Miðvikudagur 13.4.2011 - 10:47 - 3 ummæli

Húmoristar á Þingi!

Datt inn á Alþingisrásina þar sem þeir létu ljós sitt skína húmoristarnir Gunnar Bragi Sveinsson og Ásbjörn Óttarsson.  Þeir voru að týna til rök gegn ,,einn maður eitt atkvæði“ sem er víst eitthvað franskt kjaftæði frá árinu 1789.  Samkvæmt þeim félögum þá verða að vera fleirri þingmenn af landsbyggðinni af því að allt er í Reykjavík nema það að allt verður til, matur og peningar,  á landsbyggðinni.  Samkvæmt þeim félögum berjast landsbyggðarþingmenn fyrir landsbyggðinni.  Sé horft  á málin með svona einföldum hætti þá blasir það við að landsbyggðarþingmenn eru og hafa verið gjörsamlegar liðónýtar manneskjur því að þeir hafa lengst af verið í meirihluta á Alþingi Íslendinga.  En ætli málið sé svo einfalt.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 16:08 - 3 ummæli

Ríkisstjórnin sitji sem fastast!

Persónulega finnst mér að ríkisstjórnin eigi að sitja sem fastast og menn eigi að sýna Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni meiri virðingu.  þau hafa barist áfram af þrautseigju og samviskusemi í ferð sem þau verða að fá að ganga til enda, niður í dalinn og aftur upp. Við kusum þau til þess að leiða okkur í gegnum kreppuna og eigum að gefa þeim tíma. Þau eru búin að leiða okkur í gegnum erfiðasta hjallann við ótrúlega erfið skilyrði.  Þeir sem komu okkur í þessa djúpu gryfju standa hægra megin allt að því í grjótkasti sérstaklega  skipperinn á Morgunblaðinu og flokkur sauðfjáreigenda.  Vinstra megin innan og utanborðs hryggir og sárir hugsjónamenn sem gera allt til að spilla fyrir þeirri ríkisstjórn sem fékk það göfuga hlutverk að leiða okkur í gegnum klungrið og upp og út í sólina.  Það er kominn tími til þess að stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar fari að svara fyrir sig af myndugleik.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 11:14 - 4 ummæli

Jáið mitt verður stórt.

Jáið mitt verður stórt.  Almennt vil ég semja ef kostur er.  Þetta er góður kostur.  Við þurfum alltaf og höfum alltaf þurft að borga skuldir óreiðumanna úr okkar hópi.  Núna fóru menn úr okkar hópi ránshendi um sparifé almennings erlendis studdir af fólkinu sem við kusum og undir okkar eigin húrrahrópum. Við höfum fyrir löngu lýst yfir oft að við tækjum þátt í að bæta fólki skaðann. Það gerum við með þessum samningi þar sem skuldbindingar eru jafnaðar niður á Breta, Hollendinga og Íslendinga.  Ég vil að okkur farnist vel. Yfirleitt farnast sáttfúsu fólki betur en hinum.

Að auki mismunuðum við með neyðarlögum fólki eftir búsetu/þjóðerni/.  Það er brot á lögum, reglum og mannréttindasáttmálum alls staðar.  Mismunanarleysi er grunnhugsun í Evrópu en framandi hér. Ég hef unnið með þetta hugtak á evrópskum vettvangi í mörg ár og gef ekkert fyrir skoðanir ósigldra ungra lögfræðinga um að litið verði framhjá því vegna efnahagskrísu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.4.2011 - 22:35 - 5 ummæli

Röksemdir fyrir Jái eru á hverju strái!

