Fimmtudagur 07.04.2011 - 00:04 - FB ummæli ()

Ég segi „já“ við samningaleiðinni

Ég ætla að segja „já“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um samninginn um Icesave.

Þetta ætla ég að gera að MJÖG vel athugðu máli, enda höfum við Íslendingar svo sem ekki komist hjá því að hugsa um lítið annað en Icesave síðustu tvö og hálft ár.

Ég kann allar röksemdirnar fyrir því að segja „nei“ og ber virðingu fyrir þeim flestum.

En fyrir mitt leyti ætla ég að hafna þeim.

(Það skal tekið fram að það að „við eigum ekki að borga skuldir einkabanka“ er ekki gild röksemd. Við erum búin að taka að okkur fullt af skuldum einkabankans, þar á meðal erum við búin að ábyrgjast allar innistæður okkar eigin auðkýfinga. Það prinsip er því ekki lengur fyrir hendi.)

Ég gæti sett á langan fyrirlestur um ástæður mínar fyrir því að segja „já“ en nefni þó aðeins tvær þær almennustu.

Í fyrsta lagi:

Í „góðærinu“ stærðu Íslendingar sig af því að vera hraustir menn og djarfir.

Áhættusækni var hrósyrði.

Núna stöndum við frammi fyrir því að hafa gert samning, sem auðvitað gleður engan, en þó er ljóst að áhættan af honum er lítil.

Langlíklegast er að við þurfum tiltölulega lítið að borga.

Það má hugsa sér aðstæður sem myndu hækka greiðslubyrðina vegna þessara samninga, en þær aðstæður eru ekki ýkja líklegar.

Og þær munu þá hafa sín skaðlegu áhrif hvort sem við segjum „já“ eða „nei“ við Icesave-samningnum.

En ég ítreka að samningurinn felur ekki í sér mikla áhættu.

Ég veit vel að ekki eru allir sammála því, en eftir eins mikla umhugsun og mér er unnt að leggja í málið, þá tel ég að áhættan sé ekki mikil.

Sér í lagi miðað við að það er nánast 100 prósent víst að samningur mun hafa góð áhrif á atvinnustig í landinu.

Og við VERÐUM að útrýma atvinnuleysinu.

Það er það verkefni sem skiptir ÖLLU máli núna.

Á hinn bóginn er ekki hægt að líta framhjá því að „nei“ leiðin er talsvert áhættusöm.

Sumir myndu segja mjög áhættusöm.

Nú spretta upp sumir og segja iss, piss, aumingi, þorir ekki að standa í lappirnar, ertu maður eða mús, svona hræddur við dómstólaleiðina, viltu kyssa vöndinn, hahaha, við þurfum ekkert að óttast.

En jú, við höfum ýmislegt að óttast.

Dómstólaleiðin er áhættusöm, og ef illa fer – þá fer mjög illa.

Ég verð að viðurkenna að árum saman lét ég það líðast í „góðærinu“ að áhættusækni væri talin dyggð.

Ég hrósaði henni kannski ekki, en ég fordæmdi hana ekki heldur.

Það er minn bömmer.

Núna hef ég lært mína lexíu.

Þegar við stöndum annars vegar frammi fyrir kosti sem kostar ekki mikið miðað við aðrar byrðar okkar, en getur haft jákvæð áhrif, og svo hins vegar frammi fyrir kosti sem hefur verulega áhættu í för með sér (bæði hvað snertir peninga, tíma, atvinnu og orku samfélagsins) – þá vel ég alveg hiklaust fyrri kostinn.

Já.

Mér er sama þó ég teljist þar með mús.

Ég skal reyndar vera ljómandi stolt mús.

Mannalætin hafa hvort sem er ekki farið okkur Íslendingum of vel síðustu árin.

En í öðru lagi.

Þó ég hafi vissulega kynnt mér málið eins vel og ég hef getað – og miklu miklu betur en ég hefði VILJAÐ – þá viðurkenni ég fúslega að þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég ekki sérfræðingur.

Satt að segja furða ég mig á öllum þeim sérfræðingum í alþjóðalögfræði, fjármálaviðskiptum og innistæðutryggingarmálum sem nú ganga ljósum logum um land okkar.

Þrátt fyrir allan þann tíma sem ég hef eytt í málið, þá myndi aldrei hvarfla að mér að þykjast vita eitthvað alveg 100 prósent um möguleg úrslit fyrir dómstólum, heimtur á eignasafni Landsbankans o.s.frv. o.s.frv.

En ég þarf heldur ekki að vita það allt saman.

Ég þarf fyrst og fremst að vita hverjum ég get treyst.

Eftir hrunið var lengi talað um að við yrðum að fá útlendinga til að hjálpa okkur að gera málin upp, og rannsaka þau.

Við gætum ekki – vegna biturrar reynslu – treyst neinum af okkar eigin fólki.

Við værum þrátt fyrir allt ekki nema 300.000 manns, þótt um stund hefðum við verið farin að ímynda okkur að við værum milljónaþjóð – og okkar fólk væri öllum öðrum snjallari.

Nei, við yrðum að fá hjálp.

Þetta var bljúg, auðmjúk, falleg og einlæg ósk.

Og alveg rétt ósk líka.

Auðvitað áttum við að fá hjálp erlendis frá.

Því miður varð minna úr því en ég að minnsta kosti hefði óskað.

En í Icesave-málinu – viti menn, þá fengum við útlenska aðstoð.

Einhver allra fremsti og snjallasti sérfræðingur í heimi á þessu sviði kom okkur til aðstoðar við að semja við Breta og Hollendinga.

Lee Bucheit.

Og þegar ég stend í Icesave-röksemdum upp að höndunum, með raddir gargandi „nei“ eða „já“ í bæði eyrun, þá játa ég af algjörri auðmýkt:

Ég tek meira mark á þessum manni en samanlögðum fylkingunum hérlendis.

Og ef hann segir mér að þetta sé viðunandi samningur sem fylgi lítil áhætta, þá hlusta ég.

Og segi „já“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!