Sunnudagur 08.05.2011 - 18:41 - FB ummæli ()

Ekki fasistapakk

Ég mundi auðvitað ekki kalla þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ragnheiði Elínu Árnadóttur „fasistapakk“.

En ég verð hins vegar að segja að ég skil samt vel þá gremju sem gripið hefur Þráin Bertelsson þegar þær stöllur tóku að andæfa af miklum krafti vali á Andra Snæ Magnasyni í nefnd til að vinna úr hugmyndum um uppbyggingu í Þingvallaþjóðgarði.

Sjá hér.

Hver er Andri Snær Magnason?

Hann er vitaskuld ekki guð almáttugur, hann er ekki óskeikull, og hver sem vill má auðvitað hafa á honum sína persónulegu skoðun.

En hann er samt alveg óumdeilanlega hugmyndaríkur, frjór og uppátækjasamur – mikill ástríðumaður í öllu er lýtur að umhverfi okkar, skipulagsmálum og menningu.

Hann virðist vera nákvæmlega klæðskerasaumaður í nefnd til að vinna úr hugmyndum um uppbyggingu í Þingvallaþjóðgarði.

(Það skal tekið fram að ég þekki Andra Snæ Magnason ósköp lítið. Mundi samt heilsa honum á götu.)

En nei … þær Ragnheiður Elín og Þorgerður Katrín vilja ekki sjá Andra Snæ í þessa nefnd.

Og ástæðan er sú að hann sé svo „umdeildur“.

„Umdeildur“ þýðir auðvitað í þessu tilfelli að Andri Snær hefur gagnrýnt mjög harkalega og afdráttarlaust ýmsar þær hugmyndir sem hafa verið ær og kýr Sjálfstæðisflokksins upp á síðkastið.

Bæði í umhverfismálum og samfélagsmálum almennt.

Sjálfstæðiskonurnar tvær virðast líta svo á að fyrst Andri Snær hafi gerst sekur um þann voðalega glæp, þá sé hann alveg svakalega „umdeildur“ í samfélaginu og geti ekki tekið sæti í nefnd sem virðist þó eins og sniðin fyrir hann, hans hæfileika og áhugamál.

Hver segir svo að þær séu dauðar, hugmyndir um að störf og framgangur einstaklinga eigi að fara eftir stjórnmálatengslum og stjórnmálaskoðunum þeirra?

Þær lifa greinilega góðu lífi hjá Ragnheiði Elínu og Þorgerði Katrínu.

Að Þráni hafi gramist það, skil ég afar vel. Þó ég myndi ekki taka til orða eins og hann.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!