugt á forsíðum dagblaðanna? Tæplega 200 manns hafa látið lífið í umferðinni síðan 2002.  Sjötíu manns dóu af völdum sortuæxla á sama tímabili en húðkrabbamein er eitt af því sem vel má fyrirbyggja: Ekki vera óvarinn í sól og aldrei fara í ljósabekki. Samt man ég ekki eftir neinni opinberri herferð gegn óvarlegum sólböðum. Sautján manns létust einnig í kjölfar líkamsárása á þessu tímabili. Þá létust 7 manns við að falla fram af klettum – sem auðveldlega mætti koma í veg fyrir:  Ekki fara nálægt kletti.

Þá er einnig merkilegt að yfir sama tímabil og níu dauðsföll voru tengd við offitu létust þrisvar sinnum fleiri vegna eftirstöðva berkla. Það finnst mér að hefði frekar mátt setja á forsíðu Fréttablaðsins. Ég hélt að berklum hefði verið útrýmt á Íslandi en í hittifyrra mátti rekja alls sjö dauðsföll til þeirra. Það er sami fjöldi og þeirra sem féllu fram af klettum yfir átta ára tímabil! Það þykir mér stórfrétt.

3. Það er ábyrgðarleysi, bæði af hálfu fjölmiðla og fagfólks, að halda endalausum hrakspám á lofti vegna offitu. Árið 1997 birtist þungorð skýrsla á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar sem setti bókstaflega allt á annan endann hér á landi sem annars staðar. Þar var offitu ekki aðeins lýst sem faraldri, heldur einni mestu ógn okkar tíma, og því var spáð að komandi áratugur myndi einkennast af holskeflu sjúkdóma og vanheilsu sem gæti lagt heilbrigðiskerfi Vesturlanda í rúst ef ekkert yrði að gert. Það sem gerðist í kjölfarið var í stuttu máli:  Almenningur fór á taugum, megrunariðnaðurinn blés út og fullt af fólki græddi formúgu á því að braska með þyngdarstjórnunaraðferðir sem allir ættu að vita að gera ekkert gagn. Skilaði þetta tilætluðum árangri – dró allt þetta offors úr tíðni offitu? Nei, offita hefur tvöfaldast hér á landi frá aldamótum. En hefur heilbrigðiskerfi okkar kaffærst í offitutengdum sjúkdómum? Nei. Helsta ógn heilbrigðiskerfisins var ekki feitt fólk heldur peningagráðugir skúrkar sem settu landið okkar á hausinn.

Á þeim 14 árum sem liðin eru frá því hin myrka skýrsla WHO leit dagsins ljós hefur dregið úr hjarta- og æðasjúkdómum, sem eru langalgengasta dánarorsök Íslendinga, og lífslíkur hafa aukist jafnt og þétt. Í skýrslu velferðarráðuneytisins, sem hefur verið rangtúlkuð svo vandlega í fjölmiðlum undanfarið, má einnig lesa að tíðni alvarlegra sjúkdóma sé svipuð hér á landi og á öðrum Norðurlöndum en tíðni sykursýki sé með því lægsta sem þekkist á Vesturlöndum. Það er erfitt að túlka þetta sem svo að Íslendingar séu að kaffærast í offitutengum sjúkdómum. Í dag er því engu að síður spáð á forsíðu Fréttablaðsins að næstu ár muni bera með sér „sprengingu í hjartaáföllum“ af því við erum svo feit.

Þetta fer að verða ansi þreytt tugga, að heimsendir sé alltaf á næsta leyti, og fyrst hann kom ekki í dag þá þýði það bara að hann komi á morgun.

Flokkar: Stríðið gegn fitu

Föstudagur 11.11.2011 - 09:01 - 16 ummæli

Ísland er EKKI næst feitast

Reglulega birtast fréttir í fjölmiðlum um hve Íslendingar eru orðnir feitir. Þegar farið er yfir gömul dagblöð má finna dæmi um slíka umfjöllun allt að 40 ár aftur í tímann, og það sem vekur athygli, er að viðkvæðið er alltaf það sama: Óháð því hversu feitir Íslendingar hafa verið á hverjum tíma þá hefur sífellt verið argað yfir því að þeir séu ALLTOF feitir. Af þessu má draga tvennskonar ályktanir:

1) Ekkert magn af fitu virðist ásættanlegt. Það er alveg sama hversu hátt hlutfall fólks telst vera feitt í raun og veru, það er alltaf tilefni til opinberra æðiskasta. Árið 1975 voru minna en 10% fullorðinna Íslendinga of feit en eins og myndin hér að ofan sýnir var það hlutfall samt sem áður alltof hátt.

2) Allt þetta arg og garg um hvað við erum feit hefur ekki haft nokkur einustu áhrif á þyngdarþróun Íslendinga nema hugsanlega þveröfug við það sem vonast var til. Það eina sem hefur gerst frá því að opinber þráhyggja um holdafar, mat og hreyfingu fór af stað fyrir alvöru er að fólk hefur fitnað, átvandamál hafa aukist og megrunariðnaðurinn hefur vaxið ár frá ári.

Nýlega varð allt vitlaust einu sinni enn. Sprengjunni var varpað þegar sagt var frá því í fréttatíma Stöðvar 2 að ný skýrsla á vegum velferðarráðuneytisins hefði leitt  í ljós að við værum næst feitasta þjóð Vesturlanda. Aðeins Bandaríkjamenn væru feitari en við og það var ekki að spyrja að því:  Netheimar hafa logað allar götur síðan, heilsubloggarar landsins hafa beinlínis sopið hveljur af hugaræsingi og ekki hefur verið um annað rætt á kaffistofum landsmanna síðustu vikur. Getur þetta verið??? Ó hvað þetta er hryllilegt! Svo feit, svo feit!!!

Jæja. Áður en staðreyndir málsins verða viðraðar nánar langar mig að benda á að lífsvenjur þjóðarinnar hafa stöðugt verið að færast í átt til aukins heilbrigðis og langlífis undanfarna áratugi. Samhliða þessum endalausa barlómi um hvað við erum feit hefur dregið úr reykingum, kaffidrykkja hefur vikið fyrir aukinni vatnsdrykkju, neysla grænmetis- og ávaxta hefur aukist, sömuleiðis hreyfing í frístundum svo um munar, tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, sem fyrir 40 árum var á uppleið, hefur stöðugt farið minnkandi og lífslíkur hafa aukist ár frá ári. En það skiptir auðvitað engu máli því við erum svo feit.

Við erum samt ekki (næst) feitust í heimi. Þegar skýrsla velferðarráðuneytisins er gaumgæfð sést glögglega að Ísland er enn í 6. sæti OECD ríkja hvað tíðni offitu snertir (bls. 13). Alveg eins og við vorum í fyrra. Þá varð reyndar allt brjálað yfir því að við værum í 6. sætinu…en hvað um það.  Sú niðurstaða að við séum næst feitust er (ranglega) fengin þegar þeim sem teljast of þungir (BMI 25 og yfir) og þeim sem teljast of feitir (BMI 30 og yfir) er skellt saman í einn flokk. En hér þarf að athuga tvö mikilvæg atriði:

1. Þeir sem teljast of þungir eru ekki endilega feitir heldur er algengt að þessi þyngdarflokkur innihaldi fólk sem er sterklega byggt og í góðu líkamlegu formi. Þetta á sérstaklega við um karlmenn því sá karlmaður er vandfundinn sem hefur einhvern vöðvamassa en telst samt vera í „kjörþyngd“. Tom Cruise, Brad Pitt og George Clooney eru til dæmis allir „of þungir“ samkvæmt stöðlum. Reyndar er Tom Cruise yfir offitumörkum. Þetta undirstrikar hversu lélegur mælikvarði á holdafar, hvað þá heilbrigði, blessaður BMI stuðullinn er. Það kæmi sannarlega ekki á óvart þótt sjálfur íþróttaálfurinn væri yfir kjörþyngd þrátt fyrir að hann bölsótist nú yfir öðrum sem dvelja utan þeirra marka.

2. Listinn yfir þjóðirnar sem Íslendingar voru bornir saman við og átti að sýna að við værum „næst feitust“ innihélt ekki þær þjóðir sem hafa hærri tíðni offitu en við að Bandaríkjunum frátöldum. Það er vegna þess að sumar þjóðir gefa ekki upp hlutfall fólks í „ofþyngd“ – enda eins og við sjáum hér fyrir ofan getur sá flokkur verið ansi villandi.  Á þennan lista vantar lönd eins og  Bretland, Ástralíu og Nýja Sjáland, sem öll hafa hærri offitutíðni en Ísland, og þess vegna lendum við í „öðru sæti“.

Það sem ég velti fyrir mér er af hverju hefur enginn leiðrétt þetta? Af hverju eru svona rangfærslur látnar veltast í umræðunni vikum saman án þess að neinn dragi fram staðreyndir málsins? Þetta staðfestir í það minnsta að enginn þeirra sjálfskipuðu heilsuspekinga, sem hafa æpt og gólað undanfarnar vikur yfir þeim harmafregnum að við séum næst feitasta þjóð Vesturlanda, hefur raunverulega haft fyrir því að lesa skýrsluna sjálfa.

Flokkar: Stríðið gegn fitu

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com