Að mínum dómi vanmeta Íslendingar Evrópuákvæðið sem  bannar  að mismuna fólki eftir þjóðerni eða ríkisfangi. Mörgum  finnst þetta eitthvað sem hægt er að rífast um og sleppa með. Mín reynsla er sú að ákvæði af þessu tagi hafi miklu meiri vikt á meginlandi Evrópu en í umræðunni hér.  Þar  taka menn slík ákvæði alvarlega.  þau er að finna ekki bara í  ákvæðum ESB og Evrópska efnahagssvæðisins heldur eru líka kjarnaatriði í Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindasáttmála Sameinu Þjóðanna og raunar í öllum sáttmálum og raunar löggjöf allra ríkja okkar heimssvæðis þ.m.t. Íslands og eru í stjórnarskrá. Að miklar líkur sé á því að við sleppum fyrir horn í þessu tilliti komi til dómsmáls er að minu viti innistæðulaus bjartsýni.  Skiptir engu að mínu viti þó að hér hafi að dómi stjórnvalda verið um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir að ræða á erfiðum tímum. Þetta enn ein röksemd mín fyrir jáinu, en þær eru raunar fjöldamargar ekki síst þær að íslensk stjórnvöld hafa margsinnis lýst því yfir að við ætlum að standa við okkar og í fyrirliggjandi samningi er byggt á því að þjóðirnar þrjár skipti með sér byrðunum. Það er svo Íslendinga að sækja peninganna í hendur mannanna sem gleymdist að hafa eftirlit með og voru valdir í einkavæðingaferlinu til að eiga Landsbankann.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2011 - 11:36 - 7 ummæli

Ég vil börnum mínum vel!

Ég deili ekki áhyggjum Egils Ólafssonar þeim að börnin okkar verði leidd inn í  breskar þrælabúðir samþykkjum við Icesave. Þvert á móti tel ég þeirra vegna rétt að samþykkja samninginn.  Ég vil skila þeim inn í samfélag sem starfar í sátt og samlyndi við nágrannaþjóðir sínar og samfélag sem stendur við orð sín.  Ég vil að þau eigi möguleika á háskólanámi sem víðast um heim, geti ferðast óhindrað og sest að í öðrum löndum kjósi þau það. Ég vil að afkomendur mínir geti lifað við hagsæld í opnu, góðu samfélagi.   Ég vil ekki að þau alist við einstrengingslega þjóðrembu, þröngsýni eyjaskeggjans, fáfræði og ótta hins einangraða. Ég vil ekki að alist upp við andúð á öðrum þjóðum eða öðru fólki yfirleitt.  Ég vil ekki að þau verði blind á sjónarmið annarra.  Ég vil segja Já við Icesave og tel að ofangreindum markmiðum verði best náð með þeim hætti.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2011 - 10:47 - Slökkt á athugasemdum við Í Suðursveit

Í Suðursveit

Var að hlýða á Þorbjörgu Arnórsdóttur lesa upp úr meistara Þórbergi á Þórbergssetrinu á Hala í Suðursveit.  Merkilegir menn, bræður Þórbergur, Steinþór og Benedikt og sú kynslóð sem nú er á fótum nú  hefur gert sitt með því að rækta þann arf sem þeir skildu eftir sig.  Þórbergssetrið er merkt framtak, eilíf sýning um Þórberg Þórðarson meistara íslenskrar tungu og veröld sem var. Hér er gott að koma og gott að vera og yfir gnæfir Steinafjall. Og ritverkið Í Suðursveit verður seint ofmetið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2011 - 09:36 - 5 ummæli

Einbeittur höfnunarvilji!

Nú er best að fara varlega.  En sú spurning vaknar: Hvers vegna má ekki Priyönku Thapa Nepölsk stúlka búa hér?  Af mannúðarástæðum eða bara án ástæðna?  Af hverju er hún ekki boðin velkomin og fjöldamargir aðrir sem vilja vera hér en fá ekki?  Er þetta fólk ekki nógu ríkt? Erum við of mörg?  Ég lít út um gluggann hjá mér og ég sé nægt rými.  Ég hef satt að segja aldrei skilið þessa stefnu íslenskra stjórnvalda að senda þá kerfisbundið í burtu sem hér vilja vera. Nú er óþægilegt að spyrja út í einstök mál. Sérstakar ástæður geta legið að baki synjun,  í stöku tilfelli getur verið glæpón á ferð. En mér finnst stjórnvöld skulda okkur skýringar á þessum einbeitta höfnunarvilja sem birst hefur í veruleikanum í köldum og gráum úrskurðum Útleningastofnunar á undanförnum árum og áratugum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 17:10 - 8 ummæli

Segjum Já við Icesave!

Hrunið hófst með biskupstíð Sigurbjarnar Einarssonar 1959 sagði Kristinn Jens Sigurþórsson guðfræðingur og snillingur í Saurbæ og vitnaði þá til þess að með Sigurbirni hefði frjálslynda guðfræðin sem lagði áherslu á Jesú sem siðaprédikara vikið fyrir Jesú hinum krossfesta og upprisna og þar með áhersla færst frá veraldlegum siðaboðskap yfir í hið háleita og tímalausa eðli guðdóms og tilveru.  þjóðin þar með’ hafið hinn siðhallandi dans um gullkálfinn (þó fjarri fari því að það hafi verið ætlun nokkurs).  Þetta er skýringartilraun, sennilega sett fram bæði í gamni og alvöru og til að undirstrika stærð kirkjuhöfðingjans, og leitar orsaka í andlegri deiglu og sennilega á þetta tímabil í íslenskri kirkju og samfélagssögu eftir að verða tengt minningu Sigurbjörns um langa hríð, slíkur tímamótamaður sem hann var.  En má þá ekki fara enn lengra aftur og rekja hrunið allt aftur til hernámsins 1940 þegar hin fátæka, íslenska afdalaþjóð komst að því að þræla mætti sér út fyrir peninga í staðinn fyrir að þræla sér út fyrir ekki neitt og hóf velmegunargönguna sem var samhliða göngunni úr sveitum landsins á suðvesturhornið en það er svo ekki fyrr en en kynslóðin sem fædd er eftir stríð og hafði alist upp í stórum görðum í vesturbænum en ekki moldarhraukum að græðgin tekur völdin og þjóðin svo stutt komin að lögfræðingar úr sömu smiðjunni réðu lögum og lofum eins og títt er í  nýríkjum sem þurfa að byggja upp lagaforða sinn en eru ekki komin á það stig að lúta viturra manna ráðum.  Því fór sem fór og mér fer sem fleirum að ég er hættur að geta skrifað um ósköpin og óttast að þjóðin eigi sér ekki viðreisnar von.

Ég held samt að góð og vitur öfl gætu hér orðið ráðandi sérstaklega ef við hættum öllum heimóttarskap og þjóðernisrembingi, semjum um Iseave, göngum í Evrópubandalagið og komum auðlindum þjóðarinnar í hendur hennar sjálfrar.  Mér sýnist að hættulegustu óvinirnir á þessari leið séu þeir sem standa yst til vinstri og yst til hægri þ.m.t. stærsta sneiðin af hinum fyrrum hófsama og gæfa Framsóknarflokki og kem þeirri orsendingu á framfæri hér að aldrei hafa ráð þeirra sem standa á köntunum gefist nokkurrri þjóð vel.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 09:44 - 1 ummæli

,,Racismi“ – Fyrirlestur um Kynáttafordóma í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn kynþáttafordómum 21. mars.

 Í hugtakinu ,,racismi“ fekst kynþáttahyggja sem er sú skoðun að kynþættir hafi ólíka eiginleika og þá erum við að tala um eiginleika eins og greind, hæfni og skapferli. Ég nota oftast kynþáttafordóma yfir hugtakið ,,racismi“  sem má útleggja sem (neikvæða) fordóma gagnvart fólki af öðrum kynþáttum.  Oft/stundum er ,,racismi“ þýtt sem kynþáttahatur sem er þá fjandskapur gegnvart fólki af öðrum kynþætti sem álitinn er lakari eða óæðri.    Afleiðing af ,,racisma“ og bundinn honum órjúfanlegum böndum er  kynþáttamisrétti fólk nýtur ekki hæfileika sinna en er metið af stöðluðum hugmyndum um kynþátt sinn og situr því ekki við sama borð og aðrir.   Í hugtakinu ,,racismi“ er nefnilega sú vitund að réttlætanlegt sé að meðhöndla fólk með misjöfnum hætti eftir kynþætti.  Nú er skylt að taka fram að  mannréttindastofnanir eru farnar að nota hugtakið ,,race“ eða kynþáttur í gæsalöppum vegna þeirrar hugmyndar(staðreyndar) að mannkynið sé allt einn kynstofn/kynþáttur sem það er auðvitað þegar allt kemur til alls. Náskylt ,,racisma“  er hugtakið ,,xenofóbía“ sem er útlendingaótti.  Hugtakið ,,racismi“ hefur líka verið notað í stærra samhengi þ.e. að segja þegar litið er á fólk með mismunandi augum og /eða það beitt misrétti ekki bara vegna kynþáttar,  heldur einnig uppruna, þjóðernis, litarháttar eða trúar.  Í mannréttindasáttmálum (t.d. mannréttindasáttmála Evrópu) er bætt við kyni,  fæðingarstað, tengsl við minnihlutahópa, eign eða nokkurn annan status, þegar misrétti er bannað.  Í refsilöggjöf er hérlendis og víða er bætt við kynhneigð.  En kyn og kynhneigð hafa ekki verið felld undir regnhlífarhugtakið ,,Racisma“.

Viðauki númer 12.

Í íslensku stjórnarskránni hljóðar mannréttindaákvæðið svo: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”

Þarna er ekki inni kynhneigð.

Af því að hér eru staddir tveir fulltrúar í komandi Stjórnarskrárnefnd (Arnfríður Guðmundsdóttir og Örn Bárður Jónsson) má beina því til þeirra að hugleiða hvort að við ættum ekki að taka inn í stjórnarskrána viðbót nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar fortakslaust mismunun gagnvart lögum af hvaða ástæðu sem er. (ómálefnalegri ástæðu sem er:  það má t.d. ráða konu til að hafa eftirlit með kvennasturtum og tveggja metra mann ef hægt væri að sýna fram á að starfið krefðist tveggja metra manns og menntun og færni og réttindi eru auðvitað málefnalegar ástæður).  Íslendingar drukku kampavínið þegar þessi viðauki var samþykktur í Róm árið 2000 og tók gildi 1. apríl 2005 en aðeins helmingur af þjóðum Evrópu hafa staðfest hann og ekki Ísland en ég tek eftir því að nýju ríkin í Evrópu eins og Montenegro hafa samþykkt samninginn og eru þar með komin lengra en mörg stofnríki Evrópuráðsins eins og Ísland.  Það hefur verið fullyrt við mig að viðauki nr. 12 breytti engu vegna ákvæðisins sem er í stjórnarskránni en dómarar við Mannréttindadómstólinn segja það rangt – þessi viðauki er eitt af aðaltækjum hans og tekur af öll tvímæli í mörgum tilvikum um rétt einstaklinga í ríkjum sem hafa samþykkt viðaukann- eykur borgaraleg réttindi í þeim ríkjum, ekki síst hvað varðar kynjamisrétti sem þrífst hér en væri harðbannað samkvæmt viðauka nr. 12.

Kynþáttafordómar hérlendis!

En er mikið um kynþáttafordóma?  Þó að fordómar og óvinátta sé rík meðal manna eru ekki eiginleikar eins samúð, forvitni, umburðarlyndi, samræður og samvinna enn ríkari eiginleikar í fari okkar.  Vissulega, en fordómar virðast þrífast í sérhverri menningu. Ástæðan getur verið ótti við hið óþekkta og einnig þörf til að auka samheldni í hópnum.  Í Þjóðríkjum eða þjóðarhópum hreinum brýst rasisminn út sem átök eða óvinátta milli hópa en í blönduðum samfélögum fyrst og fremst sem átök inna hópsins þar sem minnihlutahópar verða auðvitað undir nema eitthvað sérstakt komi til.

Svo við höldum okkur bara við Evrópu og þar með Ísland þá er eru ekki lengur hrein þjóðríki til staðar.  Öll ríki Evrópu þ.m.t. Ísland eru meira og minna blönduð fólki af ýmsum uppruna sem játar mismunandi trú.  Þessum samfélögum er því lífsnauðsyn að kveða niður ,,racisma” eigi þar að þrífast gott og göfugt mannlíf.

Baráttan gegn kynþáttafordómum!

Við höfum einkum tvenns konar aðferðir til þess að berjast gegn kynþáttafordómum eða ,,racisma” (og nú fer ég hratt yfir sögu tímans vegna).  Það er að mennta fólk og þá first og fremst börnin og það er að hindra misretti með löggjöf, almennri löggjöf og refsilöggjöf.  Mikilvægt er að börnin læri að ganga að fjölbreytileika í umhverfi sínu sem vísu og umgangist þar með hvert annað aðgreiningarlaust. Þarna held ég að gott starf sé unnið í leikskólum landsins og sunnudagaskólanámsefni kirkjunnar er til fyrirmyndar.  Og ég vil einnig nefna námsgagnastofnun sem hefur unnið gott starf í þessa veru. En það er ekki nóg að mennta börnin.  Það verður að segja þeim til sem kenna þeim, kennurum.  Gallinn við okkur Íslendinga er að við vitum allt um allt og ég hef ekki enn hitt Íslending sem veit ekki allt um allt í þessum efnum. Og það verður líka að kenna lögreglumönnum, lögfræðingum og dómurum að þekkja kynþáttafordóma. (þessar lögstéttir halda alltaf að þeim séu sérfræðingarnir og að þeirra venja sé sú eina rétta en samanburðarrannsóknir hafa sýnt að að lögfræðingar og dómarar eru oft eins og blindar mýs þegar kemur að þessum efnum (ekkert síður en aðrir).  Ofangreint hefur íslenskum stjórnvöldum verið ráðlagt.  Þeim hefur einnig verið ráðlagt að setja eina löggjöf um bann við mismunun.  Eins og nú er eru ákvæði dreifð í lögum t.a.m. í stjórnsýslulögum, lögum um réttindi sjúklinga, lögum um skyldunám, póstþjónustu, útvarpslögum, lögum um persónuvernd, svo helstu dæmi séu nefnd.

Það er mælt með samræmdum bálk af tveimur ástæðum: Svo að þeir sem eiga að framfylgja lögunum svo sem lögreglumenn, lögfræðingar og dómarar eigi hægara með að vita af tilvist þeirra og átta sig á þeim annarsvegar og hins vegar að þolendur misréttis – að það sé ljósara fyrir þeim – að þeir geti leitað réttar síns.

Embætti umboðsmanns

Eitt atriði vil ég nefna annað af fjöldamörgum.  Að komið verði upp embætti umboðsmanns sem taki við og fáist við kvartanir er lúta að ,,racisma.”  Slíkar stofnair eru í öllum öðrum ríkjum Evrópu.  Við höfum umboðsmann Alþingis er sagt.  Það er ekki nóg. Reynsla að þjóðanna er sú að slíkir umboðsmenn virki first í þessum efnum ef racismi er höfuðviðfangsefni þeirra, ekki aukaverkefni.

Sömuleiðis að baráttunni gegn ,,rasisma” verði gert hærra undsir höfði í stjórnsýslunni.

Birtingarmyndir ,,racisma”

En er ástæða til að hafa áhyggjur. Já. Hvert sem litið er sér maður rasisma. Týnum upp nokkrar fyrirsagnir frá umliðnum misserum: ,,Faðir og sonur flýja Ísland vegna kynáttaáreitis“

,,Fjölmenni í göngu gegn rasisma“

,,Maður handtekinn vegna kynþáttaárásar“

Mismunun kemur fram á ýmsa vegu:  Fólk starir/það er snögglega búið að ráða í stöðuna þegar þú birtist/Fullir Íslendingar áreita afgreiðslustúlki á bar/tala ensku af því að hún er dökk/segja: þið eruð ágætisfólk.

.Fimm ára dóttir konu sem bloggar kvartar yfir því heima að enginn vilji leika við sig ,,af því að ég er brún“. 

Rannsókn á Akureyri sýnir að börn erlendra foreldra eru tvisvar sinnum eins líkleg til þess að vera fyrir einelti en börn innfæddra.

8% af innfæddum börnum telja sig verða fyrir einelti

12% með einu foreldri erlendu

16% ef báðir foreldrar eru af erlendum uppruna

Móðir í Reykjavík hefur sagt mér frá því að svört dóttir hennar komi oft grátandi heim eftir setningar eins. ,,Hunskastu heim grýlan þín“, ,,svarta merkikertið þitt, hvað ert þú að gera hér.“  Gjarnan sagt þegar enginn annar heyrir til. 

Sjálfur rakst ég bókstaflega á konu í ELCO sem var öðruvísi á hörund en ég.  Við rákumst saman og ég sagði ,,sorry“ Fékk til baka á hreinni og klárri íslensku með áherslu; ,,fyrirgefðu“.  Skammaðist mín, þó ég gæti alveg sett mig í mín eigin spor (og ég er búinn að fyrirgefa mér).  Hæfileiki heilans til að flokka til að einfalda lífið getur komið sér vel en er varhugaverður.

Birtingarmyndir ,,racisma“ eru margar.  Fólk af erlendum uppruna fær ekki eðlilegan framgang í vinnu. Fólki erlendis frá er frekar sagt upp. (Atvinnuleysi meðal Pólverja hér er nú 20%). Unglingar af erlendu bergi brotnir hætta frekar í skólum.  Fólk verður fyrir einelti og ýmis konar áreiti.  Fær ekki leigt.  Fær ekki bestu borðin.  Er niðurlægt. Allt þetta er til. Allt þetta hefur fólk upplifað.  Kvörtunarleiðir eru ekki augljósar.  Saksóknarar nota ekki heimildir í lögum. Yfirvöld gera lítið með leiðbeiningar virtustu stofnunar Evrópu í þessum efnum ECRI.

Afleiðingin er sú að hér þróast þjóðfélag sem verður samdauna kynþáttafordómum. Þar sem fólk af erlendum uppruna býr í ákveðnum hverfum, veður fyrir einelti, vinnur óþrifalegusti störfin. Nýjar kynslóðir vaxa upp við þetta sem sjálfsagðan hlut og finnst ekkert tiltökumál og það gildir einu hvort að menn verað lögfræpingar, dómarar, stjórnmálamenn eða eitthvað annað.

Við þurfum að taka miklu fastar á þessu svo að þetta verði ekki.  Hafna mismunun. Byggja réttlátt þjóðfélag.

Fjöldi fólks af erlendum uppruna

Lengst af voru hér fáir innflytjendur svo sem á öðrum jaðarsvæðum búsetu.  En þeim hefur fjölgað ört.

2004 voru innflytjendur 12.061

2006  16.689

2008  27240

2009 28644 og eru þða flestir

Og eru í dag 2011 25.693 töluvert fleiri en þeir voru 2007 þrátt fyrir kreppu.

Þetta mun vera um 8.1% mannfjöldans.  Vanmetið sennilega vegna ónógra upplýsinga um eldri Íslendinga en þessi tala gæti þýtt það að fjórðungur til fimmtungur Íslendinga sé tengdur fólki erlendis frá nánum fjölskylduböndum eða sjálft með uppruna í útlandinu stóra.

Heimildir:

Orðabók menningarsjóðs

Tölur Hagstofu

Skýrslur ECRI

Rannsókn á Akureyri 2010. Unnið við Háskólann á Akureyri sem hluti af alþjóðlegri rannsókn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.3.2011 - 08:03 - Slökkt á athugasemdum við Í minningu 69 mótmælenda!

Í minningu 69 mótmælenda!

Evrópa er fjölmenningarsamfélag. Í öllum ríkjum álfunnar, þar með talið á Íslandi, eru fjölmennir hópar innflytjenda sem fóstra menningu upprunalandsins og aðlagast smátt og smátt menningu heimalandsins.

Hugmyndir um að ólíkir menningarheimar renni áreynslulaust saman á tveimur til þremur kynslóðum hafa reyndar ekki gengið upp. Þriðja kynslóð innflytjenda hefur ekki tileinkað sér ekki mál og menningu upptökulandsins í nægilegum mæli og heimalöndin hafa ekki opnað faðminn nógu vel. Gettó hafa orðið til, einkum meðal ungra múslima.

Þjóðamósaík Evrópu er margbrotin og flókin. Hefðbundin landamæri draga nokkur mörk milli þjóða en eru alls ekki afmarkandi. Tyrkir lifa í Þýskalandi, Serbar í Montenegro, Ungverjar í Búlgaríu og áfram í það óendanlega. Hugtakið ein menning – eitt ríki á ekki við. Fjölmenning er staðreynd þó að menn deili um tungumál, blæjur, búrkur og krossa. Þó að sumum þyki óþægilegt að fólkið allt um kring sé ekki allt eins á litinn eða játi ekki allt sömu trúna og tali ekki allt eins „þróað“ mál og afi og amma þá eru þeir fleiri sem njóta fjölbreytninnar og aðkomnir hafa á öllum tímum í sérhverju ríki auðgað menningu þess lands sem hefur tekið þá upp á arma sína.

Í dag 21. mars er einmitt alþjóðlegur baráttudagur gegn kynþáttafordómum og um leið gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu í minningu 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars 1960 er þeir tóku þátt í friðsamlegum mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.

Í tilefni dagsins boðar Þjóðmálanefnd Þjóðkirkjunnar til hádegismálþings í safnaðarheimili Neskirkju. Þar munu Toshiki Toma og undirritaður ræða um kynþáttafordóma og íslenskt samfélag og Magnús Erlingsson og Svavar Stefánsson segja frá því hvernig kirkjan nálgast innflytjendur. Allir eru velkomnir. Málþingið hefst kl. 12:00.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur