Fimmtudagur 14.04.2011 - 11:08 - FB ummæli ()

Að tala við þjóð sína

Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur verið í viðtali hjá Bloomberg fréttastofunni.

Fyrst skammaði hann hin alþjóðlegu matsfyrirtæki, og margir hafa vafalaust kinkað kolli.

Það er illt að bera mikla virðingu fyrir þessum fyrirtækjum, eftir reynslu okkar Íslendinga af þeim í „góðærinu“ og hruninu.

En var nú samt akkúrat svona sem akkúrat forsetinn hefði akkúrat átt að hegða sér?

Ekki fannst Lars Christensen það.

Hann reyndist á sínum tíma hafa meira vit á horfunum í íslensku efnahagslífi en bæði matsfyrirtækin og Ólafur Ragnar Grímsson samanlagt, svo ég hneigist til að taka alveg hikstalaust mark á honum.

En látum það liggja milli hluta.

Nú hefur Ólafur Ragnar útskýrt fyrir Bloomberg af hverju hann studdi íslensku bankana og útrásarfyrirtækin svo skefjalaust á grilltímabilinu.

Þið munið – „you ain´t seen nothing yet“, „hinir tólf eðlisþættir Íslendinga“ og það allt.

Þetta útskýrir Ólafur Ragnar fyrir Bloomberg þannig að sér hafi borið skylda til að lofa og prísa bankana, sjá hér.

Því það sé á verksviði forsetans að „styðja efnahagslíf þjóðarinnar“ og þá fyrst og fremst í útlöndum.

Ja, það er nú það.

Er það á verksviði forsetans?

Sumir myndu kannski segja sem svo.

Mér finnst það reyndar ekki.

Hinn ótæpilegi stuðningur sem Ólafur Ragnar veitti bönkum og útrásarfyrirtækjum sýnir mér a.m.k. fram á að slíkt á aldrei að vera nema aukahlutverk forsetans – og hann á þar að fara mjög varlega.

Hlutverk forseta Íslands – fyrir utan stjórnskipunarlegt hlutverk hans, sem verður til umræðu í stjórnlagaráðinu og vonandi víðar í samfélaginu næstu vikur og mánuði – það finnst mér vera einfalt.

Að tala við þjóð sína.

Að segja henni til syndanna, án þess að rífa hana niður. Að tala í hana kjark – án þess að ýta undir belging og innantómt þjóðernismont.

Þetta finnst mér vera á verksviði forsetans.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!