Sunnudagur 27.03.2011 - 13:45 - FB ummæli ()

Fyrir seinni tíma

Jóhann Hauksson skrifar á bloggsíðu sína um Björn L. Bergsson sem er formaður þeirrar kærunefndar jafnréttismála, sem felldi þann úrskurð að Jóhanna Sigurðardóttir hefði brotið jafnréttislög um daginn.

Sjónarmið Jóhanns eru góð og gild, en ég er búinn að segja mitt um þennan úrskurð sem Jóhanna fékk á sig, og ætla ekki að fjölyrða meira um hann.

En Jóhann vekur líka athygli á því að Björn L. var einmitt sá sérskipaði saksóknari sem komst að þeirri niðurstöðu á alveg ógnarhraða að bankastjórar Seðlabankans (Davíð og Ingimundur og Eiríkur) og yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr., hefðu ekki gerst brotlegir við neitt sérstakt með frammistöðu sinni fyrir hrun.

Þetta var í kjölfar Rannsóknarskýrslunnar í fyrra, og það vakti eiginlega enga athygli að Björn skyldi hreinsa þessa góðu menn – af því hann var svo gríðarlega snöggur af því.

Þetta var bara einn, tveir, hvítþvottur.

Ég veit ekkert hvort hægt sé að halda því fram að þeir fjórmenningar hafi beinlínis brotið lög.

Og mér er ekkert kappsmál að dæma menn í fangelsi.

En mér er aftur á móti kappsmál að allar hliðar hrunsins verði rannsakaðar í alvöru, og af þunga, og þar á meðal þáttur Seðlabankastjóranna og forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins.

Hvernig gátu Seðlabankastjórarnir og FME setið nánast aðgerðarlausir hjá meðan bankakerfið í landinu flaut hjá til andskotans, og það litla sem þeir gerðu var heldur til tjóns en hitt?

Og svo borið bara alls enga ábyrgð?

Eins og ég segi: Björn L. var svo snöggur að úrskurða um þetta í fyrra að við tókum varla eftir því.

En þetta er meðal þess sem verður að skoða.

Það væri gott ef ríkisstjórnin sæi svo um að þótt Björn L. hafi verið snöggur með kattarþvottinn í fyrra, þá hafi hann ekki náð að loka neinum dyrum.

Fyrir seinni tíma.

Þegar þetta verður áreiðanlega allt tekið upp aftur, og rannsakað í þaula.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!