Föstudagur 08.04.2011 - 07:51 - FB ummæli ()

Hættum að vera tilraunadýr

Mér skilst að margir eigi svo erfitt með að gera upp hug sinn í Icesave-málinu að þeir skipti um skoðun nánast daglega.

Ég geri það reyndar ekki.

Ég ætla enn að segja „já“.

Ekkert af því sem ég hef heyrt nú síðustu dægur breytir aðalatriði málsins í mínum augum:

Að áhættan af því að segja „já“ er lítil.

Fjarska lítil.

En áhættan af því að segja „nei“ er umtalsvert meiri.

Ég er líka jafn sannfærður og áður um að áhrifin af því að segja „já“ verða umsvifalaust góð, einkum á atvinnulíf.

Og við VERÐUM að koma atvinnulífinu í gang.

Áhrifin af því að segja „nei“ verða hins vegar áframhaldandi óvissuástand í svo og svo langan tíma. Líklega mörg ár.

Ekkert sem ég hef séð í áróðrinum undanfarna daga breytir þessum höfuðatriðum, að mínu hógværa mati.

Því ætla ég að segja „já“ við samningaleiðinni.

Ég skil hins vegar vel að ýmsir lögfræðingar mæli eindregið fyrir dómstólaleiðinni.

Icesave er örugglega bráðskemmtilegt lögfræðilegt álitaefni, sem virkilegt fjör væri að sjá karpað um fyrir dómi.

Og lögfræðingar fá jú alltaf kaupið sitt, hvernig sem fer fyrir dómstólum.

Ég vil hins vegar ekki þessa leið.

Í mörg ár vorum við tilraunadýr í glannalegri fjármálafræði.

Ég vil ekki að nú verðum við tilraunadýr í glannalegri lögfræði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!