Fimmtudagur 2.2.2012 - 22:35 - 4 ummæli

Vanhugsuð viðbrögð við siðleysi!

Framtak ja.is að útbúa, auglýsa og selja blað til að líma yfir mann er hörmulega siðlaust, groddalegt og heimskulegt. Fáránlegt hjá fjölmiðlum að snúa sér til almannatengslamanna og markaðsfræðinga um viðbrögð. Er markaðsvænleiki orðinn mælikvarði á siðlegt gildi hluta?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.2.2012 - 09:58 - 2 ummæli

Evrópa hætt að loga!

Síðastliðinn mánuð hefur Evrópa skíðlogað, óeirðir á götum úti, esb að splundrast, evran að hrynja, Merkel að taka völdin.  Já, ég keypti moggann í mánuð.  Nú er ég hættur því og landið er að rísa. Allar þjóðir innan Esb telja sig betur staddar innan en utan bandalagsins, evran með stöðugustu gjaldmiðlum heims. Evrópuríkin flest í góðum gír og vinna faglega úr sínum málum. Stjórnmálamenn sem þrífast á makríldeilum eru menn gærdagsins. Sameginlegir hagsmunir guðspjall dagsins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.2.2012 - 17:17 - 18 ummæli

Ríkisstjórn hristir af sér hrakspár!

Ríkisstjórnin á víst afmæli í dag. Hún er um margt merkileg. Hún
tekur við versta búi síðan í kreppu millistríðsáranna. Hún hefur  mátt búa við ósvífnasta umtal allra tíma. Hún er með fleirri útundansérhlaupara  en nokkur önnur ríkisstjórn. Hún kaupir sér ekki vinsældir með ábyrgðarleysi.  Hún er  að meirihluta til skipuð konum.  Forsætisráðherran er kona og það er í fyrsta skipti hér á landi.  Og það sem merilegast er:  Ríkisstjórnin er að hrista af sér allar hraksspár  og er að ná mjög góðum árangri. Er að standa sig mjög vel.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 09:34 - 17 ummæli

Tekið undir með Lilju!

Það er rétt hjá Lilju Mósesdóttur.  Það er sanngirnishalli í Þjóðfélaginu.  Réttlætinu er áfátt.  Þeir sem sem áttu sitt í íbúðarhúsnæði sínu voru rændir í hruninu (eins og svo margir aðrir). Mikilvægt skref til réttlætis er að öll lán með veði í íbúðarhúsnæði verði skrúfuð niður um 15-20%.  Rök þeirra  sem þetta mæla eru sanngirnisrök.  Þessi aðgerð þarf ekki síst að ná til þeirra  sem fjárfestu af skynsemi í eigin íbúðarhúsnæði og hafa staðið í skilum. Og ræningjana þarf að elta uppi og gera þá að betri mönnum.  Það á ekki að líða það að þeir flækist um á lúxsusbílum og búi í glæsivillum.  Það er hins vegar gott í öllu fólki.  Þeir gætu orðið góðir bakarar og slökkviliðsmenn (með fullri virðingu fyrir þeim stéttum) svo vísað sé í Kardimommubæinn.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.1.2012 - 17:37 - 23 ummæli

Hálfguðinn Ólafur- þorir enginn í hann?

 

Hvernig víkur því við að engin sæmilega hæf manneskja stígur fram í sviðsljósið, lýsir því yfir með þeim hætti að eftir verði  tekið að hún ætli að verða forseti Íslands.  Núverandi forseti hafi beðist undan því að vera áfram, hafi skilað eftirminnilegri forsetatíð og nú sé kominn tími fyrir nýja hugsun, nýja nálgun, nýja manneskju.  Í staðinn högum við okkur eins og Ólafur sé hálfguð en ekki bara klár persóna og þeir sem í íslensku samélagi hafa  gerst málaliðar fjarstöðu við heiminn, málsvarar krónunnar, tollamúra og hrunsafneitarar hafa í hópum farið niður á hnén og grátbeðið guðinn að vera áfram og fara þar samhnjáa gamlir framsóknarjálkar með þann fyndnasta í broddi fylkingar, sanntrúaðir frjálshyggjumenn einnig með þann fyndnasta í fararbroddi og  ófyndnir forystumenn sósíalista í landinu bláa upp úr miðjum síðasta áratug.

Getur verið að andverðleikasamfélagið hafi ekki framleitt í bunkum hæfileikaríkt fólk uppfullt af verðskuldugu sjálfstrausti sem gæti augljóslega tekið við eða hefur samfélagið tjaldað yfir slïkt fôlk og lyft upp á stökkpallana hæfilega getumiklu og þar með hættulitlu fólki?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.1.2012 - 11:37 - 20 ummæli

Meinfýsi, illgirni og hatur vaknar upp!

Það er furðulegt þetta hatur, meinfýsi og illgirni sem vaknar upp í mönnum slysist maður til að mæla ESB bót.  Þessi umræða framkallar það versta í fólki sama hvort um er að ræða svokallaða háttsetta stjórnmálamenn eða illa skrifandi unglinga.  Þetta er furðulegt í ljósi þess að hver einasta þjóð sem þar hefur inn gengið telur hag sínum betur borgið en ella enda er ESB fyrst og fremst bandalag utanum frjáls viðskipti en hefur einnig einbeitt sér að málum sem þjóðríkin hafa áhuga á í orði en síður á borði eins og mannréttindum (FRA) og réttindum neytenda.  Nú er svo að leiðirnar eru aðeins tvær sem hinn raunverulegi samtími bíður upp á.  Að vera innan bandalagsins með réttindum og skyldum sem því fylgja eða standa utan þess og beygja sig að samþykktum þess en vera áhrifalaus um þær. Þriðja leiðin er að vísu til að gefa lítið fyrir umhverfi sitt og fara ekki að leikreglum sem þar ríkja en við ættum að líta í eigin barm og skoða hvort við viljum eyða lífi okkar og barna okkar í slíkan barning og þá afhverju?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.1.2012 - 21:26 - 8 ummæli

Íslenskir heilar eflast í ESB þátttöku!

Vegna samskipta við útlönd hafa framfarir orðið á Íslandi.  Þangað sækja menn menntun, reynslu, yfirsýn, læra vinnubrögð. Helstu nútímaleiðir eru háskólanám, tímabundnar atvinnuferðir og ferðir á ráðstefnur, þátttaka í nefndum og ráðum einkum í stjórnsýslu og vísindum. Þúsundir Íslendinga  öðlast nýja reynslu, ný sjónarhorn og kannski fyrst og síðast fá tímabundið nauðsynlega fjarlægð á land sitt og þjóð, kynnast fólki, mynda sambönd. Þáttaka í viðfangsefnum á vettvangi EES og ESB er kærkomin viðbót fyrir bæði einstaklinga og þjóð.

Sagt hafa mêr Eistar að ekki sé sístur ávinningur þjóðar þeirrar af þátttöku í ESB hversu duglegir Þeir hafa verið að taka  þátt í starfi ESB, bæði í nefndum og því að sækja um auglýst störf. Þarna hafa opnast miklir möguleikar fyrir einstaklinga og skilar sér inn í þjóðfélag Eista með margvíslegum hætti. Það sama gildir um erlenda samvinnu Íslendinga á vettvangi ESB og annarsstaðar. Að tala hana niður sæmir ekki.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.1.2012 - 20:05 - 14 ummæli

Andskotans rugl er þetta!

Ekki hverfur óbragðið yfir afskiptum Alþingis af máli sem er komið fyrir dómstól. Því meira sem ég hugsa málið því betri finnst mér lagadómgreind Bjarna heitins Benediktssonar, Ólafs heitins Jóhannessonar og Gunnars heitins Schram og eftir því verri dómgreindin Róberts Spanó og þeirra Alþingismanna sem halda því blákalt fram að Alþingi geti sótt mál til Landsdóms ef því sýnist  svo.

Setjum sem svo að Alþingi afgreiði mál til Landsdóms. Landsdómur  tekur málið fyrir og ákveður að kalla í vitnastúku hóp Alþingismanna. I staðinn fyrir að bera vitni gætu tilvonandi vitni tekið málið úr höndum dómaranna í þeim tilgangi  að fella það niður. Það ættu allir að sjá, líka Róbert Spanó, hvað það væri arfavitlaust.

Setjum sem svo að hinir ákærðu væru líka Alþingismenn  yrðu Alþingismenn aftur. Ekki þyrftu þeir að hafa áhyggjur. Samkvæmt lagaskilningi Spanó og meirihluta Alþingis tækju þeir málið einfaldlega úr höndum dómaranna.

Næst færum við þetta yfir á önnur mál til að jafnræðis sé gætt. Í kvöld stel ég brauði án áhættu. Eftir að mál mitt hefur verið dómtekið tek ég það einfaldlega úr höndum dómarans.

Andskotans rugl er þetta.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 12:09 - 12 ummæli

Skeyta hvorki um skömm né heiður

 Ef íslendingar hefðu næma réttlætiskennd eða væru menn réttlætis hefðu þeir kært úrslit leiksins gegn Slóvenum og ef þeirri kæru hefði verið verið vísað frá hefðu þeir átt að bjóða Norðmönnum sætið í milliriðli.  Með þeim hætti hefðu Íslendingar komið fram sem alvöruþjóð, sýnt af sér óvænta reisn.Vissulega voru það Slóvenar sem svindluðu á lokamínútum leiks og við, í hita leiksins, gátum ekki annað en klárað leikinn  af fullum krafti. Þeir sem skeyta hvorki um skömm og heiður munu segja að ekki sé að vita að hefðum náð þessum úrsltum hvort sem var en innst inni vitum við að það var harla ólíklegt. Eftir stendur að við högnuðust á svindli Slóvena og við ættum ekki að taka  út þann hagnað.

 

Svo borgar heiðarleiki sig. Hagnaðurinn felst í aukinni virðingu

.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.1.2012 - 15:01 - 19 ummæli

Bjarni Ben. tapar umræðunni!

Ég horfi með hryllingi til elliáranna og eftir daginn ákveðinn í að fresta þeim sem lengst. Ég ákvað nefnilega að horfa á umræðuna um tillögu Bjarna Benediktssonar slïkt horf mun vera helsta iðja ellibelgja. Þó uppgötvar maður ýmislegt: Árni Þór er betri en maður hélt. Þór Saari er beittasti hnífurinn í skúffunni. Karlar leika aðalhlutverkið á Alþingi. Gunnar Bragi ætti að vera í Sjálfstæðisflokknum. Ólöf Nordal talaði með hrokafullum hætti til Lúðvíks Geirssonar og hefur ekki efni á því og….þetta mál á ekkert erindi inn á Alþingi.  Kaupi ég ekki rök Atla Gíslasonar að enn og aftur þurfi hann og samþingsmenn hans að fara að velta við öllum steinum eins og hann orðar það. Menn verða bilaðir ef þeir setja sêr ekki mörk í steinaveltingi.  Og það stenst ekki skoðun, eins og umræðan er að leiða í ljós að, Alþingi sé að skipta sér af ferli þessa máls.  Það er og á að vera úr þess höndum.

Og frávísunartillaga er ágæt. Um hana verða ekki greidd atkvæði fyrr en eftir ítarlega 1. umræðu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur