Sunnudagur 10.10.2010 - 17:42 - 4 ummæli

Guðspjall Sigurðar Grétars…

Sennilega hefur Sr. Sigurður prédikað út frá þessu guðspjalli hér:

,,Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.“

Það er mjög auðvelt að fara yfir í heilbrigðismál út frá þessu guðspjalli, eins og Sigurður Grétar Sigurðsson gerir í prédikun sinni, og aðstæður almennt þeirra sem eiga undir högg að sækja, ráða ekki aðstæðum sínum sjálfir og í framhaldi af því ábyrgð samfélagsins og ábyrgð okkar allra hvert á öðru. Ég reikna með að ræðan endurspegli líka ótta og kvíða þeirra sem búa á Suðurnesjum.  Hvort að menn eigi svo að ásaka ríkið eða líta í eigin barm er önnur saga. Ég hlýddi ekki á ræðu Sigurðar en efast ekki um að hún hefur verið vel uppbyggð.  Sennilega hefur Sigurður ákveðið að láta reyna á mörkin og því ber að fagna í upplýstu samfélagi sem þarfnast skoðanaskipta og þess að fólk tjái sig, hvorki prestar eða aðrir eiga að þurfa að læðast um eins og mýs eins og var orðið þegar fólk var rekið fyrir smásögur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.10.2010 - 16:48 - 25 ummæli

Aðskilnaður.. út frá grein Friðriks Þórs

Þjóðkirkjufyrirkomulagið á sér langa sögu á Norðurlöndunum og samtvinnast lútherskunni sem gerir ráð fyrir því að kristninni sé ráðið innan landamæra furstans.  Þrátt fyrir þjóðkirkjufyrirkomulagið verður kirkjan e.k. ríki í ríkinu og telst árið 1907 eiga fjórðung allra jarðeigna landsins.

Ofanaf því höfum við verið að vinda, ef svo má segja, síðustu eitt hundrað árin með samningum milli ríkis og kirkju sem byggja allir á því að ríkið yfirtaki jarðirnar en en greiði kirkjunni um alla framtíð tiltekinn arð.  Í mannréttindastofnunum hefur þetta fyrirkomulag verið látið afskiptalaust af tveimur ástæðum(undirritaður er í einni slíkri). Fyrri ástæðan er:  Ekki er um að ræða fjárhagslegt misrétti heldur er um að ræða samninga milli ríkis og kirkju sem  átti lendur og tókst í öllu falli að semja um tiltekið uppgjör þegar hún lét þær af hendi.  Seinni röksemdin er óopinber:  Þetta er ekki ,, misrétti“ sem skiptir máli.  Ef við þurfum ekki að hafa áhyggjur af öðru þarna uppfrá þá getur við einbeitt okkur að öðrum svæðum í veröldinni (þægindarök).

En hvað um það : Aðskilnaður hefur ekkert með þjóðsöng eða fána að gera en kynni að hafa áhrif á frídaga til lengdar hugsað, eða af hverju á að gefa frí á jólunum frekar en á helgum dögum annarra en kristinna þegar (ef) ríkið verður hlutlaust í trúmálum (og varla höfum við efni á því að gefa öllum alltaf frí)?

Aðskilnaður, fullur aðskilnaður, yrði ekkert mál fyrir kirkjuna ef staðið yrði við samninga. Og verður ekki að standa við samninga við kirkjuna?  Uppá samninga skrifa ekki síðri lögfræðingar ríkisins megin en kirkjunnar megin.  Við verðum að reikna með því að dómstólar dæmdu kirkjunni í hag ef málið færi í hart.

Þá er í raun bara eftir spurningin sú hvort við vildum hafa ríkisvaldið hlutlaust í trúarefnum eins og er í Bandaríkjunum og Tyrklandi eða takandi beina afstöðu eins og er í Danmörku og Ísrael. (þriðju leiðina mætti hugsa sér þá að í 62. grein stjórnarskrár kæmi að ríkið styddi alla heiðarlega og skipulega trúarsöfnuði/siðafélög að uppfylltum vissum skilyrðum).

Það yrði óneitanlega verulegt högg fyrir þjóðkirkjuna ef hún yrði skilin eftir út á ísnum en hugsanlega bara gott fyrir hana ef ríkið stæði við samninga við hana(eða yrði neytt til þess).  Í þeirri stöðu mætti setja undir allt misrétti með því að ríkið greiddi samsvarandi til annarra trúfélaga í nafni jafnréttis.(Misréttið væri þá fólgið í því að forfeður manna hefðu átt aðild að jörðunum í fyrndinnióháð því hvort að fólk væri nú í þjóðkirkju eða ekki annarsvegar og hins vegar að fólk ætti ekki að gjalda þess að vera nýflutt til landsins en öll áunnin réttindi ,,langbúa“ eru vafasöm).  Þegar frá eru talin sóknargjöldin ,sem hvert trúfélag um sig myndi innheimta eða semja við innheimtuaðila eins og ríkið eða sveitarfélög að innheimta, yrðu það óverulegar upphæðir.

Aðskilnaður hefur orðið.  Við erum komin miklu lengra í þátt en Danir sem við hermum þó eftir í flestu. Mín niðurstaða er kannski fyrst og fremst sú að þetta sé ekki spurning um sparnað fyrir ríkið  heldur princíp. Kristin þjóð skv. stjórnarskrá eða hlutlaus?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.10.2010 - 19:52 - 29 ummæli

Öfgaklerkar og Háskóli Íslands!

Það er til einföld leið til þess að draga úr hættunni á því að Islamskir öfgaklerkar festi rætur hér. Það má gera þá kröfu að forstöðumaður trúfélags og þar með forstöðumenn mosku hérlendis séu með gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands.  Það gæti lífgað mjög guðfræðiskor H.Í. ef þangað sæktu nám auk kristinna, búddar, íslamstrúar, ásatrúarmenn og guðleysingjar ef út í það er farið.  Þannig er það í guðfræðideildum heimsins og örugglega nú þegar í einhverju mæli hér.  Ef  fimm ára háskólanám yrði gert sem skilyrði til að standa fyrir trúfélagi myndi ruglukollunum fækka eða réttara sagt það væri búið að gera heiðarlega tilraun til þess að afrugla þá.

Þetta með innlent háskólanám og moskur er ekkert grín. Þetta hefur verið innleitt t.d. i Svíþjóð og rætt víða.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.10.2010 - 16:50 - 22 ummæli

Færið lánin niður!

Það er vinstri stjórn og vinstri stjórnir jafna byrðum þannig að þeir efnameiri greiða hlutfallslega meira til samfélagsins en þeir efnaminni.  Mér sýnist að ríkisstjórnin sé að breyta skattalögum í þá veru. Hún er því á réttri leið í björgunarstörfum sínum.  Málflutningur stjórnarandstöðunnar er út í hött.  Framsóknarmenn eru þó að mýkjast, einkum formaður hans. En ríkisstjórnin þarf að auka réttlæti.  Flatur niðurskurður á verðtryggðum lánum er nauðsynlegur til þess að auka réttlæti.  Það gengur ekki að venjulegt fólk sjái eignir sínar brenna upp eins og gerst hefur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.10.2010 - 19:33 - 15 ummæli

Yzta vinstrið í liði með eignastéttinni!

Við þurfum að finna lykt af réttlæti.  Tugþúsundum saman höfum við horft upp á lánin okkar vaxa  og eignir okkar verða að engu.  Okkur finnst með réttu að við séum að borga hrunið með endalausu striti okkar. Mörg okkar óttast að flæmast burt af heimilum okkar. Það er þessi skortur á réttlæti sem gerir okkur reið.  Ekki bara þau okkar sem standa í biðröðum eftir mat.  Ekki bara þau okkar sem óttast um heimili sín. Heldur okkar allra sem sjáum fram á að síga oní gröf okkar í heilu lagi eða nýbrennd án þess að skilja neitt eftir  handa börnum okkar.  Með striti okkar borgum við fjárglæfra í skjóli barnalega vitlausrar hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

Og þau okkar sem eru ung og lifa það að skríða upp úr núverandi ráni,  þeirra bíður ný kreppa þar sem gengislækkun færir enn til peninga og eignir í samfélaginu frá fjöldanum til hinna betur settu.  Og þess vegna er svo sárgrætilegt að sjá yzta vinstrið ganga í lið með eigna- og valdafólki lýveldisins í því að halda okkur utan þess skjóls sem evran gæti orðið okkur sem fullgildum meðlimum í samstarfi frjálsra ríkja í Evrópu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.10.2010 - 10:27 - 8 ummæli

Evrópska módelið!

Evrópska módelið er samfélag sem viðurkennir það í orði og verki að einstaklingarnirnir eru mismunandi, koma frá mismunandi stöðum, hafa mismunandi húðlit, hafa mismunandi trú eða enga, eru af mismunandi kyni, hafa mismunandi kynhneigð. Þetta er fjölmenningarsamfélag þar sem lög og reglur gilda jafnt fyrir alla. Gagnvart ríkinu allir jafnir. Aðgangur að baðstöðum og diskótekum og annarri þjónustu jafn fyrir alla.  Bannað að mismuna fólki.  Þessi atriði ætti allt heiðvirt fólk að hafa í huga og ef við ætlum að reisa nýtt Ísland þá verður það vonandi á þessum grunni. Ekki á grunni einangrunarhyggju, rasisma, misréttis og aulaskapar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 19:45 - 7 ummæli

Alþingi fellur á prófinu!

Niðurstaðan var vonbrigði.  Tek undir með nafna mínum McQueen að Geir Haarde á eftir að standa keikur eftir, hvernig sem fer, því hann fær að standa fyrir sínu.  Hin ekki. Hvernig sem á málin er litið var þetta vond og ósanngjörn niðurstaða. Eðlilegast er, úr því sem komið var,  að öll fjögur hefðu fengið að standa fyrir máli sínu fyrir Landsdómi.  En læt hér fylgja grein eftir okkur guðfræðingana átta sem hefur verið inn á trú.is síðan í morgun og á fullt erindi sem orð í belg.

,,Enn einu sinni erum við, þjóðin, að horfa upp á stjórmálastétt okkar falla á prófi. Það er sárt. Nú sem aldrei fyrr erum við í þörf fyrir traust og samstöðu til góðra verka. Tími uppbyggingar virðist enn ekki vera genginn í garð við Austurvöll.

Vilji til siðbótar?

Þegar vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir virtist þingið ætla að bregðast við með ábyrgum hætti. Þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka undir forsæti Atla Gíslasonar var fengið það vandasama hlutverk að taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfalla þjóðarinnar og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Þá var þeim falið að fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um æskilegar breytingar á lögum og reglum er miða að því að hindra að slíkt endurtaki sig. Samstaða virðist um að þingmannanefndin hafi skilað góðri vinnu í þessu efni.

Framan af umræðunni um skýrslu þingmannanefndarinnar virtist ríkja almennur vilji til siðbótar í stjórnmálalífi og stjórnsýslu. En nú hefur annað komið í ljós.

Þingmannanefnd tekst á við vanda

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í Hruninu. Þingmannanefndinni var einnig ætlað að taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda Hrunsins gæfu niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til slíks.

Eins og alþjóð veit varð niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að tilteknir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 í aðdraganda falls bankanna. Vanrækslan fólst í því að láta hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við hinni yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem leiddi af versnandi stöðu bankanna. Þetta reyndist einmitt erfiðasti þátturinn í verkefni þingmannanefndarinnar. Því miður tókst henni ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Meirihluti hennar komst þó að þeirri niðurstöðu að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn tilteknum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslum sínum á árinu 2008. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eins töldu að ekki bæri að ákæra neinn ráðherra.

Hlaupist undan ábyrgð

Því miður koma viðbrögð þingheims sjálfs þjóðinni í opna skjöldu. Hann reyndist ekki þeim vanda vaxinn að kalla ráðherra til ábyrgðar. Má segja að hlutur forsætisráðherra sé þar sýnu verstur en mánudaginn 20. sept. s.l. talaði hún mjög niður tillögur meirihluta þingmannanefdarinnar í ræðustól Alþingis.

Í 14. grein sjórnarskrárinnar segir „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ Það er átakanlegt að horfa upp á ráðaleysi þingmanna þegar þeim er ætlað það erfiða hlutverk að skapa framkvæmdavaldinu raunverulegt aðhald. Í umræðunum um tillögur hins klofna meirihluta þingmannanefndarinnar um að sækja þrjá eða fjóra fyrrum ráðherra til ábyrgðar hefur hver hlaupið í sína átt og þyrlað upp ótrúlegu moldviðri um eðli málsins. Þar koma í ljós hefðbundin viðbrögð kunningjasamfélagsins sem eru gagnrýnisleysi og samtrygging.

Í þingsölum hefur framkvæmd þessa ákvæðis verið líkt við pólitísk réttarhöld. Slíkt er ekki nokkru lagi líkt. Alþingi getur samkvæmt ákvæðinu aðeins kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Í kæru felst hvorki saksókn né sakfelling. Í kæru felst aðeins það að löggjafarvaldið skýtur því til dómsvaldsins að rannsaka gjörðir framkvæmdavaldsins. — Hlýtur Hrunið 2008 ekki að gefa nægilega ástæðu til þess að slík rannsókn fari fram?

Falskt öryggi?

Viðbrögð þingmanna við fram komnum tillögum um að tilteknir ráðherrar verði látnir sæta ábyrgð vekja upp grunsemdir um það að þjóðin hafi verið blekkt.

Áratugum saman hefur verið vísað til stjórnarskrárákvæðisins um landsdóm sem tryggingu fyrir því að hægt væri að kalla ráðherra til ábyrgðar en slíkt er grundvallaratriði í lýðræðis- og réttarríkjum. Nú þegar mörgum virðist ástæða komin til að grípa til þessa öryggisloka er okkur sagt að ákvæðið sé úrelt, því það standist ekki kröfur réttarríkisins um vandaða málsmeðferð né nútímakröfur um mannréttindi.

Þeir sem einna hæst tala í þessa veru eru þingmenn sjálfir. Hvað segja slík viðbrögð úr þeirri átt? Að þingmenn hafi alls ekki sett sig inn í ákvæðið, eðli þess, tilgang og afleiðingar? Ef svo er hafa þeir sofið á verðinum. Slíkt er ekki gott.

Hitt er þó verra ef þingmenn hafa gert sér þetta ljóst en látið undir höfuð leggjast að færa ákvæðið til núverandi horfs. Slíkt flokkast undir blekkingu. Þá hafa þingmenn skapað þjóðinni flaskt öryggi en sér og foringjum sínum á ráðherrastólum þeim mun öruggari stöðu þar sem þeir hafa komið í veg fyrir að hægt sé að kalla þá til ábyrgðar.

Það skal að sönnu viðurkennt að landsdómsleiðin hefur sín miklu takmörk, m.a. þau að með henni verður ekki hægt að kalla þau til ábyrgðar sem mesta sök eiga: Ráðherrana sem sátu á tímum einkavæðingarinnar. — Þingheimur þarf að finna leið til að setja merkimiða á störf þeirra, t.d. með því að samþykkja á þau vítur af einhverju tagi.

Prófraun

Þessa dagana fylgist þjóðin með þingmönnum sínum í þeirri prófraun sem þeir takast nú á við. Ætlar löggjafarvaldið að sýna að það sé raunverulega ekki undir hæl framkvæmdavaldsins — í þessu tilviki nokkrum fyrrverandi ráðherrum — eða ætlar það að beita þeim öryggistækjum sem stjórnarskráin leggur þeim í hendur?

Við gerum okkur grein fyrir að það er erfitt að kalla fyrrum samverkamenn, vini og félaga til ábyrgðar en stundum verður ekki undan því komist. Margt bendir til þess að það sé einmitt raunin núna.“

Höfundar eru Hjalti Hugason, Anna S. Pálsdóttir, Sigurður Árni Þórðarsson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Pétur Pétursson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, auk undirritaðs.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.9.2010 - 11:53 - 1 ummæli

Þingmenn koma illa út!

,,Heimspekin er dauð, eðlisfræðin blívur“  segir Stephen Hawkings og satt er það að öll raunveruleg skref í vísindaþekkingu hafa komið frá eðlisfræðinni undanfarið.  Vonandi gera heimspekilegar bollaleggingar þó enn um sinn eitthvað gagn þó þær útskýri ekki tilurð heimsins og gang í bili a.m.k.

Þingmenn koma ákaflega illa út í fjölmiðlum þessa dagana.  Siðfræðileg umræða kemur illa út í stuttum setningabrotum. ,,Nú verða þingmenn að fara eftir sannfæringu sinni“ segir einn og gefur þar með í skyn að yfirleitt sé  það ekki svo.  Þetta er misskilningur.  Þingmaður hlýtur alltaf að fara eftir sannfæringu sinni.  Jafnvel þó hann fari eftir flokkslínu og taki skref sem honum líkar ekki, hlýtur sannfæring hans að vera sú að þetta sé rétt skref skoðað í heildarsamhengi.  Ergo:  Þingmenn hljóta alltaf að fara eftir sannfæringu sinni.

,,Nú verða menn að fylgja samvisku sinni og hugsa málin hver fyrir sig“, segir annar og áttar sig greinilega ekki á því að ,,sam“ viska hlýtur að vera sameiginleg viska.  Samviska verður m.ö.o. aldrei slitin úr samhengi við samtal, samráð, samvinnu, sam-eiginlega hagsmuni eða ,,sam“ eiginlegan vilja. Það afsakar sig enginn með því að samviskan leyfi honum ekki hitt eða þetta.  Þannig getur samviska þjófsins verið hrein ef hann er sykkopat.  Sú merking orðsins að samviska sé eitthvað sem menn finni þegar þeir fara á sitt eigið djúp og tengist einhvern veginn hinum æðsta sannleika er auðvitað tóm fjarstæða.

M.ö.o. hvað varðar spurninguna um landsdóm verða þingmenn að leita á nákvæmlega sömu mið og venjulega, leita í vit sitt, visku sína. Gera  það sem þeir álíta rétt og munu ekki komast upp með einhvern orðhengishátt um ,,eigin samvisku“ sem er ekki til í þeirri merkingu sem menn vilja hafa hana.

Nema þá að eðlisfræðin verði látin taka alveg yfir en það gerist ef menn verða ófærir að hugsa heimspekilega þar sem siðfræðin er undirdeild.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.9.2010 - 14:51 - 5 ummæli

Breytum fótboltanum!

Fótboltinn er orðinn of úthugsaður og um leið of harður og líkamlegur.  Leikmenn orðnir of massaðir.  Fínu, leiknu, lipru  mennirnir eru að hverfa.  Slíkir menn eru straujaðir niður.  (Nú er sigur Breiðabliks dæmi um hið gagnstæða-til hamingju Breiðablik). Einu sinni gátu menn meira að segja verið feitir og leiknir. Þá voru varnarmenn klunnalegir og latir og kunnu ekki að renna sér.  Samt horfum við á boltann. En það er ekki af ást á fegurð og brilljansí.  það er af sömu hvötum og við horfðum á ljón tæta í sig menn í Colosseum hér í gamla daga.

Mín tillaga er sú að fækka leikmönnum niður í sjö.  Þá geta fljótu, léttu, lipru leikmennirnir frekar hlaupið mössuðu bjálfana af sér.  Í landsleikjum ætti hluti leikmanna að vera yfir fimmtugu þar af einn yfir sjötugu og jafnvel áttræðu. Þannig myndi fást betri þverskurður af getu þjóðar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.9.2010 - 18:52 - 13 ummæli

Er Haraldur Benediktsson að bulla?

Ég er einn af þeim sem hefur reitt fram háfa milljón til þess að fá ljósleiðara í hús okkar hjóna að Svínafelli í Öræfum.  Þetta geri ég til þess að geta unnið á tölvuna mína og horft á sjónvarpið mitt.  Það er vitaskuld megnasta óréttlæti, misrétti að íbúar á þessu svæði þurfi að kosta svona miklu til til að standa jafnfætis íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Í leiðara í Bændablaðinu lætur Haraldur Benediktsson formaður hagsmunasamtaka bænda að því liggja að þetta sé Evrópusambandinu að kenna þ.e. þarna ,,virðist“ um að ræða ,,enn eitt dæmið um misheppnaða innleiðingu á Evrópusambandslöggjöf“.  Hvað meinar maðurinn?  Er þetta því að kenna að innleiðing misheppnaðist? Verður ekki að bæta úrþví?  Í framhaldinu má hins vegar beinlínis  skilja að þetta sé ESB að kenna.  Er maðurinn bara að bulla. Getur einhver sérfræðingur greint þetta?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur